Friday, December 4, 2009

Romy and Michelle's High School Reunion

Þessa mynd sá ég fyrst þegar hún kom út fyrir löngu og mundi fátt nema að mér hafði fundist hún ótrúlega skemmtileg! Ég sá hana aftur núna um daginn þegar ég lá heima veik með sýkingu í hálsinum og hafði gaman af en af allt öðrum ástæðum en áður.

            Romy and Michelle eru bestu vinkonur og hafa verið frá því í High School. Þær eru algjörar samlokur og búa ennþá saman 10 árum eftir útskrift. Þegar Romy hittir gamla skólasystur þeirra, sem þær minnast sem algjörs fríks, fréttir hún af 10 ára reunioni skólans og vinkonurnar taka smá trip down memory lane. Þá kemur í ljós að í menntaskóla áttu þær fáa vini, voru taldar skrítnar og tilheyrðu engum sérstökum hópi. Þær ákváðu að eftir skólann myndu þær sko meika það í LA en það lítur ekki út fyrir það þar sem að þær eru báðar á lausu, Michelle er atvinnulaus og Romy hefur skítavinnu. Þær þrá ekkert heitar en að fara á endurfundina og láta alla krakkana sem litu niður á þær í high school virða þær vegna þess hvað þær eru núna successful í lífinu. Það verður erfitt þar sem þær eru það alls ekki.

            Þessi mynd er engin snilld það er alveg augljóst en hún er held ég mjög misskilin. Það sem ég held að fólk taki ekki eftir, og þá sérstaklega ameríkanar, er að hún er skemmtileg ádeila á alla umræðuna um þennan alræmda high school. Ég upplifði hana miklu meira eins og satíru (held reyndar að þetta sé ekki íslenskt  orð þó svo að það sé fullkomlega skiljanlegt) frekar en eitthvað annað.  Mér fannst eins og hver kjánahrollur sem ég fékk ætti að vera kjánahrollur á Ameríku og þetta geðveika high school æði sem tröllríður amerískri kvikmyndagerð. Mér fannst aulahúmorinn æðislegur og ég skammast mín ekkert fyrir það að segjast hafa skellt upp úr oftar en einu sinni og oftar en þrisvar! Endirinn er líka alltof mikil klisja til þess að hægt sé að taka þessa kvikmynd alvarlega og innsiglaði tilfinninguna sem ég hafði alla myndina, þ.e. að hún væri léleg af mjög góðri ástæðu. Og ég hef aldrei séð mynd sem er léleg en það pirrar mig ekki heldur gleður mig! Virkilega sérstakt og þess vegna fann ég mig knúna til þess að spreða nokkrum orðum á hana.             

Yojimbo

Kvikmyndin Yojimbo frá árinu 1961 fjallar í extra stuttu máli um Sanjuro sem er samúrai, lífvörður, án húsbónda (master) og hefur engan til að vernda. Hann er að ferðast og kemur að litlu þorpi sem er stjórnað af tveimur mönnum, Sebei og Ushitora. Sanjuro verður lífvörður fyrir báða.

Yojimbo er afburða flott og vel gerð mynd. Ég þarfnast reyndar þjálfunar í að horfa á svona myndir vegna þess að mér fannst allt ganga frekar hægt og skrítið að hlusta á japönskuna. Ég gerði mér auðvitað enga grein fyrir því hvað þau voru að segja vegna þess að ég get ekki einu sinni raðað orðunum í frumlag, umsögn og andlag. Ég veit ekki einu sinni hvort að setningafræðin er þannig hjá japönum! Ég held líka að ég hafi oft hlegið þegar meiningin með myndinni var ekki að vera fyndin.

Ég fékk oft svona vestra tilfinningu. Bærinn sem er ekki nógu stór fyrir báða menn og gang-slagurinn þar sem hóparnir voru á móti hvor öðrum í bænum. Akira Kurosawa einblínir samt ekki á að hafa hana fulla af bardögum heldur leggur hann áherslu á að byggja á góðum grunni. Byrjunarskotið aftan á samúraiann er mjög flott og skemmtilegt að sjá ekki strax framan í hann heldur bara að sjá hann einan í eyðimörkinni. Toshiro Mifune er flottur í hlutverki Sanjuro og hann er góður karakter. Hann lætur sér annt um ókunnuga og það er eitthvað sem við mættum öll gera meira af! Maður gerir sér samt ekki alveg grein fyrir því hvort að hann hafi einfaldlega svona mikla ástríðu fyrir að bjarga sveitalubbum í litlum þorpum eða hvort honum leiðist bara svona mikið. Í byrjun hefur hann eins og áður sagði ekkert að gera og veit ekki hvaða stefnu hann á að taka, fyrr en hann hendir upp prikinu.

Já ég hugsa að myndatakan sé það flottasta í myndinni. Það er svo margt sagt með henni án þess að nota orð og ég sá mörg skot sem hefðu getað verði málverk eða ljósmyndir. Ég hugsa að það hefði ekki breytt miklu fyrir mig ef að þetta hefði verið mynd án hljóðs. Ég lét kannski japönskuna fara óþarflega mikið í taugarnar á mér en það kemur allt með kalda vatninu! (Kalda vatnið verandi það að horfa á fleiri japanskar myndir.)

Jæja ég hef ekki meiri tíma í þetta blogg því miður en þó svo að Yojimbo sé ekki uppáhalds myndin mín þá skildi ég vel af hverju hún er svona mikils virt í kvikmyndaheiminum.

Thursday, December 3, 2009

Vicky Cristina Barcelona




Vicky Cristina Barcelona fjallar um Vicky og Cristinu sem fara til Barcelona, eins og titillinn gefur í skyn, yfir eitt sumar. Vicky er trúlofuð mjög stabílum og traustum manni (heldur dull samt) og ætlar að gifta sig um haustið.

Hana langar til Barcelona vegna þess að hún er við það að fá meistaragráðu í katalónskum fræðum og hefur áhuga á að skoða katalónskar bækur og skjöl. Cristina er hins vegar þessi rómantíska, hvatvísa týpa sem er stanslaust að leita að þessari einu sönnu ást og veit ekkert hvað hana langar að gera við líf sitt. Í Barcelona búa þær hjá frænda Vicky og konunni hans. Í byrjun er sagt frá því að þær séu sammála um allt nema ástina sem virðist í fyrstu vera stór gloppa í handritinu og fór í taugarnar á mér framan af.

En geymum það. Vicky og Cristina skoða Barcelona sem er ótrúlega heillandi borg og gaman að sjá þessa mynd núna eftir að hafa lært aðeins um borgina.


Ég hef nýlega lært um Gaudí, kirkjuna hans og fallega arkítektúrinn sem einkennir víst Barcelona. Vá hvað mig langar núna að fara þangað! Það er eitt af mörgu sem var sjarmerandi við myndina. Það er gríðarlega fallega borgin sem hún er tekin í, rólega spænska stemningin og auðvitað spænskan sem heyrðist af og til. En aftur að Vicky og Cristinu. Kvöld eitt fara þær á listasýningu og þar tekur Cristina eftir heillandi manni í rauðri skyrtu. Áhugi hennar er vakinn og glæðist ennfrekar þegar hún kemst að því að hann er listamaður og er nýskilinn við konuna sína eftir gríðarlega ástríðufullt hjónaband. Eftir listasýninguna fara þær Vicky út að borða og hver er þar nema Juan Antonio, listamaðurinn í rauðu skyrtunni.

Hann vill ólmur bjóða vinkonunum til Obtaviu, spænsk smábæjar, og á meðan Cristina er meira en lítið til í að koma með, vill Vicky ekki heyra á það minnst! En á endanum þiggja þær boðið og þar með hefst ævintýrið.

Vicky Cristina Barcelona er afskaplega sjarmerandi mynd. Full af ástríðu og rómantík. Hún flæðir áreynslulaust og handritið er mjög vel skrifað og skemmtilegt. Allar persónurnar virka raunverulegar og eru einstakar á sinn hátt. Sérstaklega fannst mér skemmtilegur hefðbundni bandaríski eiginmaðurinn sem endaði með miklu fallegri konu og býður upp á örugga framtíð en hvorki hvatvísa né ástríðufulla. Uppáhaldið mitt var samt sögumaðurinn! Það gaf myndinni skemmtilegan vinkil að hafa dimmraddaðan karlmann rekja sögu stúlknanna tveggja.

Hann var reyndar ekki beint karakter heldur var augljóslega reynt að gefa honum eins lítinn persónuleika og hægt var, en það var það sem gerði hann svona skemmtilegan! Það sem var svo skemmtilegt við söguna er að þetta sumar sem öll myndin fjallar um breytti einhvern veginn svo miklu hjá þessum stelpum en samt í rauninni engu. Mörgum gæti fundist þessi mynd algjörlega tilgangslaus en mér finnst þetta virka.

Svona er þetta í lífinu. Það breytist ekki allt með einu sumri á Spáni, flestir eru of hræddir fyrir alvöru áhættur og kjósa frekar að vera öruggir. Ég upplifði þetta sem svona örmynd, áhorfandinn fékk að líta við í lífi Vicky og Cristina á tímabili sem þær munu hugsa um alla ævi.

(Eða þú veist ef þær væru til í alvöru!)

Myndin hefur ekkert yfirbragð þessarar amerísku klisju rómantíkur sem fer svo ótrúlega mikið í taugarnar á mér! (Hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem ég mun minnast á þetta!!) . Hún er frekar full af spænskri ástríðu sem er kannski klisja í sjálfu sér, bara ekki klisja sem fær mann til að langa að æla.

Eins og ég minntist á áður eiga vinkonurnar Vicky og Cristina að vera sammála um flest en mér fannst þær vera ósammála eiginlega alla myndina og þá helst framan af. Ég upplifði þær alveg sem svart og hvítt, bæði í útliti og persónuleika.

Þó tóku þær að líkjast hvor annarri eftir því sem leið á myndina, aðallega fór Vicky að líkjast Cristinu, og ég geri mér ekki grein fyrir því hvort að Vicky hafi alltaf verið þannig og að Barcelona hafi einfaldlega dregið þetta Cristinu-element fram í henni eða hvort að Barcelona hafi breytt Vicky. Ég upplifði Barcelona ferð þeirra frekar eins og breytingu fyrir Vicky en þá skil ég ekki þessa fullyrðingu í upphafi myndar um að þær væru sammála í einu og öllu fyrir utan ástina.

Þetta ruglaði mig alveg en ef til vill er ég að misskilja eða láta smáatriði fara of mikið í taugarnar á mér.

Myndatakan var stundum rosalega venjuleg en stundum óvenjuleg.

Mér brá stundum þegar ég bjóst við að það yrði klippt á karakter sem var að tala, eins og er vanalega gert, en í staðinn hélst skotið lengur. Æ erfitt að útskýra, þeir taka vonandi eftir þessu sem munu sjá myndina, en það gaf henni stundum svona viðtalslegt yfirbragð sem hentaði mjög vel. Þetta var eflaust allt úthugsað og ábyggilega mjög Woody Allen!

Ég var að flestu leyti mjög sátt með myndina. Leikurinn var skemmtilegur hjá flestum þó svo að mér finnist Penelope Cruz ofmetin. Ég meina hún stóð sig vel en þetta var ekkert til þess að missa sig yfir. Javier Bardem fannst mér skemmtilegur og eins og ég minntist á áður, bandaríski eiginmaðurinn.

Jæja nú er komið gott og að lokum langar mig bara að segja að Woody gerði virkilega góða mynd, hún breytir ekkert lífinu eða hugsanaganginum en þetta var prýðis afþreying. Plús að hann valdi sjúklega heitar konur til að leika í henni!

Monday, November 23, 2009

Jóhannes

Ég skellti mér á Jóhannes fyrir stuttu. Ég er, eins og ég hef áður minnst á, mikill aðdáandi íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsgerðar. Ekki það að mér finnist það alltaf bestu myndirnar en þær eru svo nálægt manni út af tungumálinu og menningunni.

Jóhannes fjallar um Jóhannes sem er leikinn af Ladda og kennir myndmennt í ónefndum skóla á höfuðborgarsvæðinu. Myndin fylgir í raun hörmulegum degi í lífi þessa manns sem er ósköp venjulegur en á þessum degi virðist svart óveðurský elta hann á röndum! Inn í myndina koma áhugaverðir karakterar, sveitastúlkan, eiturlyfjasalinn og brjálaði kærastinn.

Það er svolítið erfitt fyrir mig að skrifa um Jóhannes þar sem að fyrsta hálftímann höfðu einhverjir erkibjánar gleymt að slökkva á playlistanum sem ómar stanslaust í sölum háskólabíó þegar myndirnar eru ekki í gangi og ég skildi ekkert hvaða hræðilega lagaval var í myndinni og af hverju þeim fannst nauðsynlegt að hafa alltaf tónlist undir samtölunum! En ég fattaði sem betur fer, þó eftir hálftíma, hvernig á þessu stóð og fór fram og bað stúlkurnar í afgreiðslunni vinsamlega um að slökkva á fm957 tónlistinni. Úff.. ,,Guuuuuuuuuuuð í alvöru? Æ..æ..." Smá moodkiller en ég komst fljótt yfir þetta!

Aðalgagnrýnin mín, sem var semsagt undarlegt lagaval og léleg hljóðblöndun, var semsagt fokin út í veður og vind. En jæja nóg um afglöp apanna í Háskólabíó (sem bættu mér og mömmu þetta reyndar upp).

Ég geri mér grein fyrir því að ég minnist alltaf á þetta en myndatakan... hehe ég tók eftir allmörgum flottum skotum í þessari mynd! Það var til dæmis eitt í lokin þegar Jóhannes stendur á pallinum í sumarhúsinu og þetta er tekið svona upp og allt húsið sést í skotinu og gróðurinn í kring og manni fannst eins og hann væri staddur í paradís sem var nákvæmlega líðan hans. Svo fannst mér líka flott skot þar sem hann kom út úr lögreglustöðinni og stendur alveg uppgefinn á tröppunum. Mér fannst eiginlega myndatakan vera best við þessa mynd og svo Stefán Hallur sem lék afbrýðisama kærasta Unnar Birnu, eða Tótu. Hans týpa var skemmtileg. Ótrúlega reiður og froðufellandi handrukkari. Ýkt týpa sem á vel við í mynd af þessu tagi.

Það sem mér fannst mest að myndinni var einfaldlega að hún fékk mig ekki til þess að hlæja. Ég held að ég hafi einu sinni alveg skellt upp úr og það var einhvern tíma þegar enginn annar í salnum hló og ég fékk eitt hneykslunaraugnaráð frá 9 ára stelpu. Get samt engan veginn munað af hverju ég hló eða hvaða atriði þetta var! Þetta átti augljóslega að vera grínmynd en varð samt einhvern veginn lítið fyndin. Týpan hans Stefáns Halls var eins og áður sagði sjúklega ýkt svo að hann virkaði vel. Söguþráðurinn var alveg fínn, ekkert það mest frumlega í kvikmyndasögunni en mér fannst hann samt alveg ganga upp. Ég var ekki orðin pirruð á öllum slæmu hlutunum sem komu fyrir hann vegna þess að mér fannst þeir einhvern veginn alveg vera trúverðugir. Kannski kom það niður á bröndurunum ég veit það ekki.

Annað sem fór í taugarnar á mér var krakkinn sem var í myndmenntabekknum hans Jóhannesar. Algjör rebel sem nennir ekki að læra. Mér fannst þetta bara einhvern veginn vera ótrúverðugur karakter. Kannski af því að ég var í árgangi í grunnskóla þar sem eina fólkið sem strunsaði út úr tíma og öskraði á kennarana voru stelpurnar. En mér fannst fáránlegt að hann skyldi sitja þarna fyrir utan stofuna ef hann ætlaði ekki að koma inn. Frekar myndi hann skrópa og hanga í einhverri sjoppunni. Og þó svo að skólastjórinn hafi verið ágætlega fyndinn var senan þar sem dónalegi strákurinn er inni hjá honum og sakar Jóhannes um kynferðislega áreitni undarleg og pirrandi. Svona mikill aumingi ætti allavega alls ekki að vera skólastjóri!

Unnur Birna er svo sannarlega leiðinleg leikkona. Stelpan má eiga það að hún er sjúklega sæt sem virðist vera eina ástæðan fyrir því að henni var boðið þetta hlutverk. Hún hefur engan karisma á kvikmyndaskjánum og karakterinn hennar var algjörlega flatur og þurr. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum það var ekki fengin betri leikkona í þetta hlutverk! Það er ekki eins og hún sé eina fallega konan á landinu.

En að öðru leyti fannst mér þetta ágætlega leikin mynd. Stundum var hljóðið samt eitthvað undarlegt, hefði mátt hljóðblanda þetta aðeins nákvæmar. Vantaði kannski fullkomnunaráráttuna í hljóðmanninn.

Jæja ég hef ekki mikið meira að segja um Jóhannes. Til þess að taka þetta saman fannst mér Jóhannes vera ágæt mynd, alls ekki jafn léleg og ég hélt en hefði mátt vera miklu fyndnari þar sem að það er jú lagt upp með grínmynd. Nokkrir skemmtilegir karakterar en líka nokkrir lélegir. Myndatakan skemmtileg en hljóðið var undarlegt þó svo að ég eigi erfitt með að setja fingurinn nákvæmlega á hvað það var sem var skrítið.

Að lokum langar mig bara til þess að segja að mér fannst hún krúttleg út af því að hún fékk EKKERT fjármagn! Mikið afrek að geta komið svona mynd út án styrks úr Kvikmyndasjóði.





Takk fyrir lesturinn!

Sunday, November 22, 2009

Í frjálsu falli - Freefall

Jæja. Nú rétt áðan horfði ég á sjónvarpsmyndina Freefall eða Í frjálsu falli. Hún er frá þessu ári, 2009 en gerist á árunum 2007 og 2008 þegar góðærið var og féll. Hún er bresk.



Hún fjallar um þrjá mismunandi menn. Einn af þeim er Dave sem selur fólki sem á ekki peninga lán til þess að kaupa hluti sem það hefur ekki efni á. Hann selur og selur og allt gengur honum í hag en hann er óheiðarlegur og platar fólk út í að fá þessi lán. Hann heldur framhjá kærustunni sinni og kemur illa fram við vini sína. Annar maðurinn er bankamaður sem, ef ég skyldi þetta rétt, býr til lánin fyrir Dave til að selja. Hann er sjálfhverfur og virðist ekki getað elskað neinn annan en sjálfan sig. Allt líf hans snýst í kringum vinnuna. Hann hugsar illa um hjásvæfuna sína og dóttur sína. Hann sér um eitthvað sem kallast skuldavafningar. Uuuu man ekki hvað hann heitir.. Uuu nei. Þriðji maðurinn, Jim Potter, er gamall skólafélagi Dave. Hann á tvö börn og konu, Mandy Potter, en hefur rétt svo næga peninga á milli handanna til þess að komast af. Hann vinnur sem öryggisvörður í verslunarmiðstöð og hittir þar einn dag gamla félaga sinn Dave. Hann platar Jim til þess að taka lán fyrir nýju húsi þrátt fyrir að Mandy vilji það ekki.

Í frjálsu falli er augljóslega rosalega fyrirsjáanleg og það kemur í raun ekkert á óvart í myndinni. Það er reyndar eðlilegt þar sem hún fjallar um bankahrunið og kreppuna sem allir vita hvernig hefur gengið hingað til og ekki síst þann mannlega harm sem býr að baki. Þetta var náttúrulega allt bara eitt risastórt svindl keyrt áfram af græðgi og er það augljóst í myndinni.

Myndatakan var skemmtileg. Hún er lifandi og augljóslega oft tekin fríhendis. Það voru reyndar nokkur skot sem voru mjög dökk og sást varla neitt en ég held að það hafi verið meiningin vegna þess að það kom ekki niður á söguþræðinum. Það eru mörg close up skot og þá sérstaklega notuð í tilfinningaþrungnum senum og wide skotin voru oft mjög flott og myndræn.




Karakterarnir eru flestir mjög skemmtilegir. Dave fannst mér frábær hjá Dominic Cooper. Algjör skítapési en samt svo ótrúlega heillandi að hann gæti selt kú mjólk! Hann var besti karakterinn og virtist í upphafi vera aðalhlutverk myndarinnar en hvarf í seinni hlutanum, en ég tala betur um það á eftir. Karakter Jims var líka góður en þriðji maðurinn, sem ég man ekki hvað heitir, var alveg rosalega óspennandi og týndist einhvern veginn alveg í plottinu. Það var ekki byggður eins góður grunnur fyrir hann og hina karakterana og mér fannst hann allan tímann eiginlega bara vera fyrir. Það gæti líka verið vegna þess að ég átti bágt með að skilja við hvað hann starfaði sem mér fannst reyndar skemmtileg ádeila á að hinn óbreytti borgari skilur í rauninni ekkert í þessari kreppu og öllum undarlegu tölunum og orðunum sem eru notuð til að útskýra hana. Hann náði engan veginn til mín svo að hans gjörðir í myndinni fóru fyrir ofan garð og neðan. Hann átti auðvitað að vera fjarlæg týpa og var alveg svalur en því miður fannst mér það vera tekið aðeins of langt.

Söguþráðurinn var eins og áður sagði frekar fyrirsjáanlegur en það var ekki svo slæmt. Myndin fékk mig virkilega til þess að verða stressuð fyrir framtíðinni! Hvaðan á maður að fá pening til þess að lifa? Eru peningar það sem við þurfum til þess að vera hamingjusöm? Ég hef algjörlega ákveðið að láta aldrei plata mig út í eitthvað lánarugl og þó svo að ég hafi vitað áður að það sé alls ekki sniðugt þá varpaði Freefall ljósi á hvað venjulegt fólk gengur í gegnum þegar það getur ekki lengur borgað af húsinu sínu eða keypt sér mat.

Uppbyggingin í myndinni var virkilega flott! Hvernig þetta byrjaði á kaupsýslumönnunum og hvað allt lék í lyndi. Djamm, stelpur og flottir bílar. En svo færðist áherslan hægt yfir á fátæka öryggisvörðinn á sama tíma og markaðurinn varð verri og verri. Síðan hvarf Dave algjörlega þegar félagi hans sat í djúpu skuldasúpunni sem hann hafði eldað. (vá svaka myndlíkingar í gangi hérna)




Freefall var virkilega ágæt mynd. Ekkert must see en góð afþreying á sunnudagskvöldi. Mjög skemmtilega leikin og áhugaverð ádeila.

Thursday, November 5, 2009

Meira um Riff!

Æ ég átti alltaf eftir að pósta þessu bloggi því að ég á enn eftir nokkrar myndir frá Riff sem mig langar til þess að blogga um! En læt þetta flakka núna.


Mamma er hjá hárgreiðslumanninum
Þessi mynd var án vafa önnur besta myndin sem ég sá á Riff. Hún gerist í Kanada og er á frönsku sem mér finnst alltaf ákaflega skemmtilegt. Þó svo að ég skilji nánast ekkert eftir 5 ára nám! En jæja myndin gerist um sumar 1966 og er virkilega gaman að því hvað öll umgjörð, það er að segja leikmynd og búningar er vel sniðin að þeim tíma.
 Mér fannst alveg eins og ég væri að horfa á mynd frá tímabilinu. Öll smáatriði eins og hekluð teppi, hárið á mömmunni og ég veit ekki hvort þetta "meikar eitthvað sens" en mér fannst einhvern veginn birtan gefa myndinni þennan 1960 tón. 
Hún fjallar um Élise sem er svona mitt á milli þess að vera krakki og unglingur. Hún býr með mömmu sinni, pabba og tveimur bræðrum. Í byrjun myndarinnar virðist fjölskyldulíf þeirra vera fullkomið, mamman virðist vera besta mamma í heiminum, bakar uppáhalds köku barnanna sinna og verður aldrei pirruð. Ég sá reyndar fljótt í gegnum þetta enda kom fljótt í ljós að pabbinn var ekki allur þar sem hann var séður. Élise kemst að því að hann heldur við, eða hana fer að gruna eitthvað, félaga sinn. Hún endar með að uppljóstra leyndarmálinu og móðir hennar er auðvitað ekki par sátt með pabbann. Það er mjög átakanlegt augnablik þegar hún grætur sáran og litli sonur hennar heyrir allt þar sem hann liggur undir rúmi. Það er ekki auðvelt fyrir hann að uppgötva að mamma er ekki alltaf glöð. En mamman fer semsagt og byrjar að vinna hjá sjónvarpsstöð sem fréttakona. Hún skilur börnin sín þrjú alveg eftir í umsjá föðurins sem kann ekkert í heimilisstörfum. Við tekur erfitt tímabil hjá fjölskyldunni þar sem Élise þarf að reyna að fylla upp í skarð móður sinnar þrátt fyrir ungan aldur, eldri bróðirinn sekkur sér djúpt í að búa til gókart bíl og yngsti bróðirinn, Benoit, fer enn meira inn í sinn eigin hugarheim. 
Þegar ég fór á þessa mynd þá hafði ég engar væntingar og vissi ekkert
 við hverju ég ætti að búast. En ég varð alveg virkilega hrifin! 

Mamma er hjá hárgreiðslumanninum er svo margbrotin og fjallar um svo mörg mannleg vandamál á virkilega áreynslulausan og náttúrulegan hátt. Það er fjallað um hjónabandsvandamál, einhverfu, einstæð foreldri, fordóma, ungar ástir, einstæðinga, mannleg samskipti, afneitun og svo margt fleira. En hún er á sama tíma mjög fyndin! Það er líka eina leiðin til þess að komast í gegnum erfiðu kaflana í lífinu, að leyfa þeim ekki að draga sig niður í þunglyndi. Hún er því virkilega ljúfsár. Það er mjög átakanlegt að fylgjast með Benoit og hvernig hann reynir að takast á við brotthvarf móður sinnar. 

Persónusköpunin var tær snilld! Allir ungu krakkarnir sem þurftu að takast á við svo mikið af vandamálum foreldra sinna á þessum tíma þegar allt átti að vera svo fullkomið. Litli ljóshærði strákurinn sem trúði því að hann væri af aðalsættum var algjört krútt og svona comic relief, örlítið þybbni strákurinn sem var svo meðvirkur með móður sinni og fleiri og fleiri góðir karakterar. Mér fannst líka vináttan sem myndaðist milli Élise og gamla veiðimannsins vera falleg. 
Myndatakan var oft mjög flott. Eitt töff skot sem ég man eftir var þegar eldri bróðurinum (man ekki hvað hann heitir!) tekst í fyrsta sinn að keyra gókartinn. Lýsingin fannst mér eins og ég nefndi áður virkilega flott og hún setti stemninguna í myndinni. 

Það sem var samt best við myndina var leikurinn. Það er vel af sér vikið að finna svona marga krakka sem leika svona vel! Stelpan sem lék Élise var virkilega góð í sínu hlutverki. Leikur hennar var mjög
 trúverðugur og áreynslulaus. Hinir krakkarnir skiluðu líka sínu mjög vel. En þó langar mig sérstaklega að minnast á unga strákinn sem lék Benoit. Það er skrítið að tala um að svona ungur strákur sé góður leikari en hann var bara svo ótrúlega trúverðugur! Ég fann svo til með honum. Hann hafði svo stór augu sem virtust vera endalaus. 
Mommy's at the hairdressers var frábær mynd í alla staði. 


Two drifters
Add Image
Það má segja að Two Drifters hafi verið jafnléleg og Mommy's at the hairdressers var góð. Til þess að vera alveg hreinskilin þá var þetta bara algjör hörmung. Hún fjallar um tvo homma sem eru rosalega ástfangnir og eiga ársafmæli. Þegar annar þeirra er að keyra heim eftir að þeir fögnuðu afmælinu keyrir hann útaf og deyr. Þetta gerðist allt á fyrstu tveimur mínútunum og alltof hratt! Maður náði ekki að tengja neitt við karakterana og þetta varð þar af leiðandi EKKERT áhrifaríkt. Þetta var líka alveg átakanlega illa leikið. Hún fjallar líka um konu sem langar rosalega mikið í barn og hættir með kærastanum sínum útaf því að hann er ekki tilbúinn eftir stutt samband. Þau leika líka bæði hörmulega! Svo af einhverjum ástæðum mætir konan í líkvöku hommans, stelur hringnum hans og byrjar að þykjast vera ólétt að barninu hans. Svo flytur hún inn til mömmu hommans, stelur fötunum hans og fær sér alveg eins klippingu. 
Vá þetta var nálægt því að vera versta mynd sem ég hef séð! Eina ástæðan fyrir því að ég gekk ekki út var af því að þetta var Q&A og leikstjórinn var í salnum. 
Hún gekk löturhægt sem var í fullkomlegu ósamræmi við byrjunaratriðið, það var engin ástæða fyrir gjörðum persónanna, ekki vottur af persónusköpun, vandræðalega lélegur leikur og bara einfaldlega ógeðslega (fyrirgefið orðbragðið) leiðinlegur og fáránlegur söguþráður! 
Ég hef engan áhuga á að eyða fleiri orðum í þessa portúgölsku peningasóun. 

Sunday, September 27, 2009

Dear Zachary

Ég á eftir að blogga um bróðurpartinn af Riff-myndunum sem ég sá, sem voru held ég 13 talsins en ég get bara ekki annað en skrifað um myndina sem ég sá í gærkvöldi, Dear Zachary: A letter to a son about his father. 



Dear Zachary er heimildarmynd eftir Kurt Kuenne. Hún fjallar um besta vin Kurt, Andrew Bagby, sem var myrtur af reiðri fyrrverandi kærustu, Shirley. Kurt ákveður að ferðast um Bandaríkin til þess að safna minningum um Andrew stuttu eftir dauða hans. Þegar verið er að rétta yfir Shirley kemur í ljós að hún er ólétt af barni Andrews. Þá ákvað Kurt að gera þessa mynd fyrir barnið, sem Shirley skírði Zachary Andrew, til þess að hann geti séð hversu mikið faðir hans var elskaður.
Kurt á rosalega mikið af gömlum myndböndum af Andrew, bæði þar sem þeir hafa verið að gera kvikmyndir sem táningar en einnig af honum sem fullorðnum manni. Hann ferðast eins og áður sagði um Bandaríkin og talar við vini, samstarfsfólk, ættingja og fleiri sem þekktu Andrew til þess að læra allt um hann fyrir Zachary. Það er augljóst að Andrew og foreldrar hans voru mikið elskuð af vinum og ættingjum. Myndin fylgir líka náið foreldrum Andrews sem eru að reyna að fá forræði yfir barninu og samskiptum þeirra við morðingja sonar þeirra. 

Kurt tókst fullkomlega upphaflega ætlunarverk sitt með myndinni. Maður fær að kynnast Andrew og skilur vel hversu auðvelt það var að þykja vænt um hann. Kurt talar sjálfur inn á myndina og um sínar eigin hugsanir og efasemdir sem gerir það að verkum að áhorfandanum finnst eins og myndinni sé beint að sjálfum sér. Hann passar líka að allar staðreyndir komi skýrt fram og oft endurtekur hann eitthvað til þess að leggja sérstaka áherslu á það sem er mjög þægilegt því að í myndinni er mikið af upplýsingum sem maður þarf að ná. Það eykur líka á áhrif myndarinnar. Það eina sem var óþægilegt var að stundum átti ég erfitt með að skilja enskuna hjá einum og einum og stundum var klippt svo hratt á milli að heilinn missti af fyrstu orðum hjá manneskjunni sem talaði næst. En það sem maður verður að muna er að þessi mynd var upphaflega gerð fyrir fjölskylduna einungis en algjörlega ófyrirsjáanlegir atburðir gerðu þessa mynd að mynd sem ALLIR ættu að sjá. Það hefði því verið þægilegt að hafa texta stundum en það er erfitt að ákveða hvenær á að vera texti og hvenær ekki. Það hefði kannski verið þægilegt að hafa texta allan tímann en það hefði líka getað orðið mjög kjánalegt. Þetta er vandamál sem er ekki auðleyst og það kom alls ekki niður á myndinni að maður hafi ekki skilið eina og eina setningu! Kurt er líka mikill húmoristi og framan af er margt mjög fyndið.

Aldrei á minni stuttu ævi hefur mynd haft jafn gríðarlega mikil áhrif á mig og Dear Zachary. Ég sat negld við stólinn í Hellubíói allan tímann. Ég fékk gæsahúð, ég grét, ég fann fyrir þyngslum yfir hjartanu og eftir myndina sátu allir í salnum steinrunnir á meðan creditlistinn rúllaði, það var ekki fyrr en ljósin höfðu verið kveikt og skjárinn hafði verið svartur í dágóða stund sem fólk fór að týnast út. 
Þessi saga er svo ótrúleg og atburðarásin tekur hverja beygjuna á eftir annarri. Foreldrar Andrews eru með sterkasta fólki sem ég hef séð og baráttuandi þeirra þrátt fyrir allt mótlætið er virkilega aðdáunarverður. Þetta má samt alls, alls ekki skiljast sem svo að Dear Zachary sé einhver upphafning á látinni manneskju og ættingjum þeirra. Það er ekkert ýkt, það þarf heldur ekkert að ýkja, þetta eru bara blákaldar staðreyndir og mannlegar tilfinningar. 
Það er virkilega erfitt að blogga um þessa mynd þar sem að bæði vil ég alls ekki segja of mikið og einnig er erfitt að koma orðum að áhrifunum sem hún hafði á mig.

Dear Zachary: A letter to a son about his father er tvímælalaust langbesta myndin sem ég sá á Riff. Ein besta heimildarmynd allra tíma, sú mynd sem hefur haft mest áhrif á mig og eins og sést hérna til hægri er hún komin á Topp-listann minn. Hún gerir mann bálreiðan og sorgmæddan en samt er svo mikill kærleikur í henni og von um að sama hversu erfitt lífið getur verið er alltaf hægt að berjast. 

Allir ættu að sjá þessa mynd. Vá ég er með gæsahúð.

Sunday, September 20, 2009

Riff hingað til


Jæja þá hef ég séð 5 myndir á Riff hingað til. Þar af hef ég fjallað um eina og ein var stuttmynd.

STORM

Myndin Storm fjallar um konu á miðjum aldri, Hönnu Maynard. Hún er breskur saksóknari og tekur að sér mál sem á að steinliggja. Það reynist vera misfella í framburði eins vitna hennar svo að hún þarf að finna nýja leið til þess að fá glæpamanninn sakfelldann. Já ég get eiginlega ekki sagt meira. 
Storm var vel leikin. Kerry Fox var góð í hlutverki Hönnu Maynard og aukahlutverkin voru ágæt líka. Hún má eiga það. En annars var ég alls ekkert rosalega hrifin af þessari mynd. Hún var bara svo ótrúlega venjuleg. Myndtakan var ekkert sérstök en tónlistin var reyndar frekar flott. Sagan sjálf var bara þessi venjulega sakamála/lögfræðinguraðreynaaðleysamál-saga. Mér fannst ég hafa séð þessa mynd svo oft áður og þá í búning 40 mínútna spennuþáttar. 
Það er mjög erfitt að skrifa um Storm vegna þess að í rauninni var ekkert að myndinni en hún heillaði ekkert. Það sem mér fannst gott við myndina var sagan inn í sögunni, það er að segja saga fórnarlambs málsins sem Hanna var að reyna að leysa. Það 
hefði getað orðið miklu áhrifaríkari og betri mynd! Já og af hverju ætli hún hafi heitið Storm? Það var random. 

THE SWIMSUIT ISSUE
























Jæja önnur sænska myndin sem ég sé í mánuðinum og ég verð að segja að ég er á leiðinni að verða stærsti aðdáandi sænskrar kvikmyndagerðar! Þrátt fyrir að hafa séð takmarkaðan fjölda 
mynda. 
En The Swimsuit Issue fjallar um sænskan miðaldra mann sem hætti/var sagt upp vinnunni sinni sem blaðamaður, er fráskildur en á 17 ára dóttur, spilar bandí (eða floorball) með nokkrum félögum sínum og hefur mjög sterka réttlætiskennd. Þeir bandí-félagarnir lenda í vandræðum þegar þeir geta ekki lengur æft á sama staðnum og Fredrik, aðalpaurinn með réttlætiskenndina, getur ekki sætt sig við að vera orðinn að e-m aumum áhugamann
i sem spilar bara uppá fjörið. Þegar hann neyðist til þess að hýsa dóttur sína eftir að mamma hennar fær starf í London upphefst afar skemmtileg atburðarás vegna þess að hún æfir synchronised swimming.
Vá hvað ég var hrifin af The Swimsuit Issue! Þetta er alveg dásamleg mynd. Full af góðum húmor og ég var með aulabros á andlitinu mest alla myndina og hló og hló yfir sumum atriðum. Það er líka svo gaman að sjá "the underdog" ná svona góðum árangri og þessi mynd sýnir að sama á hvað aldursskeiði sem þú ert þá geturðu breytt lífi þínu og gert eitthvað nýtt. Hver hefði haldið að saga um miðaldra karlmenn gæti verið svona skemmtileg! 
En persónurnar voru hver annarri skemmtilegri. Til dæmis Fredrik, misheppnaði pabbinn sem er sjúklega sjálfhverfur og þrjóskur, feiti besti vinurinn sem er álíka mikill lúser og Fredrik en fylgir honum í öllu og hefur ekkert sjálfstraust og auðvitað svarti hommafóbinn! Myndin var rosalega vel leikin og hver og einn leikari gaf persónunni sinni eitthvað aukalega svo manni þótti vænt um alla! 
Mér fannst líka myndatakan vera skemmtileg. Auðvitað tökurnar í kafi sem voru flottar, en það hefði algjörlega skemmt myndina ef þær hefðu verið lélegar! Svo tók ég sérstaklega eftir tveimur tökum sem mér fannst heillandi. Þær voru báðar teknar svona fyrir utan húsið og maður sá inn í íbúðina og hvað var í gangi þar. Ég held að ég hafi aldrei séð þetta áður og
 mér fannst þetta virkilega skemmtilegt. Ég las lokin á blogginu hans Gumma þar sem hann talar um skotið sem fékk ekki að lifa og ég er alveg sammála með það. Tók eftir þessu líka en mér fannst samt mörg móment algjörlega fá að lifa. Til dæmis bæði skotin fyrir utan húsið, þegar Fredrik er að kenna vini sínum að dansa og partýið þar sem þeir eru úti á svölum, en líka mómentið þegar Fredrik sekkur alveg niður á botninn. Allt mjög gott! 
Tónlistin fannst mér rosalega týpísk fyrir skandinavíska mynd. Hef ekkert út á hana að setja.
The Swimsuit Issue er algjör feel good mynd sem allir verða að sjá. 

Mig langar aðeins til þess að bera saman þessar tvær myndir. Það er Storm og The Swimsuit Issue. Þegar ég kom út af Storm, sem hafði engin áhrif á mig, hugsaði ég að það hlyti einfaldlega að vera vegna þess að myndin gerist að mestu í Evrópu og að ég væri bara einum of kunnug staðarháttum og lífi persónanna. Sem ég er ekkert, fyrir utan að vera Evrópubúi. Plús að aðalpersónan var miðaldra kona. En svo sá ég The Swimsuit Issue! Og þar með afsannaðist þessi kenning mín sem betur fer. Það er fullt nýtt undir sólinni!

Síðasta myndin sem ég sá var SLOVENIAN GIRL. En ég treysti mér ekki alveg til þess að blogga um hana eins og stendur. Þarf aðeins að melta hana betur. Var ekkert gífurlega hrifin en ég veit ekki alveg af hverju. Var komin með rosalega mikið leið á skotum af henni að kveikja sér í sígarettu og reykja. En svo er þetta líka bara svo mikið efni sem maður veit að er til en vill ekki endilega vita af. En á samt svo mikið að vera í umræðunni! Ææææ ég er alveg rugluð. Geymi þetta til betri tíma.




Saturday, September 19, 2009

Reykjavík Whale Watching Massacre

Æææ ætlaði ekki að birta þetta en mig langar soldið til þess eftir að hafa skrifað um norsku myndina. Here it comes...

Ég hef ekki mikið að segja um þessa hörmung sem þessi mynd var en mig langar samt að fá að tjá mig aðeins þar sem hún hefur verið mér, gegn mínum vilja, ofarlega í huga síðan ég sá hana.


            Í fyrsta lagi er ég alls ekki hrifin af splatter myndum eða hryllings myndum en ég er virkilega mikill stuðningsmaður íslenskrar kvikmyndagerðar og íslenskar myndir heilla mig oft og þá sérstaklega nú á seinni árum. Í öðru lagi er ég ekki mjög hrifin af lélegum myndum og verð alltaf pirruð yfir öllum þeim peningum sem er eytt í að gera ömurlega lélegar og

 innihaldslausar myndir. Í þriðja lagi þoli ég ekki illa skrifuð handrit og illa uppbyggð og þegar það er augljóst að hlutirnir hafa ekki verið hugsaðir í gegn. RWWM hafi allt þetta þrennt! Þetta var illa skrifaður, óúthugsaður, afskaplega lélegur splatterhryllingur og það sem meira er: þetta á að vera framlag okkar til erlenda kvikmyndaheimsins!! Ég næ varla utan um þetta.

            Þegar Júlíus Kemp kom svo til okkar var ég mjög spennt að heyra hann afsaka myndina sína. Eða kannski aðallega útskýra það sem mér fannst engan veginn ganga upp. En hann

 sannaði bara því miður að allt sem mér hafði fundist að var bara í alvörunni að. Hann gat engan veginn útskýrt hvers vegna Halldóra Geirharðs átti að vera íslensk en virtist samt ekki geta tjáð sig á íslensku, hann gat ekki útskýrt af hverju að einn fjölskyldumeðlimurinn þóttist vera þroskaheftur (hann reyndi reyndar en það var allt mjög grunnt og ódýrt), hann vissi oftast ekki hvað það var átt við með hinu og þessu og hvernig er hægt að ætla að leikstýra mynd sem er byggð á handriti sem þú skilur ekki! Reyndar er kannski gott að hann var ekkert að afsaka myndina, alltaf gott að standa með sínu, en hann virtist aðallega hugsa um að koma myndinni úr landi hvort sem hún væri góð eða léleg. Mér fannst allir leika illa, Stebbi Jóns var reyndar skemmtilega viðbjóðslegur, og það var eflaust handritinu að kenna aðallega en það að vera leikari merkir að maður þarf að leika tilfinningar og þetta fólk virtist aldrei hafa heyrt á það minnst. “ Hey vó skipstjórinn okkar dó... úps.”

 

             Þessi mynd ætti enginn að sjá. Hún er bara afskaplega léleg og virkilega mikil vonbrigði. Mér finnst erfitt að ætla að skrifa málefnalegt blogg um mynd sem fer svona mikið í taugarnar á mér en íslensk kvikmyndagerð á bara svo miklu betra skilið!! Það var pottþétt e-ð gott í myndinni sem ég er að gleyma og hún var mjög fyndin á köflum þó svo að það hafi augljóslega alls ekki verið markmiðið.

 

Oj barasta.

         (smá spoiler)

Död Snö í Sundhöllinni



 Þegar ég heyrði að það ætti að sýn
a norska nasista-zombie hryllingsmynd í Sundhöllinni var ég ekki lengi að ákveða að ég ætlaði ekki að missa af því! 

Ég hélt því ásamt Guðrúnu vinkonu minni um að verða 8 leytið í gær upp í Sundhöll og hafði myndast dágóður hópur fyrir utan. Það var rosalega undarlegt að vera á leiðinni í bíó og þurfa að skipta yfir í bikiní! Við fórum ofan í laugina og sáum tvær íslenskar stuttmyndir. Í seinni myndinni komu fram leiknir real live Zombie-ar sem var frekar glatað þar sem hryllingsmyndin var ekki einu sinni byrjuð! Þegar hún svo byrjaði var okkur orðið ískalt! Svo var hægt að fara í hlýrri laug en þá sá maður myndina öfuga, eða þannig að það var ekki hægt að lesa textann. Þetta var samt alveg mjög mikil upplifun, aðallega fyndin og köld reyndar. Það sem var mesta klúðrið við að hafa þetta í sundlaug var náttúrulega að fyrir vikið varð myndin ekkert meira
 ógnvekjandi. Og líka hvað manni var kalt. En nóg um sundhliðina hér kemur umsögn um myndina: 

Þessi norska hryllingsmynd hefst á því að 7 ungmenni, 3 stelpur og 4 strákar eru á leiðinni upp í afskekktan kofa til þess að fara í skíðaferð í páskafríinu. Þegar þau koma er ekkert símasamband.. sem gæti verið ótrúlega pirrandi byrjun á hryllingsmynd en þeim tekst að snúa því upp í grín sem virkaði vel. Þegar þau koma svo upp í kofann kemur í ljós að þegar þau þurfa að fara á klósettið er það kamar sem er í smá fjarlægð frá kofanum. Seint um kvöldið eftir smá twister og bjórdrykkju kemur fremur ógnvekjandi eldri maður í kofann og segir
 þeim að fara gætilega á þessu svæði vegna þess að það séu illir andar á sveimi. 7 hraustir læknanemar láta voða lítið hræðast af þessu en áhorfandanum er samt alveg ljóst frá byrjun að þetta svæði er eitthvað undarlegt. Svo hefjast ósköpin.... damm damm daaaaamm!



Já ég átti erfitt með að bera þessa mynd ekki saman við RWWM. Þær eru jú báðar skandinavískar splatter myndir. Ég verð að segja að mér fannst þessi mynd betri að öllu leyti! Hún byrjaði þannig að maður náði að tengja við karakterana og hver hafði sinn persónuleika. Það var líka enginn karakter sem var tilgangslaus eins og mér fannst með RWWM. Umhverfið í báðum myndum var líka mjög sérstakt, önnur þarna á hafi úti en hin uppi í norskum fjöll
um. Það varð rosa töff að sjá rauða blóðið á hvítum snjónum! Myndatakan var held ég bara mjög hryllingsmyndaleg, mikið af close-up skotum og þannig.
Það var samt eiginlega tvennt sem ég verð að minnast á varðandi yfirburði Död Snö yfir Reykjavík Whale Watching Massacre. Það var í fyrsta lagi að dauðdagarnir voru allir svo miklu betri, manni fannst svo mikið í RWWM að það væri svo mikið verið að reyna að gera töff dauðdaga en það varð einhvern "eðlilegra" í Död Snö. Svo í öðru lagi viðhorfið til hryllingsmynda. Í Död Snö byrjaði hún alveg mjög ógnvekjandi (ég er reyndar versti aumingi þegar það kemur að svona myndum) og var alveg viðbjóðsleg en þegar leið á hana fór þetta út í grín. Sem var líka bara mjög fyndið!! Þetta varð því að svona hryllingsgrínmynd. 
Zombie-nasistarnir voru svolítið skerí í myrkri næturinnar en svo voru aðalátökin í dagsbirtu! Sem er sérstakt þar sem myrkrið er svo mikið notað í svona skerí myndum. Það gerði það samt að verkum að zombie-arnir urðu frekar kómískir, sem kom seinna í ljós að var meiningin.

Ég hafði mjög gaman af norsku hryllingsmyndinni Död Snö! Alls ekkert must see en áhugaverð engu að síður.

Hér er heimasíða myndarinnar. Mjög flott síða. Hey og já gleymdi að segja að þessi mynd var um það bil 70% betur leikin en RWWM.


Wednesday, September 9, 2009

Karlar sem hata konur


 
























Vá vá vá vá vá! Ekki vissi ég að Svíar væru svona miklir og hæfileikaríkir kvikmyndagerðarmenn! Reyndar er kannski skömm að segja frá því að ég hef held ég bara ekki séð neina sænska mynd áður. Kannski ekki. Auðvitað fyrir utan auðvitað talsettu Astrid Lindgren myndirnar, sem verða að teljast ágætis barnaefni.

Ég fór í bíó á þriðjudaginn - í gær - og hafði gert mér ákveðnar hugmyndir um myndina og hafði allmiklar væntingar en hún var mjög frábrugðin því sem ég hafði gert mér
 í hugarlund. 

Myndin hefur tvær aðalpersónur. Önnur er Mikael Blomkvist sem er blaðamaður á blaðinu Metropolitan í Svíþjóð. Hann hefur verið ákærður fyrir ærumeiðingar af valdamiklum og ríkum sænskum manni. Mikael er sakfelldur og þarf að dúsa í fangelsi í 3 mánuði, svo ekki sé minnst á að ferli hans sem blaðamaður ætti að vera lokið. En þegar hann hættir á Metropolitan er hann ráðinn af öldruðum manni til þess að leysa vægast sagt dúbíus 40 ára sakamál. Hinn karakterinn er Lisbeth Salander sem er 24 ára stúlka sem er algjör nagli. Klæðist einungis svörtum fötum, er með mörg göt í andlitinu og vinnur sem hakkari. Semsagt hakkar inn í tölvur annarra og kemst að öllu um þeirra einkalíf. Það er mjög gaman að sjá svona kvenkyns tölvunörd! Sögur þessara tveggja persóna fléttast saman í myndinni og eru þau mjög áhugavert kombó.. say no more.


Hér eru þau Lisbeth og Mikael í einu atriði í myndinni

Ég varð spennt í fyrsta atriði myndarinnar og hélst spennt út alla myndina! Og þannig eiga spennumyndir að vera. Öll tónlistin var mjög góð. Setti alveg réttu stemninguna á réttum stöðum en var ekki það áberandi að maður hugsaði:  "Já nú á mér að líða svona.." Ég þoli ekki þannig! 
Eins var kvikmyndatakan skemmtileg. Ég tók sérstaklega eftir því að nærmyndir voru mikið notaðar og oft áhugaverðar tökur inn á milli. Ég veit ekki hvort að það var meiningin, myndatakan eða hvort að ég hafi látið Skandinavíska yfirbragðið plata mig, en mér fannst myndin vera mjög raunveruleg og trúverðug. Eða svona.. trúverðug. Já. Raunveruleg kannski frekar. 
Leikurinn var framúrskarandi! Það var hvergi veikur hlekkur í castinu og þá vil ég helst minnast á Noomi Rapace sem gerði Lisbeth Salander að sjúklega flottum karakter. Hún hefur augljóslega unnið mikið í persónunni og mér fannst hún gera þetta alveg tip top. (Atriðið heima hjá umsjónarmanninum og atriðið eftir það... úff.. (þeir sem hafa séð myndina vita um hvað ég er að tala)) Þá var Michael Nyqvist líka góður, solid leikur af hans hálfu, en Noomi stal alveg senunni (eða myndinni). 

Er það ekki alltaf save the best till last? Allavega í þessu bloggi því að að lokum verð ég náttúrulega að tala um söguna sjálfa. Söguþráðinn sem Stieg Larsson samdi auðvitað svona snilldarlega. Reyndar komst ég ekki í að lesa bókina og vinkona mín sagði mér að kvikmyndin væri allt öðruvísi en bókin. En svona í aðalatriðum eins. Hún var alveg sátt með handritið að þessari mynd og fannst handritshöfundar hafa leyst þetta vel. Það gekk allt upp og endirinn olli ekki vonbrigðum eins og er ekkert óvanalegt þegar áhorfandinn hefur verið setið spenntur í 2 og hálfan tíma. "Ohh endar þetta virkilega svona? Leeeim!" Í myndinni er líka óhefðbundið ástarsamband sem er svo dásamlega óamerískt. Gaman að sjá þessa mynd af ástinni á hvíta tjaldinu frekar heldur en þetta sama, gamla jukk.
(Reyndar stend ég sjálfa mig að því að horfa á þær myndir en það er algjör leyndó!)

Ég vildi að ég hefði eitthvað gagnrýnið að segja en þessi mynd stendur algjörlega fyrir sínu, með öllum kostum og göllum. Ég fékk aftur trú á Skandinavískri kvikmyndagerð eftir hörmungina Reykjavík Whale Watching Massacre! Og ég læt þau orð verða lokaorðin í þessari lofræðu - eða lofbloggi, mínu til Svía.

Takk fyrir lesturinn.

p.s. Er hætt að vera reið út í blogger þar sem að það gekk eins og í sögu að setja inn myndir núna.
 

Saturday, September 5, 2009

The General

The General
Jæja þá dreif ég loks í því að sjá The General og ég fékk hálfgerða nostalgíu-tilfinningu. Því að sem krakki var ég forfallin aðdáandi Chaplin-myndanna. Ég sá allar sem voru sýndar með undirleik sinfóníuhljómsveitarinnar og hafði virkilega gaman af. Það sem er svo skemmtilegt við þöglu, fyndnu myndirnar að þær virka fyrir mismunandi þjóðir en einnig fyrir ólíka aldra. 
Ég hafði allavega gaman af The General og skellti oft upp úr að aulahúmornum. Ég elska aulahúmor! Hún fjallar um Johnnie sem er verkfræðingur og sér um lestina The General sem er önnur af tveimur ástunum í lífi hans. Hin er kona, sem ég reyndar skil varla af hverju hann elskaði svona heitt. Hún meira að segja neitaði að trúa honum þegar hann sagðist hafa sótt um í herinn og vildi hann ekki fyrr en hann kæmist í "uniform" eins og hún sagði! Þá myndi ég frekar kjósa lestina sem er virkilega svöl og eitt af uppáhalds atriðunum mínum er þegar Johnnie situr á öxlinum á milli hjólanna (veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa þessu) og fer með lestinni, upp og niður upp og niður. Sagan fannst mér skemmtileg og gekk ekki eins hægt og ég átti von á. Eins og oft er með margar af þessum gömlu, svarthvítu myndum. Buster Keaton er rosalega kúl náungi og skemmtilegur leikari. Það er annað sem heillar mig við þessar þöglu grínmyndir. Það er hvað allur leikur er mikið ýktari heldur en vanalega í kvikmyndum. Þetta er frekar leikhús-leikur heldur en kvikmyndaleikur, eins og við lærðum í Herranótt. 
En það verður að segjast að ég var hrifin af The General og finnst mér þó oft erfitt að halda þræði þegar ég horfi á gömlu, svarthvítu myndirnar! En ég vona að það lagist með hverju áhorfi.

Ég ætlaði að skrifa um Up núna líka en ég get ekki sett inn myndir! Og er orðin frekar pirruð á þessu blogger/blogspot rugli og get ekki eytt meiri tíma í þessa vitleysu. 

 

Wednesday, September 2, 2009

Topp 6 listinn minn!



Hér kemur loksins Topp-listinn minn! 

---------------------------------------------------------------------------------
1. Into the Wild (2007)

Þessi mynd heillaði mig hvorki þegar hún var auglýst í bíó né þegar ég sá hana á leigunum. En eitt vetrarkvöld, núna í ár, rakst ég óvart á hana á
 einhverju stöðvaflakki. Hún greip mig samstundis og sleppti mér ekki fyrr en mörgum dögum seinna. Hún fjallar örstuttu máli um Christopher McCandless sem gjörbreytir lífi sínu eftir útskrift með því að gefa allar sínar eigur og yfirgefa fjölskylduna sína. Eina markmið hans var að lifa einn í óbyggðum Alaska. Myndin er öll tekin "on location" eins og sagt er og tekst það ótrúlega vel. Ég sogaðist algjörlega inn í söguþráðinn, aðstæðurnar og tilfinningarnar sem orsakast líklega af því að myndin er algjörlega laus við alla tilgerð. Hún vakti upp alls kyns tilfinningar hjá mér og náði langt inn á tilfinningastöðina. Emile Hirsch sýnir stórgóðan leik sem Christopher og nær til áhorfandans með áreynslulausum leik sínum og sjarma. Ég vissi ekki fyrr en algjörlega í blálokin að um væri að ræða sanna sögu en það gerði myndina ennþá meira heillandi. Ég lá á wikipedia og google langt fram á nótt og las um þennan McCandless og hans sögu. Algjörlega ein besta mynd sem ég hef séð! 

2. Fight Club (1999)
Eftir að ég var búin að horfa á þessa mynd gat ég ekkert annað sagt heldur en "Vá"! Og horfði á hana strax aftur. Hún er bara svo yfirgengilega svöl! Allt andrúmsloftið frá byrjun til enda er svo þrungið myrkri og þunglyndi. Rödd Nortons er svo yndislega mónótónísk og passar fullkomlega við þetta þunga, myrka andrúmsloft. Fyrir utan hvað öll umgjörð er stórglæsilega unnin og úthugsuð er leikurinn lýtalaus. Edward Norton sýnir líklega sinn besta leik, Helena Bonham Carter er sú eina sem hefði getað leikið hina undarlegu Mörlu og Brad Pitt sem Tyler Durden er einn eftirminnilegasti kvikmyndakarakter sem ég hef séð. En allt þetta væri til einskis ef sagan og merking sögunnar væri ekki til staðar. Ég hef reyndar ekki lesið bókina, og þori því varla, en stefni á að gera það áður en ég verð
 tvítug. Þetta er virkilega djúp saga og kemur inn á svo margt. Hver og einn ætti að geta séð eitthvað í sjálfum sér í myndinni og persónunum, sem er þó frekar ógnvekjandi þar sem að hún er, eins og áður sagði, mjög myrk. Það sem ég tók aðallega eftir var þessi ógeðistilfinning sem Sögumaðurinn er kominn með á sjálfum sér og þessi hvöt til þess að breyta lífi sínu. Gera það áhugaverðara og það að vilja finna meira til, þrátt fyrir að það sé ekki endilega hamingjutilfinning.  Ég fíla líka rosalega vel háðið sem er undirliggjandi alla myndina, reyndar alls ekkert falið, og hún er stútfull af húmor og glettni. Þetta er mynd sem ég get horft á aftur og aftur og aftur!

3. The Shawshank Redemption (1994)

Ég var frekar stressuð að sjá þessa mynd og frestaði því lengi. Ég var hrædd um að ég hef
ði of miklar væntingar og myndi ekki skilja boðskapinn eða söguþráðinn. Langt því frá! Ég varð alveg heilluð. Til að byrja með langar mig til þess að minnast á hversu frábærlega vel leikin hún er. Morgan Freeman lætur það virðast vera auðveldasta starf í heimi að vera leikari og Tim Robbins verður að persónu sem manni þykir vænt um, og meira og meira eftir því sem líður á myndina. Svo má ekki gleyma öllum aukaleikurunum sem eru ekkert eins og þeir séu að leika! Annað sem heillaði mig var einfaldleiki sögunnar. Þetta er saga sem snertir alla. Hún fjallar um vináttu, von, kærleika, frelsi og baráttu. Hún er svo mannleg, falleg og lætur manni líða vel. Það er svo mikil sjálfsbjargarviðleitni hjá Andy, persónu Tim Robbins, að maður ber ósjálfrátt virðingu fyrir honum. 

4. Garden State (2004)

Þessi mynd er yndisleg. Hún er svo lítil í sniðum og krúttleg. Það eitt og sér gerir hana auðvitað ekki nógu góða til þess að vera á Topp-listanum mínum en þetta er alltaf það fyrsta sem poppar upp í hugann þegar ég hugsa um Garden State. Hún fjallar um Andrew sem hefur verið svo dópaður upp af föður sínum allt sitt líf að hann hefur engar tilfinningar lengur. Það kemur strax í ljós í byrjun þegar honum er sagt að móðir hans hafi dáið og hann sýnir engar tilfinningar. Það er það fyrsta sem grípur áhorfandann við Garden State. Tilfinningar eru svo stór hluti af lífinu. Það er eins og að vera ekki með fætur að hafa engar tilfinningar. Garden State er langt frá því að vera fullkomin og til dæmis fannst mér leiðinlegt hvernig endirinn varð að hálfgerðri vellu. En hún er engu að síður einn af gullmolum kvikmyndanna að mínu mati, ég get ekki alveg sett fingurinn á af hverju, en kannski er það einmitt sjarminn við hana. 

5. 12 Angry Men

Það sem heillaði mig mest við 12 reiða menn var myndatakan og notkun rýmis. Ég stóð sjálfa mig að því að vita ekkert hvað var að gerast í sögunni þegar ég sá hana fyrst af því að mér fannst svo gaman að fylgjast með mismunandi skotum og áherslunum í kvikmyndatökunni. En þegar ég horfði á hana aftur var það sagan sem greip auga mitt. Maður hefur ófáum sinnum fylgst með þætti eða mynd sem gerist innan í réttarsalnum og þá er það alltaf þannig að kviðdómurinn fer í burtu og kemur svo aftur með úrskurðinn. Í 12 Angry Men er þessu í raun öfugt farið. Myndin byrjar á því að réttarhöldunum er að ljúka og kviðdómurinn á að hefja starf sitt. Það eru allir sammála um að hinn grunaði sé sekur nema einn, og hann er ekki einu sinni sannfærður um sakleysi hans, og uppfrá því hefst mikil umræða um málið. Það 
er gaman að fylgjast með hvernig persónurnar fara frá því að vera hópur af kviðdómendum í að vera einstaklingar. Hver með sína skoðun og sín einkenni. Persónusköpunin er því mjög góð og gerir einfalda mynd virkilega áhugaverða.


12-angry-men

                       Hér eru 12 reiðu mennirnir allir saman komnir!


6. The Lord of the Rings 1,2 & 3

Ég get ekki að því gert. Mér finnst þessar myndir geðveikar! Ég get engan veginn gert upp á milli þeirra því að eins og þær eru allar líkar og segja sömu sögu, eru þær samt svo gífurlega ólíkar. Öll umgjörðin er ótrúleg. Búningar eru útpældir niður í hin smæstu smáatriði og einnig umhverfið, hús og byggingar til dæmis. Tónlistin finnst mér líka vera ein sú besta sem fram hefur komið í kvikmyndum. Sagan eftir Tolkien er auðvitað heimsþekkt og ótrúlegt er að það hafi tekist að gera myndir sem gera henni góð skil og skilja aðdáendurna ekki eftir í polli vonbrigða. Þetta er ekta ævintýrasaga þar sem koma við dvergar, álfar og ýmsar aðrar furðuverur en samt finnst mér eins og þetta geti alveg hafa verið til fyrir mörg hundruð/þúsund árum. Persónurnar eru góðar, hver og einn með sinn sjarma og mismunandi áherslur. Það er mjög gaman að fylgjast með hvernig sambönd þeirra breytast og styrkjast í gegnum allar myndirnar. Í hvert skipti sem ég horfi á þessar myndir, sem ég geri kannski ekkert rosalega oft þar sem þær eru um 3 tímar hver, tek ég eftir einhverju nýju smáatriði eða nýjum brandara. 

------------------------------------------------------------------------
Jæja þar sem ég var búin að ákveða að skrifa aðeins um þessar 6 myndir læt ég hér við sitja. Reyndar komu upp í hugann margar aðrar myndir sem ættu vel heima á þessum lista en ég ætla að geyma það til betri tíma.

Þangað til næst.
Nanna Elísa