Monday, November 23, 2009

Jóhannes

Ég skellti mér á Jóhannes fyrir stuttu. Ég er, eins og ég hef áður minnst á, mikill aðdáandi íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsgerðar. Ekki það að mér finnist það alltaf bestu myndirnar en þær eru svo nálægt manni út af tungumálinu og menningunni.

Jóhannes fjallar um Jóhannes sem er leikinn af Ladda og kennir myndmennt í ónefndum skóla á höfuðborgarsvæðinu. Myndin fylgir í raun hörmulegum degi í lífi þessa manns sem er ósköp venjulegur en á þessum degi virðist svart óveðurský elta hann á röndum! Inn í myndina koma áhugaverðir karakterar, sveitastúlkan, eiturlyfjasalinn og brjálaði kærastinn.

Það er svolítið erfitt fyrir mig að skrifa um Jóhannes þar sem að fyrsta hálftímann höfðu einhverjir erkibjánar gleymt að slökkva á playlistanum sem ómar stanslaust í sölum háskólabíó þegar myndirnar eru ekki í gangi og ég skildi ekkert hvaða hræðilega lagaval var í myndinni og af hverju þeim fannst nauðsynlegt að hafa alltaf tónlist undir samtölunum! En ég fattaði sem betur fer, þó eftir hálftíma, hvernig á þessu stóð og fór fram og bað stúlkurnar í afgreiðslunni vinsamlega um að slökkva á fm957 tónlistinni. Úff.. ,,Guuuuuuuuuuuð í alvöru? Æ..æ..." Smá moodkiller en ég komst fljótt yfir þetta!

Aðalgagnrýnin mín, sem var semsagt undarlegt lagaval og léleg hljóðblöndun, var semsagt fokin út í veður og vind. En jæja nóg um afglöp apanna í Háskólabíó (sem bættu mér og mömmu þetta reyndar upp).

Ég geri mér grein fyrir því að ég minnist alltaf á þetta en myndatakan... hehe ég tók eftir allmörgum flottum skotum í þessari mynd! Það var til dæmis eitt í lokin þegar Jóhannes stendur á pallinum í sumarhúsinu og þetta er tekið svona upp og allt húsið sést í skotinu og gróðurinn í kring og manni fannst eins og hann væri staddur í paradís sem var nákvæmlega líðan hans. Svo fannst mér líka flott skot þar sem hann kom út úr lögreglustöðinni og stendur alveg uppgefinn á tröppunum. Mér fannst eiginlega myndatakan vera best við þessa mynd og svo Stefán Hallur sem lék afbrýðisama kærasta Unnar Birnu, eða Tótu. Hans týpa var skemmtileg. Ótrúlega reiður og froðufellandi handrukkari. Ýkt týpa sem á vel við í mynd af þessu tagi.

Það sem mér fannst mest að myndinni var einfaldlega að hún fékk mig ekki til þess að hlæja. Ég held að ég hafi einu sinni alveg skellt upp úr og það var einhvern tíma þegar enginn annar í salnum hló og ég fékk eitt hneykslunaraugnaráð frá 9 ára stelpu. Get samt engan veginn munað af hverju ég hló eða hvaða atriði þetta var! Þetta átti augljóslega að vera grínmynd en varð samt einhvern veginn lítið fyndin. Týpan hans Stefáns Halls var eins og áður sagði sjúklega ýkt svo að hann virkaði vel. Söguþráðurinn var alveg fínn, ekkert það mest frumlega í kvikmyndasögunni en mér fannst hann samt alveg ganga upp. Ég var ekki orðin pirruð á öllum slæmu hlutunum sem komu fyrir hann vegna þess að mér fannst þeir einhvern veginn alveg vera trúverðugir. Kannski kom það niður á bröndurunum ég veit það ekki.

Annað sem fór í taugarnar á mér var krakkinn sem var í myndmenntabekknum hans Jóhannesar. Algjör rebel sem nennir ekki að læra. Mér fannst þetta bara einhvern veginn vera ótrúverðugur karakter. Kannski af því að ég var í árgangi í grunnskóla þar sem eina fólkið sem strunsaði út úr tíma og öskraði á kennarana voru stelpurnar. En mér fannst fáránlegt að hann skyldi sitja þarna fyrir utan stofuna ef hann ætlaði ekki að koma inn. Frekar myndi hann skrópa og hanga í einhverri sjoppunni. Og þó svo að skólastjórinn hafi verið ágætlega fyndinn var senan þar sem dónalegi strákurinn er inni hjá honum og sakar Jóhannes um kynferðislega áreitni undarleg og pirrandi. Svona mikill aumingi ætti allavega alls ekki að vera skólastjóri!

Unnur Birna er svo sannarlega leiðinleg leikkona. Stelpan má eiga það að hún er sjúklega sæt sem virðist vera eina ástæðan fyrir því að henni var boðið þetta hlutverk. Hún hefur engan karisma á kvikmyndaskjánum og karakterinn hennar var algjörlega flatur og þurr. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum það var ekki fengin betri leikkona í þetta hlutverk! Það er ekki eins og hún sé eina fallega konan á landinu.

En að öðru leyti fannst mér þetta ágætlega leikin mynd. Stundum var hljóðið samt eitthvað undarlegt, hefði mátt hljóðblanda þetta aðeins nákvæmar. Vantaði kannski fullkomnunaráráttuna í hljóðmanninn.

Jæja ég hef ekki mikið meira að segja um Jóhannes. Til þess að taka þetta saman fannst mér Jóhannes vera ágæt mynd, alls ekki jafn léleg og ég hélt en hefði mátt vera miklu fyndnari þar sem að það er jú lagt upp með grínmynd. Nokkrir skemmtilegir karakterar en líka nokkrir lélegir. Myndatakan skemmtileg en hljóðið var undarlegt þó svo að ég eigi erfitt með að setja fingurinn nákvæmlega á hvað það var sem var skrítið.

Að lokum langar mig bara til þess að segja að mér fannst hún krúttleg út af því að hún fékk EKKERT fjármagn! Mikið afrek að geta komið svona mynd út án styrks úr Kvikmyndasjóði.





Takk fyrir lesturinn!

Sunday, November 22, 2009

Í frjálsu falli - Freefall

Jæja. Nú rétt áðan horfði ég á sjónvarpsmyndina Freefall eða Í frjálsu falli. Hún er frá þessu ári, 2009 en gerist á árunum 2007 og 2008 þegar góðærið var og féll. Hún er bresk.



Hún fjallar um þrjá mismunandi menn. Einn af þeim er Dave sem selur fólki sem á ekki peninga lán til þess að kaupa hluti sem það hefur ekki efni á. Hann selur og selur og allt gengur honum í hag en hann er óheiðarlegur og platar fólk út í að fá þessi lán. Hann heldur framhjá kærustunni sinni og kemur illa fram við vini sína. Annar maðurinn er bankamaður sem, ef ég skyldi þetta rétt, býr til lánin fyrir Dave til að selja. Hann er sjálfhverfur og virðist ekki getað elskað neinn annan en sjálfan sig. Allt líf hans snýst í kringum vinnuna. Hann hugsar illa um hjásvæfuna sína og dóttur sína. Hann sér um eitthvað sem kallast skuldavafningar. Uuuu man ekki hvað hann heitir.. Uuu nei. Þriðji maðurinn, Jim Potter, er gamall skólafélagi Dave. Hann á tvö börn og konu, Mandy Potter, en hefur rétt svo næga peninga á milli handanna til þess að komast af. Hann vinnur sem öryggisvörður í verslunarmiðstöð og hittir þar einn dag gamla félaga sinn Dave. Hann platar Jim til þess að taka lán fyrir nýju húsi þrátt fyrir að Mandy vilji það ekki.

Í frjálsu falli er augljóslega rosalega fyrirsjáanleg og það kemur í raun ekkert á óvart í myndinni. Það er reyndar eðlilegt þar sem hún fjallar um bankahrunið og kreppuna sem allir vita hvernig hefur gengið hingað til og ekki síst þann mannlega harm sem býr að baki. Þetta var náttúrulega allt bara eitt risastórt svindl keyrt áfram af græðgi og er það augljóst í myndinni.

Myndatakan var skemmtileg. Hún er lifandi og augljóslega oft tekin fríhendis. Það voru reyndar nokkur skot sem voru mjög dökk og sást varla neitt en ég held að það hafi verið meiningin vegna þess að það kom ekki niður á söguþræðinum. Það eru mörg close up skot og þá sérstaklega notuð í tilfinningaþrungnum senum og wide skotin voru oft mjög flott og myndræn.




Karakterarnir eru flestir mjög skemmtilegir. Dave fannst mér frábær hjá Dominic Cooper. Algjör skítapési en samt svo ótrúlega heillandi að hann gæti selt kú mjólk! Hann var besti karakterinn og virtist í upphafi vera aðalhlutverk myndarinnar en hvarf í seinni hlutanum, en ég tala betur um það á eftir. Karakter Jims var líka góður en þriðji maðurinn, sem ég man ekki hvað heitir, var alveg rosalega óspennandi og týndist einhvern veginn alveg í plottinu. Það var ekki byggður eins góður grunnur fyrir hann og hina karakterana og mér fannst hann allan tímann eiginlega bara vera fyrir. Það gæti líka verið vegna þess að ég átti bágt með að skilja við hvað hann starfaði sem mér fannst reyndar skemmtileg ádeila á að hinn óbreytti borgari skilur í rauninni ekkert í þessari kreppu og öllum undarlegu tölunum og orðunum sem eru notuð til að útskýra hana. Hann náði engan veginn til mín svo að hans gjörðir í myndinni fóru fyrir ofan garð og neðan. Hann átti auðvitað að vera fjarlæg týpa og var alveg svalur en því miður fannst mér það vera tekið aðeins of langt.

Söguþráðurinn var eins og áður sagði frekar fyrirsjáanlegur en það var ekki svo slæmt. Myndin fékk mig virkilega til þess að verða stressuð fyrir framtíðinni! Hvaðan á maður að fá pening til þess að lifa? Eru peningar það sem við þurfum til þess að vera hamingjusöm? Ég hef algjörlega ákveðið að láta aldrei plata mig út í eitthvað lánarugl og þó svo að ég hafi vitað áður að það sé alls ekki sniðugt þá varpaði Freefall ljósi á hvað venjulegt fólk gengur í gegnum þegar það getur ekki lengur borgað af húsinu sínu eða keypt sér mat.

Uppbyggingin í myndinni var virkilega flott! Hvernig þetta byrjaði á kaupsýslumönnunum og hvað allt lék í lyndi. Djamm, stelpur og flottir bílar. En svo færðist áherslan hægt yfir á fátæka öryggisvörðinn á sama tíma og markaðurinn varð verri og verri. Síðan hvarf Dave algjörlega þegar félagi hans sat í djúpu skuldasúpunni sem hann hafði eldað. (vá svaka myndlíkingar í gangi hérna)




Freefall var virkilega ágæt mynd. Ekkert must see en góð afþreying á sunnudagskvöldi. Mjög skemmtilega leikin og áhugaverð ádeila.

Thursday, November 5, 2009

Meira um Riff!

Æ ég átti alltaf eftir að pósta þessu bloggi því að ég á enn eftir nokkrar myndir frá Riff sem mig langar til þess að blogga um! En læt þetta flakka núna.


Mamma er hjá hárgreiðslumanninum
Þessi mynd var án vafa önnur besta myndin sem ég sá á Riff. Hún gerist í Kanada og er á frönsku sem mér finnst alltaf ákaflega skemmtilegt. Þó svo að ég skilji nánast ekkert eftir 5 ára nám! En jæja myndin gerist um sumar 1966 og er virkilega gaman að því hvað öll umgjörð, það er að segja leikmynd og búningar er vel sniðin að þeim tíma.
 Mér fannst alveg eins og ég væri að horfa á mynd frá tímabilinu. Öll smáatriði eins og hekluð teppi, hárið á mömmunni og ég veit ekki hvort þetta "meikar eitthvað sens" en mér fannst einhvern veginn birtan gefa myndinni þennan 1960 tón. 
Hún fjallar um Élise sem er svona mitt á milli þess að vera krakki og unglingur. Hún býr með mömmu sinni, pabba og tveimur bræðrum. Í byrjun myndarinnar virðist fjölskyldulíf þeirra vera fullkomið, mamman virðist vera besta mamma í heiminum, bakar uppáhalds köku barnanna sinna og verður aldrei pirruð. Ég sá reyndar fljótt í gegnum þetta enda kom fljótt í ljós að pabbinn var ekki allur þar sem hann var séður. Élise kemst að því að hann heldur við, eða hana fer að gruna eitthvað, félaga sinn. Hún endar með að uppljóstra leyndarmálinu og móðir hennar er auðvitað ekki par sátt með pabbann. Það er mjög átakanlegt augnablik þegar hún grætur sáran og litli sonur hennar heyrir allt þar sem hann liggur undir rúmi. Það er ekki auðvelt fyrir hann að uppgötva að mamma er ekki alltaf glöð. En mamman fer semsagt og byrjar að vinna hjá sjónvarpsstöð sem fréttakona. Hún skilur börnin sín þrjú alveg eftir í umsjá föðurins sem kann ekkert í heimilisstörfum. Við tekur erfitt tímabil hjá fjölskyldunni þar sem Élise þarf að reyna að fylla upp í skarð móður sinnar þrátt fyrir ungan aldur, eldri bróðirinn sekkur sér djúpt í að búa til gókart bíl og yngsti bróðirinn, Benoit, fer enn meira inn í sinn eigin hugarheim. 
Þegar ég fór á þessa mynd þá hafði ég engar væntingar og vissi ekkert
 við hverju ég ætti að búast. En ég varð alveg virkilega hrifin! 

Mamma er hjá hárgreiðslumanninum er svo margbrotin og fjallar um svo mörg mannleg vandamál á virkilega áreynslulausan og náttúrulegan hátt. Það er fjallað um hjónabandsvandamál, einhverfu, einstæð foreldri, fordóma, ungar ástir, einstæðinga, mannleg samskipti, afneitun og svo margt fleira. En hún er á sama tíma mjög fyndin! Það er líka eina leiðin til þess að komast í gegnum erfiðu kaflana í lífinu, að leyfa þeim ekki að draga sig niður í þunglyndi. Hún er því virkilega ljúfsár. Það er mjög átakanlegt að fylgjast með Benoit og hvernig hann reynir að takast á við brotthvarf móður sinnar. 

Persónusköpunin var tær snilld! Allir ungu krakkarnir sem þurftu að takast á við svo mikið af vandamálum foreldra sinna á þessum tíma þegar allt átti að vera svo fullkomið. Litli ljóshærði strákurinn sem trúði því að hann væri af aðalsættum var algjört krútt og svona comic relief, örlítið þybbni strákurinn sem var svo meðvirkur með móður sinni og fleiri og fleiri góðir karakterar. Mér fannst líka vináttan sem myndaðist milli Élise og gamla veiðimannsins vera falleg. 
Myndatakan var oft mjög flott. Eitt töff skot sem ég man eftir var þegar eldri bróðurinum (man ekki hvað hann heitir!) tekst í fyrsta sinn að keyra gókartinn. Lýsingin fannst mér eins og ég nefndi áður virkilega flott og hún setti stemninguna í myndinni. 

Það sem var samt best við myndina var leikurinn. Það er vel af sér vikið að finna svona marga krakka sem leika svona vel! Stelpan sem lék Élise var virkilega góð í sínu hlutverki. Leikur hennar var mjög
 trúverðugur og áreynslulaus. Hinir krakkarnir skiluðu líka sínu mjög vel. En þó langar mig sérstaklega að minnast á unga strákinn sem lék Benoit. Það er skrítið að tala um að svona ungur strákur sé góður leikari en hann var bara svo ótrúlega trúverðugur! Ég fann svo til með honum. Hann hafði svo stór augu sem virtust vera endalaus. 
Mommy's at the hairdressers var frábær mynd í alla staði. 


Two drifters
Add Image
Það má segja að Two Drifters hafi verið jafnléleg og Mommy's at the hairdressers var góð. Til þess að vera alveg hreinskilin þá var þetta bara algjör hörmung. Hún fjallar um tvo homma sem eru rosalega ástfangnir og eiga ársafmæli. Þegar annar þeirra er að keyra heim eftir að þeir fögnuðu afmælinu keyrir hann útaf og deyr. Þetta gerðist allt á fyrstu tveimur mínútunum og alltof hratt! Maður náði ekki að tengja neitt við karakterana og þetta varð þar af leiðandi EKKERT áhrifaríkt. Þetta var líka alveg átakanlega illa leikið. Hún fjallar líka um konu sem langar rosalega mikið í barn og hættir með kærastanum sínum útaf því að hann er ekki tilbúinn eftir stutt samband. Þau leika líka bæði hörmulega! Svo af einhverjum ástæðum mætir konan í líkvöku hommans, stelur hringnum hans og byrjar að þykjast vera ólétt að barninu hans. Svo flytur hún inn til mömmu hommans, stelur fötunum hans og fær sér alveg eins klippingu. 
Vá þetta var nálægt því að vera versta mynd sem ég hef séð! Eina ástæðan fyrir því að ég gekk ekki út var af því að þetta var Q&A og leikstjórinn var í salnum. 
Hún gekk löturhægt sem var í fullkomlegu ósamræmi við byrjunaratriðið, það var engin ástæða fyrir gjörðum persónanna, ekki vottur af persónusköpun, vandræðalega lélegur leikur og bara einfaldlega ógeðslega (fyrirgefið orðbragðið) leiðinlegur og fáránlegur söguþráður! 
Ég hef engan áhuga á að eyða fleiri orðum í þessa portúgölsku peningasóun.