Wednesday, September 2, 2009

Topp 6 listinn minn!



Hér kemur loksins Topp-listinn minn! 

---------------------------------------------------------------------------------
1. Into the Wild (2007)

Þessi mynd heillaði mig hvorki þegar hún var auglýst í bíó né þegar ég sá hana á leigunum. En eitt vetrarkvöld, núna í ár, rakst ég óvart á hana á
 einhverju stöðvaflakki. Hún greip mig samstundis og sleppti mér ekki fyrr en mörgum dögum seinna. Hún fjallar örstuttu máli um Christopher McCandless sem gjörbreytir lífi sínu eftir útskrift með því að gefa allar sínar eigur og yfirgefa fjölskylduna sína. Eina markmið hans var að lifa einn í óbyggðum Alaska. Myndin er öll tekin "on location" eins og sagt er og tekst það ótrúlega vel. Ég sogaðist algjörlega inn í söguþráðinn, aðstæðurnar og tilfinningarnar sem orsakast líklega af því að myndin er algjörlega laus við alla tilgerð. Hún vakti upp alls kyns tilfinningar hjá mér og náði langt inn á tilfinningastöðina. Emile Hirsch sýnir stórgóðan leik sem Christopher og nær til áhorfandans með áreynslulausum leik sínum og sjarma. Ég vissi ekki fyrr en algjörlega í blálokin að um væri að ræða sanna sögu en það gerði myndina ennþá meira heillandi. Ég lá á wikipedia og google langt fram á nótt og las um þennan McCandless og hans sögu. Algjörlega ein besta mynd sem ég hef séð! 

2. Fight Club (1999)
Eftir að ég var búin að horfa á þessa mynd gat ég ekkert annað sagt heldur en "Vá"! Og horfði á hana strax aftur. Hún er bara svo yfirgengilega svöl! Allt andrúmsloftið frá byrjun til enda er svo þrungið myrkri og þunglyndi. Rödd Nortons er svo yndislega mónótónísk og passar fullkomlega við þetta þunga, myrka andrúmsloft. Fyrir utan hvað öll umgjörð er stórglæsilega unnin og úthugsuð er leikurinn lýtalaus. Edward Norton sýnir líklega sinn besta leik, Helena Bonham Carter er sú eina sem hefði getað leikið hina undarlegu Mörlu og Brad Pitt sem Tyler Durden er einn eftirminnilegasti kvikmyndakarakter sem ég hef séð. En allt þetta væri til einskis ef sagan og merking sögunnar væri ekki til staðar. Ég hef reyndar ekki lesið bókina, og þori því varla, en stefni á að gera það áður en ég verð
 tvítug. Þetta er virkilega djúp saga og kemur inn á svo margt. Hver og einn ætti að geta séð eitthvað í sjálfum sér í myndinni og persónunum, sem er þó frekar ógnvekjandi þar sem að hún er, eins og áður sagði, mjög myrk. Það sem ég tók aðallega eftir var þessi ógeðistilfinning sem Sögumaðurinn er kominn með á sjálfum sér og þessi hvöt til þess að breyta lífi sínu. Gera það áhugaverðara og það að vilja finna meira til, þrátt fyrir að það sé ekki endilega hamingjutilfinning.  Ég fíla líka rosalega vel háðið sem er undirliggjandi alla myndina, reyndar alls ekkert falið, og hún er stútfull af húmor og glettni. Þetta er mynd sem ég get horft á aftur og aftur og aftur!

3. The Shawshank Redemption (1994)

Ég var frekar stressuð að sjá þessa mynd og frestaði því lengi. Ég var hrædd um að ég hef
ði of miklar væntingar og myndi ekki skilja boðskapinn eða söguþráðinn. Langt því frá! Ég varð alveg heilluð. Til að byrja með langar mig til þess að minnast á hversu frábærlega vel leikin hún er. Morgan Freeman lætur það virðast vera auðveldasta starf í heimi að vera leikari og Tim Robbins verður að persónu sem manni þykir vænt um, og meira og meira eftir því sem líður á myndina. Svo má ekki gleyma öllum aukaleikurunum sem eru ekkert eins og þeir séu að leika! Annað sem heillaði mig var einfaldleiki sögunnar. Þetta er saga sem snertir alla. Hún fjallar um vináttu, von, kærleika, frelsi og baráttu. Hún er svo mannleg, falleg og lætur manni líða vel. Það er svo mikil sjálfsbjargarviðleitni hjá Andy, persónu Tim Robbins, að maður ber ósjálfrátt virðingu fyrir honum. 

4. Garden State (2004)

Þessi mynd er yndisleg. Hún er svo lítil í sniðum og krúttleg. Það eitt og sér gerir hana auðvitað ekki nógu góða til þess að vera á Topp-listanum mínum en þetta er alltaf það fyrsta sem poppar upp í hugann þegar ég hugsa um Garden State. Hún fjallar um Andrew sem hefur verið svo dópaður upp af föður sínum allt sitt líf að hann hefur engar tilfinningar lengur. Það kemur strax í ljós í byrjun þegar honum er sagt að móðir hans hafi dáið og hann sýnir engar tilfinningar. Það er það fyrsta sem grípur áhorfandann við Garden State. Tilfinningar eru svo stór hluti af lífinu. Það er eins og að vera ekki með fætur að hafa engar tilfinningar. Garden State er langt frá því að vera fullkomin og til dæmis fannst mér leiðinlegt hvernig endirinn varð að hálfgerðri vellu. En hún er engu að síður einn af gullmolum kvikmyndanna að mínu mati, ég get ekki alveg sett fingurinn á af hverju, en kannski er það einmitt sjarminn við hana. 

5. 12 Angry Men

Það sem heillaði mig mest við 12 reiða menn var myndatakan og notkun rýmis. Ég stóð sjálfa mig að því að vita ekkert hvað var að gerast í sögunni þegar ég sá hana fyrst af því að mér fannst svo gaman að fylgjast með mismunandi skotum og áherslunum í kvikmyndatökunni. En þegar ég horfði á hana aftur var það sagan sem greip auga mitt. Maður hefur ófáum sinnum fylgst með þætti eða mynd sem gerist innan í réttarsalnum og þá er það alltaf þannig að kviðdómurinn fer í burtu og kemur svo aftur með úrskurðinn. Í 12 Angry Men er þessu í raun öfugt farið. Myndin byrjar á því að réttarhöldunum er að ljúka og kviðdómurinn á að hefja starf sitt. Það eru allir sammála um að hinn grunaði sé sekur nema einn, og hann er ekki einu sinni sannfærður um sakleysi hans, og uppfrá því hefst mikil umræða um málið. Það 
er gaman að fylgjast með hvernig persónurnar fara frá því að vera hópur af kviðdómendum í að vera einstaklingar. Hver með sína skoðun og sín einkenni. Persónusköpunin er því mjög góð og gerir einfalda mynd virkilega áhugaverða.


12-angry-men

                       Hér eru 12 reiðu mennirnir allir saman komnir!


6. The Lord of the Rings 1,2 & 3

Ég get ekki að því gert. Mér finnst þessar myndir geðveikar! Ég get engan veginn gert upp á milli þeirra því að eins og þær eru allar líkar og segja sömu sögu, eru þær samt svo gífurlega ólíkar. Öll umgjörðin er ótrúleg. Búningar eru útpældir niður í hin smæstu smáatriði og einnig umhverfið, hús og byggingar til dæmis. Tónlistin finnst mér líka vera ein sú besta sem fram hefur komið í kvikmyndum. Sagan eftir Tolkien er auðvitað heimsþekkt og ótrúlegt er að það hafi tekist að gera myndir sem gera henni góð skil og skilja aðdáendurna ekki eftir í polli vonbrigða. Þetta er ekta ævintýrasaga þar sem koma við dvergar, álfar og ýmsar aðrar furðuverur en samt finnst mér eins og þetta geti alveg hafa verið til fyrir mörg hundruð/þúsund árum. Persónurnar eru góðar, hver og einn með sinn sjarma og mismunandi áherslur. Það er mjög gaman að fylgjast með hvernig sambönd þeirra breytast og styrkjast í gegnum allar myndirnar. Í hvert skipti sem ég horfi á þessar myndir, sem ég geri kannski ekkert rosalega oft þar sem þær eru um 3 tímar hver, tek ég eftir einhverju nýju smáatriði eða nýjum brandara. 

------------------------------------------------------------------------
Jæja þar sem ég var búin að ákveða að skrifa aðeins um þessar 6 myndir læt ég hér við sitja. Reyndar komu upp í hugann margar aðrar myndir sem ættu vel heima á þessum lista en ég ætla að geyma það til betri tíma.

Þangað til næst.
Nanna Elísa

1 comment:

  1. Ég var búinn að skrifa komment við þessa færslu. Ég man að ég skrifaði það hvernig aðalpersónan í Garden State er gott dæmi um passífan karakter. Ég var meira að segja búinn að skrá hjá mér stigafjöldann fyrir færsluna (5 stig). Ég skil ekki hvað varð um kommentið. Ég hlýt eitthvað að hafa klúðrað þessu.

    5 stig.

    ReplyDelete