Sunday, November 22, 2009

Í frjálsu falli - Freefall

Jæja. Nú rétt áðan horfði ég á sjónvarpsmyndina Freefall eða Í frjálsu falli. Hún er frá þessu ári, 2009 en gerist á árunum 2007 og 2008 þegar góðærið var og féll. Hún er bresk.



Hún fjallar um þrjá mismunandi menn. Einn af þeim er Dave sem selur fólki sem á ekki peninga lán til þess að kaupa hluti sem það hefur ekki efni á. Hann selur og selur og allt gengur honum í hag en hann er óheiðarlegur og platar fólk út í að fá þessi lán. Hann heldur framhjá kærustunni sinni og kemur illa fram við vini sína. Annar maðurinn er bankamaður sem, ef ég skyldi þetta rétt, býr til lánin fyrir Dave til að selja. Hann er sjálfhverfur og virðist ekki getað elskað neinn annan en sjálfan sig. Allt líf hans snýst í kringum vinnuna. Hann hugsar illa um hjásvæfuna sína og dóttur sína. Hann sér um eitthvað sem kallast skuldavafningar. Uuuu man ekki hvað hann heitir.. Uuu nei. Þriðji maðurinn, Jim Potter, er gamall skólafélagi Dave. Hann á tvö börn og konu, Mandy Potter, en hefur rétt svo næga peninga á milli handanna til þess að komast af. Hann vinnur sem öryggisvörður í verslunarmiðstöð og hittir þar einn dag gamla félaga sinn Dave. Hann platar Jim til þess að taka lán fyrir nýju húsi þrátt fyrir að Mandy vilji það ekki.

Í frjálsu falli er augljóslega rosalega fyrirsjáanleg og það kemur í raun ekkert á óvart í myndinni. Það er reyndar eðlilegt þar sem hún fjallar um bankahrunið og kreppuna sem allir vita hvernig hefur gengið hingað til og ekki síst þann mannlega harm sem býr að baki. Þetta var náttúrulega allt bara eitt risastórt svindl keyrt áfram af græðgi og er það augljóst í myndinni.

Myndatakan var skemmtileg. Hún er lifandi og augljóslega oft tekin fríhendis. Það voru reyndar nokkur skot sem voru mjög dökk og sást varla neitt en ég held að það hafi verið meiningin vegna þess að það kom ekki niður á söguþræðinum. Það eru mörg close up skot og þá sérstaklega notuð í tilfinningaþrungnum senum og wide skotin voru oft mjög flott og myndræn.




Karakterarnir eru flestir mjög skemmtilegir. Dave fannst mér frábær hjá Dominic Cooper. Algjör skítapési en samt svo ótrúlega heillandi að hann gæti selt kú mjólk! Hann var besti karakterinn og virtist í upphafi vera aðalhlutverk myndarinnar en hvarf í seinni hlutanum, en ég tala betur um það á eftir. Karakter Jims var líka góður en þriðji maðurinn, sem ég man ekki hvað heitir, var alveg rosalega óspennandi og týndist einhvern veginn alveg í plottinu. Það var ekki byggður eins góður grunnur fyrir hann og hina karakterana og mér fannst hann allan tímann eiginlega bara vera fyrir. Það gæti líka verið vegna þess að ég átti bágt með að skilja við hvað hann starfaði sem mér fannst reyndar skemmtileg ádeila á að hinn óbreytti borgari skilur í rauninni ekkert í þessari kreppu og öllum undarlegu tölunum og orðunum sem eru notuð til að útskýra hana. Hann náði engan veginn til mín svo að hans gjörðir í myndinni fóru fyrir ofan garð og neðan. Hann átti auðvitað að vera fjarlæg týpa og var alveg svalur en því miður fannst mér það vera tekið aðeins of langt.

Söguþráðurinn var eins og áður sagði frekar fyrirsjáanlegur en það var ekki svo slæmt. Myndin fékk mig virkilega til þess að verða stressuð fyrir framtíðinni! Hvaðan á maður að fá pening til þess að lifa? Eru peningar það sem við þurfum til þess að vera hamingjusöm? Ég hef algjörlega ákveðið að láta aldrei plata mig út í eitthvað lánarugl og þó svo að ég hafi vitað áður að það sé alls ekki sniðugt þá varpaði Freefall ljósi á hvað venjulegt fólk gengur í gegnum þegar það getur ekki lengur borgað af húsinu sínu eða keypt sér mat.

Uppbyggingin í myndinni var virkilega flott! Hvernig þetta byrjaði á kaupsýslumönnunum og hvað allt lék í lyndi. Djamm, stelpur og flottir bílar. En svo færðist áherslan hægt yfir á fátæka öryggisvörðinn á sama tíma og markaðurinn varð verri og verri. Síðan hvarf Dave algjörlega þegar félagi hans sat í djúpu skuldasúpunni sem hann hafði eldað. (vá svaka myndlíkingar í gangi hérna)




Freefall var virkilega ágæt mynd. Ekkert must see en góð afþreying á sunnudagskvöldi. Mjög skemmtilega leikin og áhugaverð ádeila.

1 comment:

  1. "Virkilega ágæt"?

    Þetta var alveg sæmilega frábær færsla. 7 stig.

    ReplyDelete