Sunday, September 27, 2009

Dear Zachary

Ég á eftir að blogga um bróðurpartinn af Riff-myndunum sem ég sá, sem voru held ég 13 talsins en ég get bara ekki annað en skrifað um myndina sem ég sá í gærkvöldi, Dear Zachary: A letter to a son about his father. 



Dear Zachary er heimildarmynd eftir Kurt Kuenne. Hún fjallar um besta vin Kurt, Andrew Bagby, sem var myrtur af reiðri fyrrverandi kærustu, Shirley. Kurt ákveður að ferðast um Bandaríkin til þess að safna minningum um Andrew stuttu eftir dauða hans. Þegar verið er að rétta yfir Shirley kemur í ljós að hún er ólétt af barni Andrews. Þá ákvað Kurt að gera þessa mynd fyrir barnið, sem Shirley skírði Zachary Andrew, til þess að hann geti séð hversu mikið faðir hans var elskaður.
Kurt á rosalega mikið af gömlum myndböndum af Andrew, bæði þar sem þeir hafa verið að gera kvikmyndir sem táningar en einnig af honum sem fullorðnum manni. Hann ferðast eins og áður sagði um Bandaríkin og talar við vini, samstarfsfólk, ættingja og fleiri sem þekktu Andrew til þess að læra allt um hann fyrir Zachary. Það er augljóst að Andrew og foreldrar hans voru mikið elskuð af vinum og ættingjum. Myndin fylgir líka náið foreldrum Andrews sem eru að reyna að fá forræði yfir barninu og samskiptum þeirra við morðingja sonar þeirra. 

Kurt tókst fullkomlega upphaflega ætlunarverk sitt með myndinni. Maður fær að kynnast Andrew og skilur vel hversu auðvelt það var að þykja vænt um hann. Kurt talar sjálfur inn á myndina og um sínar eigin hugsanir og efasemdir sem gerir það að verkum að áhorfandanum finnst eins og myndinni sé beint að sjálfum sér. Hann passar líka að allar staðreyndir komi skýrt fram og oft endurtekur hann eitthvað til þess að leggja sérstaka áherslu á það sem er mjög þægilegt því að í myndinni er mikið af upplýsingum sem maður þarf að ná. Það eykur líka á áhrif myndarinnar. Það eina sem var óþægilegt var að stundum átti ég erfitt með að skilja enskuna hjá einum og einum og stundum var klippt svo hratt á milli að heilinn missti af fyrstu orðum hjá manneskjunni sem talaði næst. En það sem maður verður að muna er að þessi mynd var upphaflega gerð fyrir fjölskylduna einungis en algjörlega ófyrirsjáanlegir atburðir gerðu þessa mynd að mynd sem ALLIR ættu að sjá. Það hefði því verið þægilegt að hafa texta stundum en það er erfitt að ákveða hvenær á að vera texti og hvenær ekki. Það hefði kannski verið þægilegt að hafa texta allan tímann en það hefði líka getað orðið mjög kjánalegt. Þetta er vandamál sem er ekki auðleyst og það kom alls ekki niður á myndinni að maður hafi ekki skilið eina og eina setningu! Kurt er líka mikill húmoristi og framan af er margt mjög fyndið.

Aldrei á minni stuttu ævi hefur mynd haft jafn gríðarlega mikil áhrif á mig og Dear Zachary. Ég sat negld við stólinn í Hellubíói allan tímann. Ég fékk gæsahúð, ég grét, ég fann fyrir þyngslum yfir hjartanu og eftir myndina sátu allir í salnum steinrunnir á meðan creditlistinn rúllaði, það var ekki fyrr en ljósin höfðu verið kveikt og skjárinn hafði verið svartur í dágóða stund sem fólk fór að týnast út. 
Þessi saga er svo ótrúleg og atburðarásin tekur hverja beygjuna á eftir annarri. Foreldrar Andrews eru með sterkasta fólki sem ég hef séð og baráttuandi þeirra þrátt fyrir allt mótlætið er virkilega aðdáunarverður. Þetta má samt alls, alls ekki skiljast sem svo að Dear Zachary sé einhver upphafning á látinni manneskju og ættingjum þeirra. Það er ekkert ýkt, það þarf heldur ekkert að ýkja, þetta eru bara blákaldar staðreyndir og mannlegar tilfinningar. 
Það er virkilega erfitt að blogga um þessa mynd þar sem að bæði vil ég alls ekki segja of mikið og einnig er erfitt að koma orðum að áhrifunum sem hún hafði á mig.

Dear Zachary: A letter to a son about his father er tvímælalaust langbesta myndin sem ég sá á Riff. Ein besta heimildarmynd allra tíma, sú mynd sem hefur haft mest áhrif á mig og eins og sést hérna til hægri er hún komin á Topp-listann minn. Hún gerir mann bálreiðan og sorgmæddan en samt er svo mikill kærleikur í henni og von um að sama hversu erfitt lífið getur verið er alltaf hægt að berjast. 

Allir ættu að sjá þessa mynd. Vá ég er með gæsahúð.

2 comments:

  1. Virkilega fín færsla. 9 stig.

    Sammála því að þetta er virkilega öflug mynd.

    Stundum fannst mér samt þessar endurtekningar vera hálf-óþægilegar - mér fannst þær stundum hálf áróðurskenndar.

    Foreldrarnir eru ótrúlegir karakterar. Ótrúlega sterk.

    Tókstu eftir því þegar Kurt varð klökkur þegar hann talaði inn á myndina?

    ReplyDelete
  2. Já ég er reyndar soldið sammála með endurtekningarnar. Æ fannst það samt alveg sleppa við horn að virka!

    Nei ég tók ekki eftir því að hann varð klökkur! Mér finnst flott hjá honum að nota það. Einmitt það sem gerir myndina svona persónulega og áhrifamikla.

    ReplyDelete