Monday, November 23, 2009

Jóhannes

Ég skellti mér á Jóhannes fyrir stuttu. Ég er, eins og ég hef áður minnst á, mikill aðdáandi íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsgerðar. Ekki það að mér finnist það alltaf bestu myndirnar en þær eru svo nálægt manni út af tungumálinu og menningunni.

Jóhannes fjallar um Jóhannes sem er leikinn af Ladda og kennir myndmennt í ónefndum skóla á höfuðborgarsvæðinu. Myndin fylgir í raun hörmulegum degi í lífi þessa manns sem er ósköp venjulegur en á þessum degi virðist svart óveðurský elta hann á röndum! Inn í myndina koma áhugaverðir karakterar, sveitastúlkan, eiturlyfjasalinn og brjálaði kærastinn.

Það er svolítið erfitt fyrir mig að skrifa um Jóhannes þar sem að fyrsta hálftímann höfðu einhverjir erkibjánar gleymt að slökkva á playlistanum sem ómar stanslaust í sölum háskólabíó þegar myndirnar eru ekki í gangi og ég skildi ekkert hvaða hræðilega lagaval var í myndinni og af hverju þeim fannst nauðsynlegt að hafa alltaf tónlist undir samtölunum! En ég fattaði sem betur fer, þó eftir hálftíma, hvernig á þessu stóð og fór fram og bað stúlkurnar í afgreiðslunni vinsamlega um að slökkva á fm957 tónlistinni. Úff.. ,,Guuuuuuuuuuuð í alvöru? Æ..æ..." Smá moodkiller en ég komst fljótt yfir þetta!

Aðalgagnrýnin mín, sem var semsagt undarlegt lagaval og léleg hljóðblöndun, var semsagt fokin út í veður og vind. En jæja nóg um afglöp apanna í Háskólabíó (sem bættu mér og mömmu þetta reyndar upp).

Ég geri mér grein fyrir því að ég minnist alltaf á þetta en myndatakan... hehe ég tók eftir allmörgum flottum skotum í þessari mynd! Það var til dæmis eitt í lokin þegar Jóhannes stendur á pallinum í sumarhúsinu og þetta er tekið svona upp og allt húsið sést í skotinu og gróðurinn í kring og manni fannst eins og hann væri staddur í paradís sem var nákvæmlega líðan hans. Svo fannst mér líka flott skot þar sem hann kom út úr lögreglustöðinni og stendur alveg uppgefinn á tröppunum. Mér fannst eiginlega myndatakan vera best við þessa mynd og svo Stefán Hallur sem lék afbrýðisama kærasta Unnar Birnu, eða Tótu. Hans týpa var skemmtileg. Ótrúlega reiður og froðufellandi handrukkari. Ýkt týpa sem á vel við í mynd af þessu tagi.

Það sem mér fannst mest að myndinni var einfaldlega að hún fékk mig ekki til þess að hlæja. Ég held að ég hafi einu sinni alveg skellt upp úr og það var einhvern tíma þegar enginn annar í salnum hló og ég fékk eitt hneykslunaraugnaráð frá 9 ára stelpu. Get samt engan veginn munað af hverju ég hló eða hvaða atriði þetta var! Þetta átti augljóslega að vera grínmynd en varð samt einhvern veginn lítið fyndin. Týpan hans Stefáns Halls var eins og áður sagði sjúklega ýkt svo að hann virkaði vel. Söguþráðurinn var alveg fínn, ekkert það mest frumlega í kvikmyndasögunni en mér fannst hann samt alveg ganga upp. Ég var ekki orðin pirruð á öllum slæmu hlutunum sem komu fyrir hann vegna þess að mér fannst þeir einhvern veginn alveg vera trúverðugir. Kannski kom það niður á bröndurunum ég veit það ekki.

Annað sem fór í taugarnar á mér var krakkinn sem var í myndmenntabekknum hans Jóhannesar. Algjör rebel sem nennir ekki að læra. Mér fannst þetta bara einhvern veginn vera ótrúverðugur karakter. Kannski af því að ég var í árgangi í grunnskóla þar sem eina fólkið sem strunsaði út úr tíma og öskraði á kennarana voru stelpurnar. En mér fannst fáránlegt að hann skyldi sitja þarna fyrir utan stofuna ef hann ætlaði ekki að koma inn. Frekar myndi hann skrópa og hanga í einhverri sjoppunni. Og þó svo að skólastjórinn hafi verið ágætlega fyndinn var senan þar sem dónalegi strákurinn er inni hjá honum og sakar Jóhannes um kynferðislega áreitni undarleg og pirrandi. Svona mikill aumingi ætti allavega alls ekki að vera skólastjóri!

Unnur Birna er svo sannarlega leiðinleg leikkona. Stelpan má eiga það að hún er sjúklega sæt sem virðist vera eina ástæðan fyrir því að henni var boðið þetta hlutverk. Hún hefur engan karisma á kvikmyndaskjánum og karakterinn hennar var algjörlega flatur og þurr. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum það var ekki fengin betri leikkona í þetta hlutverk! Það er ekki eins og hún sé eina fallega konan á landinu.

En að öðru leyti fannst mér þetta ágætlega leikin mynd. Stundum var hljóðið samt eitthvað undarlegt, hefði mátt hljóðblanda þetta aðeins nákvæmar. Vantaði kannski fullkomnunaráráttuna í hljóðmanninn.

Jæja ég hef ekki mikið meira að segja um Jóhannes. Til þess að taka þetta saman fannst mér Jóhannes vera ágæt mynd, alls ekki jafn léleg og ég hélt en hefði mátt vera miklu fyndnari þar sem að það er jú lagt upp með grínmynd. Nokkrir skemmtilegir karakterar en líka nokkrir lélegir. Myndatakan skemmtileg en hljóðið var undarlegt þó svo að ég eigi erfitt með að setja fingurinn nákvæmlega á hvað það var sem var skrítið.

Að lokum langar mig bara til þess að segja að mér fannst hún krúttleg út af því að hún fékk EKKERT fjármagn! Mikið afrek að geta komið svona mynd út án styrks úr Kvikmyndasjóði.





Takk fyrir lesturinn!

2 comments:

  1. Vá, hálftími af vondri tónlist undir myndinni! Því miður eru svona hryllingssögur úr bíóum ekki sjaldgæfar...

    Fín færsla. 7 stig.

    ReplyDelete
  2. P.S. Þig vantar enn 14 stig upp í kvótann.

    ReplyDelete