Mamma er hjá hárgreiðslumanninum
Þessi mynd var án vafa önnur besta myndin sem ég sá á Riff. Hún gerist í Kanada og er á frönsku sem mér finnst alltaf ákaflega skemmtilegt. Þó svo að ég skilji nánast ekkert eftir 5 ára nám! En jæja myndin gerist um sumar 1966 og er virkilega gaman að því hvað öll umgjörð, það er að segja leikmynd og búningar er vel sniðin að þeim tíma.
Mér fannst alveg eins og ég væri að horfa á mynd frá tímabilinu. Öll smáatriði eins og hekluð teppi, hárið á mömmunni og ég veit ekki hvort þetta "meikar eitthvað sens" en mér fannst einhvern veginn birtan gefa myndinni þennan 1960 tón.
Hún fjallar um Élise sem er svona mitt á milli þess að vera krakki og unglingur. Hún býr með mömmu sinni, pabba og tveimur bræðrum. Í byrjun myndarinnar virðist fjölskyldulíf þeirra vera fullkomið, mamman virðist vera besta mamma í heiminum, bakar uppáhalds köku barnanna sinna og verður aldrei pirruð. Ég sá reyndar fljótt í gegnum þetta enda kom fljótt í ljós að pabbinn var ekki allur þar sem hann var séður. Élise kemst að því að hann heldur við, eða hana fer að gruna eitthvað, félaga sinn. Hún endar með að uppljóstra leyndarmálinu og móðir hennar er auðvitað ekki par sátt með pabbann. Það er mjög átakanlegt augnablik þegar hún grætur sáran og litli sonur hennar heyrir allt þar sem hann liggur undir rúmi. Það er ekki auðvelt fyrir hann að uppgötva að mamma er ekki alltaf glöð. En mamman fer semsagt og byrjar að vinna hjá sjónvarpsstöð sem fréttakona. Hún skilur börnin sín þrjú alveg eftir í umsjá föðurins sem kann ekkert í heimilisstörfum. Við tekur erfitt tímabil hjá fjölskyldunni þar sem Élise þarf að reyna að fylla upp í skarð móður sinnar þrátt fyrir ungan aldur, eldri bróðirinn sekkur sér djúpt í að búa til gókart bíl og yngsti bróðirinn, Benoit, fer enn meira inn í sinn eigin hugarheim.
Þegar ég fór á þessa mynd þá hafði ég engar væntingar og vissi ekkert
við hverju ég ætti að búast. En ég varð alveg virkilega hrifin!
Mamma er hjá hárgreiðslumanninum er svo margbrotin og fjallar um svo mörg mannleg vandamál á virkilega áreynslulausan og náttúrulegan hátt. Það er fjallað um hjónabandsvandamál, einhverfu, einstæð foreldri, fordóma, ungar ástir, einstæðinga, mannleg samskipti, afneitun og svo margt fleira. En hún er á sama tíma mjög fyndin! Það er líka eina leiðin til þess að komast í gegnum erfiðu kaflana í lífinu, að leyfa þeim ekki að draga sig niður í þunglyndi. Hún er því virkilega ljúfsár. Það er mjög átakanlegt að fylgjast með Benoit og hvernig hann reynir að takast á við brotthvarf móður sinnar.
Persónusköpunin var tær snilld! Allir ungu krakkarnir sem þurftu að takast á við svo mikið af vandamálum foreldra sinna á þessum tíma þegar allt átti að vera svo fullkomið. Litli ljóshærði strákurinn sem trúði því að hann væri af aðalsættum var algjört krútt og svona comic relief, örlítið þybbni strákurinn sem var svo meðvirkur með móður sinni og fleiri og fleiri góðir karakterar. Mér fannst líka vináttan sem myndaðist milli Élise og gamla veiðimannsins vera falleg.
Myndatakan var oft mjög flott. Eitt töff skot sem ég man eftir var þegar eldri bróðurinum (man ekki hvað hann heitir!) tekst í fyrsta sinn að keyra gókartinn. Lýsingin fannst mér eins og ég nefndi áður virkilega flott og hún setti stemninguna í myndinni.
Það sem var samt best við myndina var leikurinn. Það er vel af sér vikið að finna svona marga krakka sem leika svona vel! Stelpan sem lék Élise var virkilega góð í sínu hlutverki. Leikur hennar var mjög
trúverðugur og áreynslulaus. Hinir krakkarnir skiluðu líka sínu mjög vel. En þó langar mig sérstaklega að minnast á unga strákinn sem lék Benoit. Það er skrítið að tala um að svona ungur strákur sé góður leikari en hann var bara svo ótrúlega trúverðugur! Ég fann svo til með honum. Hann hafði svo stór augu sem virtust vera endalaus.
Mommy's at the hairdressers var frábær mynd í alla staði.
Two drifters
Það má segja að Two Drifters hafi verið jafnléleg og Mommy's at the hairdressers var góð. Til þess að vera alveg hreinskilin þá var þetta bara algjör hörmung. Hún fjallar um tvo homma sem eru rosalega ástfangnir og eiga ársafmæli. Þegar annar þeirra er að keyra heim eftir að þeir fögnuðu afmælinu keyrir hann útaf og deyr. Þetta gerðist allt á fyrstu tveimur mínútunum og alltof hratt! Maður náði ekki að tengja neitt við karakterana og þetta varð þar af leiðandi EKKERT áhrifaríkt. Þetta var líka alveg átakanlega illa leikið. Hún fjallar líka um konu sem langar rosalega mikið í barn og hættir með kærastanum sínum útaf því að hann er ekki tilbúinn eftir stutt samband. Þau leika líka bæði hörmulega! Svo af einhverjum ástæðum mætir konan í líkvöku hommans, stelur hringnum hans og byrjar að þykjast vera ólétt að barninu hans. Svo flytur hún inn til mömmu hommans, stelur fötunum hans og fær sér alveg eins klippingu.
Vá þetta var nálægt því að vera versta mynd sem ég hef séð! Eina ástæðan fyrir því að ég gekk ekki út var af því að þetta var Q&A og leikstjórinn var í salnum.
Hún gekk löturhægt sem var í fullkomlegu ósamræmi við byrjunaratriðið, það var engin ástæða fyrir gjörðum persónanna, ekki vottur af persónusköpun, vandræðalega lélegur leikur og bara einfaldlega ógeðslega (fyrirgefið orðbragðið) leiðinlegur og fáránlegur söguþráður!
Ég hef engan áhuga á að eyða fleiri orðum í þessa portúgölsku peningasóun.
Mjög góð færsla og einstaklega fín umfjöllun um Mommy's at the Hairdressers. 9 stig.
ReplyDelete