Wednesday, March 31, 2010

The Rebound



The Rebound fjallar um Sandy sem er hamingjusamlega gift heimavinnandi húsmóðir með tvö börn þangað til að hún sér vafasamt myndband af manninum sínum. Hún ákveður að rífa börnin upp og flytja með þau til borgarinnar (New York). Börnin eru frekar spes. Stelpan hefur mikinn áhuga á líffræði og þess konar og hefur gaman af því að hræða bróður sinn. Þau kippa sér ekki upp við margt og fíla lífið í borginni. Svo mikið að drengurinn vill láta kalla sig Carlos. Sandy finnur flotta íbúð og á neðri hæðinni er kaffihús þar sem Aram Finklestein vinnur. Honum hefur nýlega verið dömpað af franskri stelpu sem vildi bara vera með honum til þess að fá græna kortið. En hann er of góðhjartaður til þess að skilja við hana. Aram er þess vegna í algjöru rugli, sár og svekktur og veit ekki hvað hann á að gera við líf sitt. Sandy ræður hann í vinnu sem barnapía eftir að hafa lamið hann í klessu á sjálfsvarnarnámskeiði. (ég veit skrítið). Þrátt fyrir aldursmuninn neistar á milli þeirra. 

Ég hélt að þetta væri ósköp venjuleg Hollywood mynd sem væri fyrirsjáanleg, en þessar myndir mega eiga það að þrátt fyrir ófrumleika og væmna dellu eru þær vanalega vel uppbyggðar. The Rebound var það alls ekki! Hún byrjaði og allt gekk rosalega hratt. Augljóslega til þess að koma Sandy til borgarinnar. Og svo allt í einu var hún komin með sjúklega heitan strák sem barnfóstru. Og þá gat myndin byrjað. Þetta var mjög skrítið og illa gert. Svo kom reyndar ágætur partur þar sem þau voru rosa sæt og að kynnast og svona. Það var svosem alveg raunsætt. Og sætt. Hehe. Þessi partur var frekar langur þannig að ég var farin að velta fyrir mér hvenær þau ætluðu að koma inn flækjunni til þess að gera hamingjusama endinn, sem að er óþægileg tilfinning.

Leikurinn var alls ekki góður. Það var engin dýpt í neinum persónum bara staðreyndirnar sem maður vissi um hvern og einn. Leikurinn batnaði reyndar verulega eftir því sem leið á myndina en í byrjuninni var hann alveg hörmung. 

Það var ekkert fyndið í henni. Það var einn karakter sem ég býst við að hafi átt að vera svona comic relief en náði því aldrei og varð frekar pirrandi. Bæði Catherine Zeta og Justin Bartha voru einstaklega flöt og ófyndin. Þau náðu samt ágætri kemistríu sem er auðvitað grundvöllurinn í svona mynd. Reyndar voru krakkarnir soldið krúttlegir og áttu sín móment en það er sorglegt að tveir 10 ára krakkar séu það besta í mynd af þessu tagi.

Myndataka og klipping voru mjög stöðluð. Ekkert nýtt í gangi þar. 

Þessi mynd var í rauninni frekar undarleg. Það er ekki eitthvað sem ég er vön að segja um Hollywood myndir. Ég býst aldrei við miklu en maður gerir samt lágmarkskröfur um skemmtanagildi og að myndin sé gerð af kostgæfni.

Ég mæli alls ekki með The Rebound. Hún var ekki einu sinni þess virði að horfa á á laugardagseftirmiðdegi þreyttur eftir skemmtun föstudagskvöldsins. 

Kóngavegur



Jæja úff! Þá geri ég tilraun til þess að blogga um þessa íslensku mynd í leikstjórn Valdísar Óskarsdóttur sem ég sá í gærkvöldi.

Kóngavegur gerist í hjólhýsahverfi úti á landi á Íslandi. Þar býr hið undarlegasta fólk sem hefur lítið fyrir stafni og hafa flestir ekki mikið á milli handanna. Í byrjun myndarinnar koma 2 menn til Kóngavegs, annar er íslenskur og er kallaður Júníór, leikinn af Gísla Erni, og hinn er þýskur og heitir Rupert, leikinn af Daniel Bruhl. Júníor hefur komið sér í peningavandræði og vill frá hjálp frá föður sínum en hann kemst að því að margt hefur breyst á þessum 3 árum sem hann hefur verið fjarverandi. Pabbinn heitir Guðmundur, kallaður Seníor (þessi gælunöfn voru algjörlega ónauðsynleg að mínu mati og þjónuðu engum tilgangi), og er að leita að sínum innri manni. Hann er með Sallý sem er fyrrverandi Ungfrú Ísland og hefur ekki mikið vit í kollinum. Þau búa með mömmu Guðmundar sem hefur dauðan sel í eftirdragi. 
Í nágrenni við þau búa margir - tveir bræður sem gegna starfi gangbrautarvarða, ólétt óhamingjusöm kona sem er með alkóhólista og pönkarapar. 

Lífið á Kóngavegi er mjög áhugavert vægast sagt. Það fannst mér skemmtilegt. Þetta var svo óspennandi umhverfi og tilbreytingarlaust en fólkið er undarlegt og áhugavert þannig að þar myndast skemmtileg mótsögn. 

Persónurnar fannst mér margar hverjar mjög skemmtilegar og vel leiknar. Sallý var velheppnuð í túlkun Nönnu Kristínar. Heimsk fegurðardrottning sem vill þó vel. Hún var fyndin, afslöppuð og varð einhvern veginn djúp þrátt fyrir að vera vitlaus. Það finnst mér sjaldgæft í myndum enda erfitt að ná fram þeirri túlkun. Hún varð líka einstaklega sjálfhverf án þess að Nanna færi í einhvern öfgaleik í því. Ég veit ekki hvað mér fannst um karakter Sigga Sigurjóns í hreinskilni sagt. Náði engu sambandi við hann, sem var kannski meiningin þegar ég pæli í því. Hann átti að vera svo fjarrænn fjölskyldunni sinni og nágrönnum. Það náði aldrei neinn sambandi við hann og hann átti mjög ópersónuleg tengsl við alla. 
Daniel Bruhl vonast ég til að sjá meira af. Mér fannst hann fínn í þessari mynd. Alltaf soldið skrítnir svona karakterar sem að snappa upp úr þurru þegar maður veit enga forsögu. En ég hafði gaman af honum og fannst gaman að sjá þegar mjúka hliðin hans kom fram í samskiptum við þá óléttu. Hún var líka fín. Nína er ágæt leikkona. Björn Hlynur, sem lék manninn hennar, finnst mér afskaplega skemmtilegur leikari!  Karakterinn hans var ótrúlega leiðinlegur á skemmtilegan hátt og Björn lék hann mjög vel.

Það sem er líklega skemmtilegast við Kóngaveg er þessi gríðarlega karakterflóra sem ég hef rétt getað tiplað á í þessu bloggi. Persónusköpunin var oftast góð og leikurinn líka. En þetta magn af skemmtilegum karakterum jafnframt vandamálið. Það myndast svo margir söguþræðir og mörg vandamál að það gefst ekki tími til þess að vinna úr þeim eða gefa þeim allan þann tíma í myndinni sem hver og ein saga á skilið. Rétt eins og ég í þessu bloggi næst bara rétt svo að tipla á sögu hvers og eins er ekki farið djúpt í neina. Þannig að myndin verður samhengislaus og virðist eiginlega bara vera ókláruð! 
Það vantar svo mikið upp á sögurnar og sumu er bara slengt fram að því virðist án umhugsunar og ekkert unnið úr neinu. Eitt besta dæmið um það er Gertrud. Halló! What? Og hvað var pabbinn að vinna við? Það var ekkert útskýrt! Pönkurunum var algjörlega ofaukið. Það hefði átt að klippa þá bara alveg burt. Það par var bara fyrir og truflaði söguna. Mann langaði svo að vita meira um vandamálin sem voru til staðar en í staðinn var troðið inn enn fleiri sögum og veseni. Þannig að ég varð fyrir vonbrigðum á meðan á myndinni stóð en í því hef ég aldrei lent áður. Mér fannst hún vera spennandi í byrjun og kúl. Klippingin var hrá og virtist unnin í miklum flýti sem mér fannst vera heillandi á ákveðinn hátt. Hún var í góðu samræmi við umhverfi myndarinnar. Hjólhýsunum er líka einhvern veginn bara hent upp og allt umhverfið er hrátt sem er skemmtilegt. Þessi hugmynd um hjólhýsahverfi á Íslandi er áhugaverð og augljóslega hægt að gera mjög skemmtilega mynd um það. En það komu bara fram of margar góðar hugmyndir og erfitt að klippa út heilu sögurnar, ég skil það vel, en það bara bitnar á heildarsvip myndarinnar! Það hefði í raun verið hægt að gera tvær aðskildar en samt tengdar myndir. Svona eins og Börn og Foreldrar. 
Hvað var líka málið með litla bróðurinn sem kom allt í einu? Tilgangslaust! 

Samt rosalega mikil synd því að þetta hefði getað verið svo skemmtileg mynd. Eins og ég hef áður nefnt með umhverfið og klippinguna. Svo komu oft mjög áhugaverð myndatökumóment þar sem komu skemmtileg skot og fókusbreytingar. Það fannst mér flott. Tónlistin var líka æðisleg! Virkilega skemmtileg og passaði vel inn í aðstæðurnar. 

Ég læt þetta gott heita um Kóngaveg. Í stuttu máli fannst mér hún hafa mikla möguleika á að verða skemmtileg en sögurnar drukknuðu hver í annarri.

Sunday, March 28, 2010

Signs




Um daginn varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá yndislega litla stuttmynd. Ég var í vondu skapi en þessi mynd gladdi mig svo mikið. Alveg dásamleg.

Hún fjallar um óhamingjusaman ungan mann sem vinnur á skrifstofu í borginni. Allt er rosalega grátt í kringum hann og hann er einmana. Eeeeeen svo breytist það! Eða hvað? Hmm...

Þessi mynd er svona ekta feel good. Hún er rosalega vel gerð, myndatakan er öll mjög staðföst eða svona regluleg einhvern veginn. Hehe ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því. Hún er einhvern veginn soldið skrifstofuleg. Skemmtilegt. Hún er vel leikin, reyndar eru þetta kannski ekki mjög krefjandi hlutverk en það þurfa að vera skýr svipbrigði þar sem það er varla neitt talað í henni. 

Ég tók eftir einni mjög skemmtilegri vísun í Fight Club. Þá fór ég að hugsa um að gaurinn í myndinni væri orðinn eins og svefngengill. Allt var komið í leiðinlegan vana og erfitt var að rífa sig upp úr honum. 

Mér finnst hún líka vera mjög fyndin. Ég skellti alveg upp úr á nokkrum stöðum. Skemmtilegur og einfaldur húmor.

Tónlistin fannst mér líka snilld. Rosalega flott hvernig hún breyttist með stemningu atriðanna. Minnti mig á þögla mynd. 

Jæja það er nú kannski ekki mikið meira hægt að segja um tíu mínútna mynd en ég vildi bara deila henni með fleirum þar sem að ég var svona hrifin!

Hérna er linkur:


Nanna Elísa bloggari!

The good heart

Ég steingleymdi að blogga um þessa mynd sem ég sá fyrir löngu þannig að hér kemur eitt lauflétt :)

The Good Heart fjallar um tvo mjög ólíka menn sem kynnast af algjörri tilviljun á sjúkrahúsi. Lucas er heimilislaus en með hreint og gott hjarta. Hann gerir tilraun til sjálfsmorðs en mistekst og endar því á sjúkrahúsinu. Starfsfólkinu líkar afskaplega vel við hann vegna þess hve hjartagóður hann er og þakklátur. Hann langar til þess að gefa þeim eitthvað tilbaka svo að hann gerist líffæragjafi. Jacques er mun eldri en Lucas. Hann hefur farið illa með líkama sinn í mörg ár með mikilli drykkju, reykingum og bara almennri óhamingju. Hann á enga vini og hjartað í honum er alveg við það að gefa sig. Hann tekur Lucas upp á arma sína af einskærri sjálfselsku en hann vill að einhver erfi barinn sem hann hefur eytt lífi sínu í þegar hann deyr. Lucas passar ekki vel inn í hugmyndir Jacques um hinn fullkomna kráareiganda og þeirra skoðanir stangast á.
Ég var hrifin af þessari mynd! Mér fannst persónusköpunin góð og karakterarnir voru djúpir. Jacques var þessi bitri, óhamingjusami maður sem hafði eytt lífi sínu í að hleypa fólki ekki að sér. Mér fannst samt alltaf einhvern veginn eins og hann hefði ekki beint lent í neinu alvarlegu heldur kannski einu sinni verið svikinn og ákveðið að loka bara á mannleg samskipti eftir það. Svakalegt þegar hann rekur mennina, fastakúnnana sem líklega hafa talið hann vin sinn, út af barnum bara vegna þess að þeir vildu halda upp á afmælið hans. Það sýndi virkilega hvað honum var mikil alvara með að halda fólki frá sér.


Lucas var algjör andstæða við Jacques. Hann virtist hleypa fólki strax inn og gerði allt fyrir alla. Hann treysti kannski of mikið. Mig langaði samt svo mikið að vita af hverju hann var heimilislaus og hvert hans bakland var. Dagur Kári sagði að honum fyndist oft eytt of miklum tíma í að útskýra allt og ég er sammála því uppað vissu marki. Það hefði verið óþarfi að gera það við Jacques en aðstæður Lucasar eru svo óvanalegar að mér finnst eiginlega nauðsynlegt að vita meira. Það er gaman fyrir áhorfandann að nota ímyndunaraflið en ég átti erfitt með að gera það í tilfelli Lucasar þar sem að ég gat engan veginn ímyndað mér hvernig í ósköpunum hann komst í þessar hræðilegu aðstæður. Eða mig langar allavega að vita raunverulegu ástæðuna!



Samband þeirra fannst mér á góðum grunni byggt og gaman að fylgjast með því þróast. Eins og margir sögðu í tímanum á miðvikudaginn þegar Dagur kom var April ótrúlega pirrandi strax! Vá! Ég skildi ekki alveg hvort að það var meining Dags en mér fannst á honum að Jacques ætti að vera þessi sem færi í taugarnar á áhorfendum. Ég var ekki sammála sumum í tímanum sem sögðu að sér hefði fundist vanta meiri ást í "ástarsöguna" á milli Lucasar og April. Mér fannst hún mjög flott eins og hún var. Lucas var orðinn svo brenglaður í hugsun eftir að hafa lifað svona ömurlegu lífi að hann vissi ábyggilega ekki hvernig ætti að haga sér í ástarsambandi. Gifting þeirra var augljóslega gerð af hagsmunaástæðum frekar en af ást en samt passaði April ágætlega inn í heim þeirra Jacques og þau Lucas pössuðu ágætlega saman. Hún hætti því snemma að fara í taugarnar á mér en ég er samt ánægð með að þeirra saga skyldi vera klippt út úr myndinni vegna þess að fókusinn átti augljóslega að vera á sambandi Lucasar og Jacques.

Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki séð fyrir plottið! Bara alls ekki. Ég hugsa að það hafi verið vegna þess að ég var of upptekin við að fylgjast bara með myndinni. Mér fannst einhvern veginn myndin eiga að byggjast meira á mannlegum samskiptum heldur en einhverju svaka plotti. Sjúklega flott plott að mínu mati! Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu og mér brá svakalega mikið þegar bíllinn keyrði Lucas niður.

Mér fannst gæsin líka góð en mér fannst hún vera rosalega mikilvæg í sögunni. Hún sýndi hvernig Jacques varð mýkri eftir því sem hann varð veikari og að ástæðan fyrir því að Lucas dó var að Jacques bjargaði öndinni sem að er kaldhæðið. Það má kannski líta á það þannig að með því að bjarga lífi umkomulauss dýrs bjargaði Jacques eigin lífi.

Umhverfið í myndinni var allt mjög grátt og óspennandi sem að mér fannst flott. Jacques passaði fullkomlega inn í það. Það einhvern veginn lýsti sálarástandi hans en einnig Lucasar því að þó að hann hafi verið hjartagóður var hann alls ekki hamingjusamur. Honum fannst hann ekki hafa neitt til að lifa fyrir og maður skildi það auðvitað og ekki síst vegna þess að allt var svo grámóskulegt og ótrúlega óspennandi í kringum hann. Þess vegna tók áhorfandinn sérstaklega vel eftir því hvað Jacques var ánægður í lokin þegar hann hafði fengið "góða hjartað hans Lucasar" og gat skipt um umhverfi og verið meðal eina fólksins sem honum þótti vænt um og þótti vænt um hann. Ég er ánægð með að Dagur skyldi ekki enda myndina á dauða hans því að þá hefði mér fundist eins og Lucas hefði algjörlega dáið til einskis. Það hefði bara verið toppurinn á vonleysinu og algjörlega óþarfi því að það er frekar augljóst að það er lífsins gangur að allir deyja að lokum.

Ég minnist þess ekki að hafa tekið eftir einhverjum myndatökuafrekum en það er líklega vegna þess að ég var alveg sokkin í söguna og karakterana. Hey já ég verð að minnast á að mér fannst myndin mjög fyndin! Brokkolí pælingin er náttúrulega svakaleg. Aldrei hefur mér dottið þetta í hug.

Leikurinn var mjög góður. Fastakúnnahópurinn á kránni fannst mér einstaklega fyndinn og skemmtilegur. Það virkaði augljóslega mjög vel að hafa senurnar þeirra unnar í spuna því að þær voru fyndnar og runnu vel. Bæði Paul Dano og Brian Cox fannst mér frábærir!

Þetta var bara afbragðsmynd. Skemmtileg tilbreyting frá öllu ameríska ruslinu sem maður sér.