Friday, December 4, 2009

Yojimbo

Kvikmyndin Yojimbo frá árinu 1961 fjallar í extra stuttu máli um Sanjuro sem er samúrai, lífvörður, án húsbónda (master) og hefur engan til að vernda. Hann er að ferðast og kemur að litlu þorpi sem er stjórnað af tveimur mönnum, Sebei og Ushitora. Sanjuro verður lífvörður fyrir báða.

Yojimbo er afburða flott og vel gerð mynd. Ég þarfnast reyndar þjálfunar í að horfa á svona myndir vegna þess að mér fannst allt ganga frekar hægt og skrítið að hlusta á japönskuna. Ég gerði mér auðvitað enga grein fyrir því hvað þau voru að segja vegna þess að ég get ekki einu sinni raðað orðunum í frumlag, umsögn og andlag. Ég veit ekki einu sinni hvort að setningafræðin er þannig hjá japönum! Ég held líka að ég hafi oft hlegið þegar meiningin með myndinni var ekki að vera fyndin.

Ég fékk oft svona vestra tilfinningu. Bærinn sem er ekki nógu stór fyrir báða menn og gang-slagurinn þar sem hóparnir voru á móti hvor öðrum í bænum. Akira Kurosawa einblínir samt ekki á að hafa hana fulla af bardögum heldur leggur hann áherslu á að byggja á góðum grunni. Byrjunarskotið aftan á samúraiann er mjög flott og skemmtilegt að sjá ekki strax framan í hann heldur bara að sjá hann einan í eyðimörkinni. Toshiro Mifune er flottur í hlutverki Sanjuro og hann er góður karakter. Hann lætur sér annt um ókunnuga og það er eitthvað sem við mættum öll gera meira af! Maður gerir sér samt ekki alveg grein fyrir því hvort að hann hafi einfaldlega svona mikla ástríðu fyrir að bjarga sveitalubbum í litlum þorpum eða hvort honum leiðist bara svona mikið. Í byrjun hefur hann eins og áður sagði ekkert að gera og veit ekki hvaða stefnu hann á að taka, fyrr en hann hendir upp prikinu.

Já ég hugsa að myndatakan sé það flottasta í myndinni. Það er svo margt sagt með henni án þess að nota orð og ég sá mörg skot sem hefðu getað verði málverk eða ljósmyndir. Ég hugsa að það hefði ekki breytt miklu fyrir mig ef að þetta hefði verið mynd án hljóðs. Ég lét kannski japönskuna fara óþarflega mikið í taugarnar á mér en það kemur allt með kalda vatninu! (Kalda vatnið verandi það að horfa á fleiri japanskar myndir.)

Jæja ég hef ekki meiri tíma í þetta blogg því miður en þó svo að Yojimbo sé ekki uppáhalds myndin mín þá skildi ég vel af hverju hún er svona mikils virt í kvikmyndaheiminum.

1 comment:

  1. Kurosawa var einmitt undir miklum áhrifum frá bandarískum kvikmyndum, m.a. vestrum, þ.a. það þarf ekkert að koma á óvart þótt myndin hafi minnt á vestra. Síðan höfðu myndir Kurosawa, m.a. Yojimbo og Seven Samurai, mikil áhrif á vestrana, þannig að áhrifin fara fram og tilbaka.

    5 stig.

    ReplyDelete