Friday, December 4, 2009

Romy and Michelle's High School Reunion

Þessa mynd sá ég fyrst þegar hún kom út fyrir löngu og mundi fátt nema að mér hafði fundist hún ótrúlega skemmtileg! Ég sá hana aftur núna um daginn þegar ég lá heima veik með sýkingu í hálsinum og hafði gaman af en af allt öðrum ástæðum en áður.

            Romy and Michelle eru bestu vinkonur og hafa verið frá því í High School. Þær eru algjörar samlokur og búa ennþá saman 10 árum eftir útskrift. Þegar Romy hittir gamla skólasystur þeirra, sem þær minnast sem algjörs fríks, fréttir hún af 10 ára reunioni skólans og vinkonurnar taka smá trip down memory lane. Þá kemur í ljós að í menntaskóla áttu þær fáa vini, voru taldar skrítnar og tilheyrðu engum sérstökum hópi. Þær ákváðu að eftir skólann myndu þær sko meika það í LA en það lítur ekki út fyrir það þar sem að þær eru báðar á lausu, Michelle er atvinnulaus og Romy hefur skítavinnu. Þær þrá ekkert heitar en að fara á endurfundina og láta alla krakkana sem litu niður á þær í high school virða þær vegna þess hvað þær eru núna successful í lífinu. Það verður erfitt þar sem þær eru það alls ekki.

            Þessi mynd er engin snilld það er alveg augljóst en hún er held ég mjög misskilin. Það sem ég held að fólk taki ekki eftir, og þá sérstaklega ameríkanar, er að hún er skemmtileg ádeila á alla umræðuna um þennan alræmda high school. Ég upplifði hana miklu meira eins og satíru (held reyndar að þetta sé ekki íslenskt  orð þó svo að það sé fullkomlega skiljanlegt) frekar en eitthvað annað.  Mér fannst eins og hver kjánahrollur sem ég fékk ætti að vera kjánahrollur á Ameríku og þetta geðveika high school æði sem tröllríður amerískri kvikmyndagerð. Mér fannst aulahúmorinn æðislegur og ég skammast mín ekkert fyrir það að segjast hafa skellt upp úr oftar en einu sinni og oftar en þrisvar! Endirinn er líka alltof mikil klisja til þess að hægt sé að taka þessa kvikmynd alvarlega og innsiglaði tilfinninguna sem ég hafði alla myndina, þ.e. að hún væri léleg af mjög góðri ástæðu. Og ég hef aldrei séð mynd sem er léleg en það pirrar mig ekki heldur gleður mig! Virkilega sérstakt og þess vegna fann ég mig knúna til þess að spreða nokkrum orðum á hana.             

Yojimbo

Kvikmyndin Yojimbo frá árinu 1961 fjallar í extra stuttu máli um Sanjuro sem er samúrai, lífvörður, án húsbónda (master) og hefur engan til að vernda. Hann er að ferðast og kemur að litlu þorpi sem er stjórnað af tveimur mönnum, Sebei og Ushitora. Sanjuro verður lífvörður fyrir báða.

Yojimbo er afburða flott og vel gerð mynd. Ég þarfnast reyndar þjálfunar í að horfa á svona myndir vegna þess að mér fannst allt ganga frekar hægt og skrítið að hlusta á japönskuna. Ég gerði mér auðvitað enga grein fyrir því hvað þau voru að segja vegna þess að ég get ekki einu sinni raðað orðunum í frumlag, umsögn og andlag. Ég veit ekki einu sinni hvort að setningafræðin er þannig hjá japönum! Ég held líka að ég hafi oft hlegið þegar meiningin með myndinni var ekki að vera fyndin.

Ég fékk oft svona vestra tilfinningu. Bærinn sem er ekki nógu stór fyrir báða menn og gang-slagurinn þar sem hóparnir voru á móti hvor öðrum í bænum. Akira Kurosawa einblínir samt ekki á að hafa hana fulla af bardögum heldur leggur hann áherslu á að byggja á góðum grunni. Byrjunarskotið aftan á samúraiann er mjög flott og skemmtilegt að sjá ekki strax framan í hann heldur bara að sjá hann einan í eyðimörkinni. Toshiro Mifune er flottur í hlutverki Sanjuro og hann er góður karakter. Hann lætur sér annt um ókunnuga og það er eitthvað sem við mættum öll gera meira af! Maður gerir sér samt ekki alveg grein fyrir því hvort að hann hafi einfaldlega svona mikla ástríðu fyrir að bjarga sveitalubbum í litlum þorpum eða hvort honum leiðist bara svona mikið. Í byrjun hefur hann eins og áður sagði ekkert að gera og veit ekki hvaða stefnu hann á að taka, fyrr en hann hendir upp prikinu.

Já ég hugsa að myndatakan sé það flottasta í myndinni. Það er svo margt sagt með henni án þess að nota orð og ég sá mörg skot sem hefðu getað verði málverk eða ljósmyndir. Ég hugsa að það hefði ekki breytt miklu fyrir mig ef að þetta hefði verið mynd án hljóðs. Ég lét kannski japönskuna fara óþarflega mikið í taugarnar á mér en það kemur allt með kalda vatninu! (Kalda vatnið verandi það að horfa á fleiri japanskar myndir.)

Jæja ég hef ekki meiri tíma í þetta blogg því miður en þó svo að Yojimbo sé ekki uppáhalds myndin mín þá skildi ég vel af hverju hún er svona mikils virt í kvikmyndaheiminum.

Thursday, December 3, 2009

Vicky Cristina Barcelona




Vicky Cristina Barcelona fjallar um Vicky og Cristinu sem fara til Barcelona, eins og titillinn gefur í skyn, yfir eitt sumar. Vicky er trúlofuð mjög stabílum og traustum manni (heldur dull samt) og ætlar að gifta sig um haustið.

Hana langar til Barcelona vegna þess að hún er við það að fá meistaragráðu í katalónskum fræðum og hefur áhuga á að skoða katalónskar bækur og skjöl. Cristina er hins vegar þessi rómantíska, hvatvísa týpa sem er stanslaust að leita að þessari einu sönnu ást og veit ekkert hvað hana langar að gera við líf sitt. Í Barcelona búa þær hjá frænda Vicky og konunni hans. Í byrjun er sagt frá því að þær séu sammála um allt nema ástina sem virðist í fyrstu vera stór gloppa í handritinu og fór í taugarnar á mér framan af.

En geymum það. Vicky og Cristina skoða Barcelona sem er ótrúlega heillandi borg og gaman að sjá þessa mynd núna eftir að hafa lært aðeins um borgina.


Ég hef nýlega lært um Gaudí, kirkjuna hans og fallega arkítektúrinn sem einkennir víst Barcelona. Vá hvað mig langar núna að fara þangað! Það er eitt af mörgu sem var sjarmerandi við myndina. Það er gríðarlega fallega borgin sem hún er tekin í, rólega spænska stemningin og auðvitað spænskan sem heyrðist af og til. En aftur að Vicky og Cristinu. Kvöld eitt fara þær á listasýningu og þar tekur Cristina eftir heillandi manni í rauðri skyrtu. Áhugi hennar er vakinn og glæðist ennfrekar þegar hún kemst að því að hann er listamaður og er nýskilinn við konuna sína eftir gríðarlega ástríðufullt hjónaband. Eftir listasýninguna fara þær Vicky út að borða og hver er þar nema Juan Antonio, listamaðurinn í rauðu skyrtunni.

Hann vill ólmur bjóða vinkonunum til Obtaviu, spænsk smábæjar, og á meðan Cristina er meira en lítið til í að koma með, vill Vicky ekki heyra á það minnst! En á endanum þiggja þær boðið og þar með hefst ævintýrið.

Vicky Cristina Barcelona er afskaplega sjarmerandi mynd. Full af ástríðu og rómantík. Hún flæðir áreynslulaust og handritið er mjög vel skrifað og skemmtilegt. Allar persónurnar virka raunverulegar og eru einstakar á sinn hátt. Sérstaklega fannst mér skemmtilegur hefðbundni bandaríski eiginmaðurinn sem endaði með miklu fallegri konu og býður upp á örugga framtíð en hvorki hvatvísa né ástríðufulla. Uppáhaldið mitt var samt sögumaðurinn! Það gaf myndinni skemmtilegan vinkil að hafa dimmraddaðan karlmann rekja sögu stúlknanna tveggja.

Hann var reyndar ekki beint karakter heldur var augljóslega reynt að gefa honum eins lítinn persónuleika og hægt var, en það var það sem gerði hann svona skemmtilegan! Það sem var svo skemmtilegt við söguna er að þetta sumar sem öll myndin fjallar um breytti einhvern veginn svo miklu hjá þessum stelpum en samt í rauninni engu. Mörgum gæti fundist þessi mynd algjörlega tilgangslaus en mér finnst þetta virka.

Svona er þetta í lífinu. Það breytist ekki allt með einu sumri á Spáni, flestir eru of hræddir fyrir alvöru áhættur og kjósa frekar að vera öruggir. Ég upplifði þetta sem svona örmynd, áhorfandinn fékk að líta við í lífi Vicky og Cristina á tímabili sem þær munu hugsa um alla ævi.

(Eða þú veist ef þær væru til í alvöru!)

Myndin hefur ekkert yfirbragð þessarar amerísku klisju rómantíkur sem fer svo ótrúlega mikið í taugarnar á mér! (Hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem ég mun minnast á þetta!!) . Hún er frekar full af spænskri ástríðu sem er kannski klisja í sjálfu sér, bara ekki klisja sem fær mann til að langa að æla.

Eins og ég minntist á áður eiga vinkonurnar Vicky og Cristina að vera sammála um flest en mér fannst þær vera ósammála eiginlega alla myndina og þá helst framan af. Ég upplifði þær alveg sem svart og hvítt, bæði í útliti og persónuleika.

Þó tóku þær að líkjast hvor annarri eftir því sem leið á myndina, aðallega fór Vicky að líkjast Cristinu, og ég geri mér ekki grein fyrir því hvort að Vicky hafi alltaf verið þannig og að Barcelona hafi einfaldlega dregið þetta Cristinu-element fram í henni eða hvort að Barcelona hafi breytt Vicky. Ég upplifði Barcelona ferð þeirra frekar eins og breytingu fyrir Vicky en þá skil ég ekki þessa fullyrðingu í upphafi myndar um að þær væru sammála í einu og öllu fyrir utan ástina.

Þetta ruglaði mig alveg en ef til vill er ég að misskilja eða láta smáatriði fara of mikið í taugarnar á mér.

Myndatakan var stundum rosalega venjuleg en stundum óvenjuleg.

Mér brá stundum þegar ég bjóst við að það yrði klippt á karakter sem var að tala, eins og er vanalega gert, en í staðinn hélst skotið lengur. Æ erfitt að útskýra, þeir taka vonandi eftir þessu sem munu sjá myndina, en það gaf henni stundum svona viðtalslegt yfirbragð sem hentaði mjög vel. Þetta var eflaust allt úthugsað og ábyggilega mjög Woody Allen!

Ég var að flestu leyti mjög sátt með myndina. Leikurinn var skemmtilegur hjá flestum þó svo að mér finnist Penelope Cruz ofmetin. Ég meina hún stóð sig vel en þetta var ekkert til þess að missa sig yfir. Javier Bardem fannst mér skemmtilegur og eins og ég minntist á áður, bandaríski eiginmaðurinn.

Jæja nú er komið gott og að lokum langar mig bara að segja að Woody gerði virkilega góða mynd, hún breytir ekkert lífinu eða hugsanaganginum en þetta var prýðis afþreying. Plús að hann valdi sjúklega heitar konur til að leika í henni!