Sunday, March 28, 2010

The good heart

Ég steingleymdi að blogga um þessa mynd sem ég sá fyrir löngu þannig að hér kemur eitt lauflétt :)

The Good Heart fjallar um tvo mjög ólíka menn sem kynnast af algjörri tilviljun á sjúkrahúsi. Lucas er heimilislaus en með hreint og gott hjarta. Hann gerir tilraun til sjálfsmorðs en mistekst og endar því á sjúkrahúsinu. Starfsfólkinu líkar afskaplega vel við hann vegna þess hve hjartagóður hann er og þakklátur. Hann langar til þess að gefa þeim eitthvað tilbaka svo að hann gerist líffæragjafi. Jacques er mun eldri en Lucas. Hann hefur farið illa með líkama sinn í mörg ár með mikilli drykkju, reykingum og bara almennri óhamingju. Hann á enga vini og hjartað í honum er alveg við það að gefa sig. Hann tekur Lucas upp á arma sína af einskærri sjálfselsku en hann vill að einhver erfi barinn sem hann hefur eytt lífi sínu í þegar hann deyr. Lucas passar ekki vel inn í hugmyndir Jacques um hinn fullkomna kráareiganda og þeirra skoðanir stangast á.
Ég var hrifin af þessari mynd! Mér fannst persónusköpunin góð og karakterarnir voru djúpir. Jacques var þessi bitri, óhamingjusami maður sem hafði eytt lífi sínu í að hleypa fólki ekki að sér. Mér fannst samt alltaf einhvern veginn eins og hann hefði ekki beint lent í neinu alvarlegu heldur kannski einu sinni verið svikinn og ákveðið að loka bara á mannleg samskipti eftir það. Svakalegt þegar hann rekur mennina, fastakúnnana sem líklega hafa talið hann vin sinn, út af barnum bara vegna þess að þeir vildu halda upp á afmælið hans. Það sýndi virkilega hvað honum var mikil alvara með að halda fólki frá sér.


Lucas var algjör andstæða við Jacques. Hann virtist hleypa fólki strax inn og gerði allt fyrir alla. Hann treysti kannski of mikið. Mig langaði samt svo mikið að vita af hverju hann var heimilislaus og hvert hans bakland var. Dagur Kári sagði að honum fyndist oft eytt of miklum tíma í að útskýra allt og ég er sammála því uppað vissu marki. Það hefði verið óþarfi að gera það við Jacques en aðstæður Lucasar eru svo óvanalegar að mér finnst eiginlega nauðsynlegt að vita meira. Það er gaman fyrir áhorfandann að nota ímyndunaraflið en ég átti erfitt með að gera það í tilfelli Lucasar þar sem að ég gat engan veginn ímyndað mér hvernig í ósköpunum hann komst í þessar hræðilegu aðstæður. Eða mig langar allavega að vita raunverulegu ástæðuna!



Samband þeirra fannst mér á góðum grunni byggt og gaman að fylgjast með því þróast. Eins og margir sögðu í tímanum á miðvikudaginn þegar Dagur kom var April ótrúlega pirrandi strax! Vá! Ég skildi ekki alveg hvort að það var meining Dags en mér fannst á honum að Jacques ætti að vera þessi sem færi í taugarnar á áhorfendum. Ég var ekki sammála sumum í tímanum sem sögðu að sér hefði fundist vanta meiri ást í "ástarsöguna" á milli Lucasar og April. Mér fannst hún mjög flott eins og hún var. Lucas var orðinn svo brenglaður í hugsun eftir að hafa lifað svona ömurlegu lífi að hann vissi ábyggilega ekki hvernig ætti að haga sér í ástarsambandi. Gifting þeirra var augljóslega gerð af hagsmunaástæðum frekar en af ást en samt passaði April ágætlega inn í heim þeirra Jacques og þau Lucas pössuðu ágætlega saman. Hún hætti því snemma að fara í taugarnar á mér en ég er samt ánægð með að þeirra saga skyldi vera klippt út úr myndinni vegna þess að fókusinn átti augljóslega að vera á sambandi Lucasar og Jacques.

Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki séð fyrir plottið! Bara alls ekki. Ég hugsa að það hafi verið vegna þess að ég var of upptekin við að fylgjast bara með myndinni. Mér fannst einhvern veginn myndin eiga að byggjast meira á mannlegum samskiptum heldur en einhverju svaka plotti. Sjúklega flott plott að mínu mati! Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu og mér brá svakalega mikið þegar bíllinn keyrði Lucas niður.

Mér fannst gæsin líka góð en mér fannst hún vera rosalega mikilvæg í sögunni. Hún sýndi hvernig Jacques varð mýkri eftir því sem hann varð veikari og að ástæðan fyrir því að Lucas dó var að Jacques bjargaði öndinni sem að er kaldhæðið. Það má kannski líta á það þannig að með því að bjarga lífi umkomulauss dýrs bjargaði Jacques eigin lífi.

Umhverfið í myndinni var allt mjög grátt og óspennandi sem að mér fannst flott. Jacques passaði fullkomlega inn í það. Það einhvern veginn lýsti sálarástandi hans en einnig Lucasar því að þó að hann hafi verið hjartagóður var hann alls ekki hamingjusamur. Honum fannst hann ekki hafa neitt til að lifa fyrir og maður skildi það auðvitað og ekki síst vegna þess að allt var svo grámóskulegt og ótrúlega óspennandi í kringum hann. Þess vegna tók áhorfandinn sérstaklega vel eftir því hvað Jacques var ánægður í lokin þegar hann hafði fengið "góða hjartað hans Lucasar" og gat skipt um umhverfi og verið meðal eina fólksins sem honum þótti vænt um og þótti vænt um hann. Ég er ánægð með að Dagur skyldi ekki enda myndina á dauða hans því að þá hefði mér fundist eins og Lucas hefði algjörlega dáið til einskis. Það hefði bara verið toppurinn á vonleysinu og algjörlega óþarfi því að það er frekar augljóst að það er lífsins gangur að allir deyja að lokum.

Ég minnist þess ekki að hafa tekið eftir einhverjum myndatökuafrekum en það er líklega vegna þess að ég var alveg sokkin í söguna og karakterana. Hey já ég verð að minnast á að mér fannst myndin mjög fyndin! Brokkolí pælingin er náttúrulega svakaleg. Aldrei hefur mér dottið þetta í hug.

Leikurinn var mjög góður. Fastakúnnahópurinn á kránni fannst mér einstaklega fyndinn og skemmtilegur. Það virkaði augljóslega mjög vel að hafa senurnar þeirra unnar í spuna því að þær voru fyndnar og runnu vel. Bæði Paul Dano og Brian Cox fannst mér frábærir!

Þetta var bara afbragðsmynd. Skemmtileg tilbreyting frá öllu ameríska ruslinu sem maður sér.



1 comment:

  1. Ég er sammála þér með Lucas og April. Lucas lætur fólk ganga yfir sig, og April notar hann einfaldlega á sama hátt og Jacques notar hann.

    Ég held það hefði ekki virkað eins sterkt að gefa Lucasi forsögu. Eitt meginatriðið við hann var að hann var autt blað. Eins og Dagur Kári talaði um, þá tekur Jacques hann upp á arma sína vegna þess að hann sér hann sem leirklump sem hann getur mótað að eigin vild. Ef hann hefði haft fortíð hefði þetta ekki virkað eins.

    Flott færsla. Mér finnst samt óþarfi að gefa upp endann á myndinni. Vissulega hafa næstum örugglega allir sem lesa færsluna séð myndina, en það er betra að venja sig á að hafa ekki spoilera. 8 stig.

    ReplyDelete