Sunday, February 28, 2010

C.R.A.Z.Y


C.R.A.Z.Y er frönsk-kanadísk mynd sem gerist í Kanada á árunum 1960-80, en er frá árinu 2005. Hún fjallar um fjölskyldu sem samanstendur af trúuðum foreldrum og 5 bræðrum sem heita Christian, Raymond, Antoine, Zachary og Yves. (CRAZY). Þeim kemur mjög illa saman vegna þess að þeir eru allir svo ólíkir. 

Zachary er aðalpersóna myndarinnar en hann uppgötvar að hann er hommi en það er pabbi hans alls ekki sáttur við. Þetta ollir því að Zachary afneitar samkynhneigð sinni og reynir eins og hann getur að verða "eðlilegur" en pabbanum finnst þetta vera afbrigðilegt og eiginlega einhver sjúkdómur. Mamma bræðrannar er yndisleg. Hún vill þeim svo vel og elskar þá út af lífinu. Hún er víðsýnni en pabbinn og ekki eins ströng. Sambandið milli Zachary og mömmu hans er rosalega fallegt og mikilvægt í myndinni. Hann virtist vera svona í hálfgerðu uppáhaldi hjá mömmu sinni. Líklega vegna þess að hann átti að hafa hæfileika til þess að láta fólki líða betur með því að hugsa um það. 

C.R.A.Z.Y er æðisleg mynd! Ég er augljóslega að fíla fransk-kanadíska kvikmyndagerð!! Sagan er góð. Það gerist svo margt í henni og manni langar ekki að hún klárist. En þó er það aðallega persónusköpunin sem gerir myndina svo frábæra. Hver karakter er svo djúpur og með sín karaktereinkenni sem skína í gegn. Sem gerði það að verkum að þetta var trúverðugt. 
Maður trúði því að þetta fólk hefði verið til og lifað þessu lífi. Hún er líka vel leikin og virkilega áhrifarík. Manni þótti vænt um persónurnar og gat, kannski ekki samsamað sig þeim, en skilið hvernig þeim leið og farið inn í þeirra tilfinningaástand. Það voru nokkur mjög skemmtileg atriði þar sem Zac er að dagdreyma og þeim var yndislega vel blandað inn í. Sambönd milli persónanna eru áhugaverð og vel uppbyggð. Reyndar vanalega mjög flókin en sett fram á mjög skýran hátt. Zac er líka sögumaður sem gefur myndinni svona hálfgert ævisöguyfirbragð sem er heillandi. 

Allir búningar og leikmynd eru flott og augljóslega var hugsað fyrir öllum smáatriðum! 
Það tekst að ná upp fullkomnu andrúmslofti fyrir þetta tímabil og það var gaman að sjá hvernig Zac breyttist eftir því sem hann eltist í samræmi við tískuna. 
Myndatakan var líka skemmtileg. Pældi reyndar ekkert svo mikið í henni vegna þess að sagan greip mann svo fast! En það voru flott skot og vel staðið að henni. Tónlistin sem er notuð (mjög mikið af tónlist í þessari mynd!) var frábær og skemmtilega og hárrétt valin fyrir hvert atriði.  

Ég hafði séð þessa mynd áður en sá hana aftur núna í síðustu viku og ég trúi ekki að ég hafi gleymt henni þegar ég var að gera topplistann minn! (Sem er eiginlega núna bara algjört rugl!) Hún er núna ein af uppáhaldsmyndunum mínum! Mæli eindregið með því að sjá hana.

3 comments:

  1. GUÐ! Ég tók eftir því að ég skrifaði "manni langar" og ég skammast mín gífurlega mikið fyrir það og biðst afsökunar á þessari málvillu!

    ReplyDelete
  2. Nanna þú veist að þú getur alltaf edit-að færslurnar þínar, lagfært villur og postað færslunni aftur. Gerist ekkert nema að færslan er leiðrétt! (:

    ReplyDelete
  3. Ágæt færsla þrátt fyrir málvillurnar. 6 stig.

    ReplyDelete