Jæja úff! Þá geri ég tilraun til þess að blogga um þessa íslensku mynd í leikstjórn Valdísar Óskarsdóttur sem ég sá í gærkvöldi.
Kóngavegur gerist í hjólhýsahverfi úti á landi á Íslandi. Þar býr hið undarlegasta fólk sem hefur lítið fyrir stafni og hafa flestir ekki mikið á milli handanna. Í byrjun myndarinnar koma 2 menn til Kóngavegs, annar er íslenskur og er kallaður Júníór, leikinn af Gísla Erni, og hinn er þýskur og heitir Rupert, leikinn af Daniel Bruhl. Júníor hefur komið sér í peningavandræði og vill frá hjálp frá föður sínum en hann kemst að því að margt hefur breyst á þessum 3 árum sem hann hefur verið fjarverandi. Pabbinn heitir Guðmundur, kallaður Seníor (þessi gælunöfn voru algjörlega ónauðsynleg að mínu mati og þjónuðu engum tilgangi), og er að leita að sínum innri manni. Hann er með Sallý sem er fyrrverandi Ungfrú Ísland og hefur ekki mikið vit í kollinum. Þau búa með mömmu Guðmundar sem hefur dauðan sel í eftirdragi.
Í nágrenni við þau búa margir - tveir bræður sem gegna starfi gangbrautarvarða, ólétt óhamingjusöm kona sem er með alkóhólista og pönkarapar.
Lífið á Kóngavegi er mjög áhugavert vægast sagt. Það fannst mér skemmtilegt. Þetta var svo óspennandi umhverfi og tilbreytingarlaust en fólkið er undarlegt og áhugavert þannig að þar myndast skemmtileg mótsögn.
Persónurnar fannst mér margar hverjar mjög skemmtilegar og vel leiknar. Sallý var velheppnuð í túlkun Nönnu Kristínar. Heimsk fegurðardrottning sem vill þó vel. Hún var fyndin, afslöppuð og varð einhvern veginn djúp þrátt fyrir að vera vitlaus. Það finnst mér sjaldgæft í myndum enda erfitt að ná fram þeirri túlkun. Hún varð líka einstaklega sjálfhverf án þess að Nanna færi í einhvern öfgaleik í því. Ég veit ekki hvað mér fannst um karakter Sigga Sigurjóns í hreinskilni sagt. Náði engu sambandi við hann, sem var kannski meiningin þegar ég pæli í því. Hann átti að vera svo fjarrænn fjölskyldunni sinni og nágrönnum. Það náði aldrei neinn sambandi við hann og hann átti mjög ópersónuleg tengsl við alla.
Daniel Bruhl vonast ég til að sjá meira af. Mér fannst hann fínn í þessari mynd. Alltaf soldið skrítnir svona karakterar sem að snappa upp úr þurru þegar maður veit enga forsögu. En ég hafði gaman af honum og fannst gaman að sjá þegar mjúka hliðin hans kom fram í samskiptum við þá óléttu. Hún var líka fín. Nína er ágæt leikkona. Björn Hlynur, sem lék manninn hennar, finnst mér afskaplega skemmtilegur leikari! Karakterinn hans var ótrúlega leiðinlegur á skemmtilegan hátt og Björn lék hann mjög vel.
Það sem er líklega skemmtilegast við Kóngaveg er þessi gríðarlega karakterflóra sem ég hef rétt getað tiplað á í þessu bloggi. Persónusköpunin var oftast góð og leikurinn líka. En þetta magn af skemmtilegum karakterum jafnframt vandamálið. Það myndast svo margir söguþræðir og mörg vandamál að það gefst ekki tími til þess að vinna úr þeim eða gefa þeim allan þann tíma í myndinni sem hver og ein saga á skilið. Rétt eins og ég í þessu bloggi næst bara rétt svo að tipla á sögu hvers og eins er ekki farið djúpt í neina. Þannig að myndin verður samhengislaus og virðist eiginlega bara vera ókláruð!
Það vantar svo mikið upp á sögurnar og sumu er bara slengt fram að því virðist án umhugsunar og ekkert unnið úr neinu. Eitt besta dæmið um það er Gertrud. Halló! What? Og hvað var pabbinn að vinna við? Það var ekkert útskýrt! Pönkurunum var algjörlega ofaukið. Það hefði átt að klippa þá bara alveg burt. Það par var bara fyrir og truflaði söguna. Mann langaði svo að vita meira um vandamálin sem voru til staðar en í staðinn var troðið inn enn fleiri sögum og veseni. Þannig að ég varð fyrir vonbrigðum á meðan á myndinni stóð en í því hef ég aldrei lent áður. Mér fannst hún vera spennandi í byrjun og kúl. Klippingin var hrá og virtist unnin í miklum flýti sem mér fannst vera heillandi á ákveðinn hátt. Hún var í góðu samræmi við umhverfi myndarinnar. Hjólhýsunum er líka einhvern veginn bara hent upp og allt umhverfið er hrátt sem er skemmtilegt. Þessi hugmynd um hjólhýsahverfi á Íslandi er áhugaverð og augljóslega hægt að gera mjög skemmtilega mynd um það. En það komu bara fram of margar góðar hugmyndir og erfitt að klippa út heilu sögurnar, ég skil það vel, en það bara bitnar á heildarsvip myndarinnar! Það hefði í raun verið hægt að gera tvær aðskildar en samt tengdar myndir. Svona eins og Börn og Foreldrar.
Hvað var líka málið með litla bróðurinn sem kom allt í einu? Tilgangslaust!
Samt rosalega mikil synd því að þetta hefði getað verið svo skemmtileg mynd. Eins og ég hef áður nefnt með umhverfið og klippinguna. Svo komu oft mjög áhugaverð myndatökumóment þar sem komu skemmtileg skot og fókusbreytingar. Það fannst mér flott. Tónlistin var líka æðisleg! Virkilega skemmtileg og passaði vel inn í aðstæðurnar.
Ég læt þetta gott heita um Kóngaveg. Í stuttu máli fannst mér hún hafa mikla möguleika á að verða skemmtileg en sögurnar drukknuðu hver í annarri.
Ég er að flestu leyti sammála. Maður var alltaf að bíða eftir að það myndaðist einhver rauður þráður, að maður sæi eitthvað sem hélt myndinni saman, en það kom aldrei. Fullt af frábærum augnablikum í myndinni, en ekki nóg samhengi.
ReplyDeleteHver veit, kannski passa pönkararnir svona illa inn vegna þess að þeir voru að mestu leyti klipptir út, og það var ekki hægt að klippa þá meira út án þess að missa þetta litla samhengi sem þó er til staðar.
Mjög góð færsla. 9 stig.