Thursday, January 21, 2010

Le petit Nicolas


Í vikunni varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá Le petit Nicolas á frönsku kvikmyndahátíðinni. 

Myndin, sem er öll á frönsku, gerist á 6. áratugnum og fjallar um Nicolas. Nicolas er í drengjaskóla þar sem hann á mikið af vinum og er með góðan kennara. Strákarnir í bekknum eru óþægir en samt aldrei hrekkjóttir. 
Nicolas á góða foreldra. Pabbi hans vinnur á skrifstofu en segist hafa getað orðið hjólreiðakappi eða annað enn áhugaverðara ef hann hefði ekki gifst mömmu Nicolasar. Nicolas elskar mömmu sína mikið. Hún vinnur heima við, eldar og sér um heimilið og er Nicolasi góð. Þegar Joachim, einn af félögum Nicolasar, kemur seint í skólann einn daginn með þær fregnir að hann hafi eignast lítinn bróður fara ýmsar hugmyndir að brjótast um i kollinum á Nicolasi. Joachim ber neflilega litla bróður sínum ekki fallega söguna og segir hann aðeins vera til vandræða. Nicolas misskilur ýmislegt varðandi hegðun foreldra sinna, trúir því að mamman sé ólétt og að nú ætli þau að losa sig við hann. Hann leitar ýmissa leiða til þess að koma í veg fyrir þetta með hjálp félaga sinna, Alceste, Clotaire og fleiri.

Jæja, hvar skal byrja? Öll umgjörð um myndina var framúrskarandi. Þessi 1950 andi náði algjörlega fram. Leikmyndin var semsagt flott. Heimili foreldrana þetta týpíska 1950 heimili, skólinn mjög ólíkur okkar nú á dögum þar sem fingramálverk krakkanna prýða veggi og einnig utandyra. Maður fékk tilfinningu fyrir að Nicolas byggi í fremur litlum (ekkert miðað við Ísland auðvitað) bæ þar sem strákarnir gátu leikið sér úti án þess að foreldrar þeirra hefðu áhyggjur. Búningarnir voru líka einstaklega skemmtilegir. Allir strákarnir alltaf vel til hafðir í stuttbuxum og fínum jökkum með litlu skólatöskurnar sínar í hendinni. Alveg yndislegt! 
Myndatakan var fremur standard. Eitt mjög skemmtilegt skot þar sem foreldrar Nicolasar eru að fara með hann í skógarferð en hann heldur að þau ætli að losa sig við hann þar. Þá situr hann í aftursætinu á bílnum og myndavélin súmmar inn á hann meðan bíllinn er á ferð og það verður mjög skýrt hversu hræddur hann er! En mjög fín þrátt fyrir einfaldleika. 
Tónlistin! Skemmtileg! Gaf manni algjörlega tilfinninguna fyrir því að maður væri að horfa á mynd um unga stráka, sakleysi þeirra og uppátæki. Mjög krúttleg og passaði fullkomlega inn í!

En þar sem Le petit Nicolas er byggð á frægum sögum sem hafa notið mikillar hylli víðs vegar um heiminn kemur kannski ekki á óvart að það skemmtilegasta við myndina voru karakterarnir. Allir litlu strákarnir með sín séreinkenni. Alceste, besti vinur Nicolasar sem borðar endalaust, dekurstrákurinn Geoffrey sem fær allt sem hann vill út af því að pabbi hans er svo ríkur, Eudes þessi sterki, Agnan sem var kennarasleikjan og Clotaire, sem var minn uppáhalds! Clotaire er neðstur í bekknum. Hann er svona goofy-looking, mjór, hár og með stór augu. Hann getur aldrei svarað spurningu réttri og er alltaf að lenda í skammarkróknum af því að hann er svo sveimhugi og fylgist ekki með. Hann var algjört krútt! Mamman og pabbinn voru skemmtileg en frekar týpísk samt. Mamman átti reyndar frábæra senu þegar yfirmaður mannsins hennar og konan hans koma í mat. VÁ! Rosalega fyndið. 
Persónusköpunin og karakterarnir væru samt algjörlega til einskis ef að leikurinn er slæmur. En það var nú ekki vandamálið. Allir litlu strákarnir stóðu sig frábærlega og skiluðu sínu með glæsibrag. Það er enginn einn sem mér finnst ég knúin til þess að minnast á. Þeir voru allir með sinn karakter á hreinu og urðu alveg sín persóna. Snilld. Foreldrarnir léku sinn part líka vel og kennarinn. Allt til fyrirmyndar. En eins og ég segi, enginn sem stóð uppúr. 
Sagan sjálf er mjög skemmtileg. Hún er einföld og stundum fyrirsjáanleg en það virkar í þessum einfaldleika sem myndin leggur upp með. Sem gæti stafað af því að þetta er barnamynd :) Nei, fjölskyldumynd! Það er afskaplega mikið af steríótýpum, þá ber helst að nefna pabbann og mömmuna sem er þreytt á að vera "bara" húsmóðir og vill meiri þekkingu og bílpróf. En það fór engan veginn í taugarnar á mér. Þetta var sæt saga. Það besta við myndina var samt hiklaust hversu fyndin hún var! Það er svo gaman þegar myndir verða bara áreynslulaust fyndnar. Ég algjörlega þoli ekki augnablikin í bíó þegar ég veit að ég á að vera að hlæja og hálfur salurinn hlær kannski en bara það að ég EIGI að vera að hlæja höndla ég ekki! Þessi mynd var algjörlega laus við alla þannig tilgerð. Hún var bara fyndin og það náði ekkert lengra. 

Mæli með Le petit Nicolas. Veit reyndar ekki hvort að það sé enn verið að sýna hana á franskri kvikmyndahátíð en hún er allavega frábær og virkilega góð feel-good mynd! Og hún er á frönsku! Sem ég skildi meira af heldur en í síðustu mynd :) (sérstaklega þegar ungu strákarnir töluðu) 

Takk fyrir lesturinn!

2 comments:

  1. Já og þar sem ég hef verið veik hef ég ekki haft tíma til þess að sjá Bjarnfreðarson eða Mömmu Gógó en það er það fyrsta sem ég geri í næstu viku! Á mánudag reyndar...

    ReplyDelete
  2. Flott færsla. 9 stig.

    Þetta er einmitt eina myndin sem ég komst á á frönsku kvikmyndahátíðinni (og Græna ljósið ætlar að halda áfram að sýna hana), og mér fannst hún líka mjög skemmtileg. Einföld, góð, hlý og fyndin.

    Uppáhaldssenan mín var líkast til þegar strákarnir stela Rollsinum, hún var bara svo fyndin. En fullt af virkilega skemmtilegum senum.

    ReplyDelete