Sunday, January 24, 2010

Sherlock Holmes

Í gærkvöldi ákvað ég að rífa mig upp úr veikindakvöldi og kíkja í Kringlubíó. Ég fór með miklar væntingar á þessa stórmynd leikstjórans Guy Ritchie! 

Sherlock Holmes og trausti félagi hans John Watson ná loksins Lord Blackwood sem er galdramaður og koma honum í snöruna. Málin flækjast hins vegar allverulega þegar hann virðist hafa gengið út úr gröf sinni lifandi! Þeir reyna að finna Blackwood en vita ekki alveg við hvaða öfl þeir eru að stríða. Sagan flækist enn frekar með yfirvofandi trúlofun Watsons og tilkomu Irene Adler, sem er eina konan sem Sherlock hefur elskað - eða elskar. 

Augljóslega afskaplega mikið lagt í þessa mynd. Leikmyndin var virkilega flott en það fór smá í taugarnar á mér hvað ég gat ekki hrist þá tilfinningu af mér hvað það hefur sjúklega miklum pening verið eytt í þetta! En það er bara ég. Það tókst að mynda annan heim í myndinni, mér fannst ekki eins og þetta ætti bara að gerast fyrir löngu síðan heldur einhvern veginn líka annars staðar. Líklega vegna þess að þetta er gert eftir frægum sögum Conans Doyle. Já það tókst að skapa þennan heim sem Doyle skapaði í bókum sínum! Sem er vel af sér vikið. Það sama má segja um búninga. Vel heppnaðir en dollaraseðlarnir alveg drupu af sérhverri tölu. 

Myndatakan var uppáhaldið mitt! Fullt af sérstökum og úthugsuðum skotum. Mér fannst ótrúlega flott atriðið þegar húsið springur! (Þeir sem hafa séð myndina vita um hvað ég er að tala.) Ooo svo mörg flott skot. Til dæmis þegar Lord Blackwood talar við Sherlock í fangelsinu og er að segja honum að hugsa um þetta í víðara samhengi. Nálægðin við karakterana varð mjög mikil þar sem krafðist þess að maður fylgdist grannt með! Það voru líka nokkur atriði þar sem maður fær aðeins að gægjast inn í huga Sherlocks og sér hvað hann ætlar að gera næst og hvernig hann útskýrir af hverju hann gerði þetta en ekki hitt, þetta var notað í bardagasenum hans, sem mér fannst virkilega kúl og voru í uppáhaldi hjá mér. Jæja thumbs up fyrir skemmtilega og stundum óhefðbundna og óvænta myndatöku! 

Robert Downey Jr hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég sá Kiss kiss bang bang árið 2005 en af einhverjum ástæðum fannst mér sú mynd algjörlega frábær! (Sá hana svo nokkrum árum síðar og var ekki alveg jafn uppnumin en Robert er engu að síður snillingur.) Nú er hann aðalmaðurinn í myndum eins og Iron Man og Tropic Thunder. Gott hjá honum. Hann skilaði sínu alveg flekklaust sem Sherlock. Hann varð svo yfirgengilega svalur karakter í höndum Roberts, og auðvitað handritshöfundana. En samt sá maður viðkæmnina sem leyndist í honum. Jude Law var fínn líka sem Watson. Soldið aumingjalegur sem hentar karakternum vel. Rachel McAdams er náttúrulega gullfalleg og líka í uppáhaldi hjá mér! Þetta eru augljóslega fyrirtaksleikarar sem skiluðu sínu. Mark Strong fannst mér líka mjög góður í hlutverki Blackwoods. Hann hafði einhvern veginn alveg rétta útlitið og var gerður soldið vampírulegur sem passaði vel. Hann virtist mjög jarðbundinn og fastur fyrir sem mér fannst algjörlega gera karakterinn að þessum kalda, valdagráðuga manni sem hann er. Ég var ánægð með að muna ekki eftir honum úr neinni annarri mynd. Skemmtilegur leikari þarna á ferð grunar mig. 
Kannski ekki margt fleira sem ég hef að segja um Sherlock Holmes. Ég fór á myndina með miklar væntingar og hún stóðst alveg undir þeim. Hún var fyndin og hélt manni allan tímann. Söguþráðurinn var skýr í gegnum alla myndina og ég hafði bara virkilega gaman af þessari mynd. Mæli algjörlega með henni sem 2 klukkustunda afþreyingu! 

Eitt sem fór í taugarnar á mér svona að lokum. Hvernig hún endaði svo augljóslega þannig að það væri hægt að gera aðra mynd! Það var algjörlega ónauðsynlegt. Kommon, það veit hver maður að ef hún gengur vel verður gerð Sherlock Holmes the sequel eins og er Hollywood vaninn. Það var engin ástæða til þess að troða því uppá mann þegar myndin var í raun búin. 


1 comment:

  1. Ég er enn ekki búinn að sjá þessa, en ætla mér algjörlega að gera það. Ég get alveg ímyndað mér hvað þú átt við með flottum skotum - Guy Ritchie er mikið fyrir stílfærslu og fær kúl-stig fyrir það.

    Góð færsla. 8 stig.

    ReplyDelete