Sunday, February 28, 2010

C.R.A.Z.Y


C.R.A.Z.Y er frönsk-kanadísk mynd sem gerist í Kanada á árunum 1960-80, en er frá árinu 2005. Hún fjallar um fjölskyldu sem samanstendur af trúuðum foreldrum og 5 bræðrum sem heita Christian, Raymond, Antoine, Zachary og Yves. (CRAZY). Þeim kemur mjög illa saman vegna þess að þeir eru allir svo ólíkir. 

Zachary er aðalpersóna myndarinnar en hann uppgötvar að hann er hommi en það er pabbi hans alls ekki sáttur við. Þetta ollir því að Zachary afneitar samkynhneigð sinni og reynir eins og hann getur að verða "eðlilegur" en pabbanum finnst þetta vera afbrigðilegt og eiginlega einhver sjúkdómur. Mamma bræðrannar er yndisleg. Hún vill þeim svo vel og elskar þá út af lífinu. Hún er víðsýnni en pabbinn og ekki eins ströng. Sambandið milli Zachary og mömmu hans er rosalega fallegt og mikilvægt í myndinni. Hann virtist vera svona í hálfgerðu uppáhaldi hjá mömmu sinni. Líklega vegna þess að hann átti að hafa hæfileika til þess að láta fólki líða betur með því að hugsa um það. 

C.R.A.Z.Y er æðisleg mynd! Ég er augljóslega að fíla fransk-kanadíska kvikmyndagerð!! Sagan er góð. Það gerist svo margt í henni og manni langar ekki að hún klárist. En þó er það aðallega persónusköpunin sem gerir myndina svo frábæra. Hver karakter er svo djúpur og með sín karaktereinkenni sem skína í gegn. Sem gerði það að verkum að þetta var trúverðugt. 
Maður trúði því að þetta fólk hefði verið til og lifað þessu lífi. Hún er líka vel leikin og virkilega áhrifarík. Manni þótti vænt um persónurnar og gat, kannski ekki samsamað sig þeim, en skilið hvernig þeim leið og farið inn í þeirra tilfinningaástand. Það voru nokkur mjög skemmtileg atriði þar sem Zac er að dagdreyma og þeim var yndislega vel blandað inn í. Sambönd milli persónanna eru áhugaverð og vel uppbyggð. Reyndar vanalega mjög flókin en sett fram á mjög skýran hátt. Zac er líka sögumaður sem gefur myndinni svona hálfgert ævisöguyfirbragð sem er heillandi. 

Allir búningar og leikmynd eru flott og augljóslega var hugsað fyrir öllum smáatriðum! 
Það tekst að ná upp fullkomnu andrúmslofti fyrir þetta tímabil og það var gaman að sjá hvernig Zac breyttist eftir því sem hann eltist í samræmi við tískuna. 
Myndatakan var líka skemmtileg. Pældi reyndar ekkert svo mikið í henni vegna þess að sagan greip mann svo fast! En það voru flott skot og vel staðið að henni. Tónlistin sem er notuð (mjög mikið af tónlist í þessari mynd!) var frábær og skemmtilega og hárrétt valin fyrir hvert atriði.  

Ég hafði séð þessa mynd áður en sá hana aftur núna í síðustu viku og ég trúi ekki að ég hafi gleymt henni þegar ég var að gera topplistann minn! (Sem er eiginlega núna bara algjört rugl!) Hún er núna ein af uppáhaldsmyndunum mínum! Mæli eindregið með því að sjá hana.

Wednesday, February 3, 2010

Mamma Gógó


Nú er ég hætt að bíða eftir Friðriki og ætla að drífa þetta blogg af! 



Mamma Gógó er semsagt ný íslensk kvikmynd í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar. Hún er að einhverju leyti sjálfsævisöguleg, ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir hversu mikið því ég veit í raun voða lítið um Friðrik Þór! Hún fjallar semsagt um son (skrítið orðalag en hann hét ekki neitt!) sem er kvikmyndagerðamaður og er leikinn af Hilmi Snæ. Hann á aldraða móður sem er kölluð Gógó, er ekkja og býr ein. Systkinin, kvikmyndagerðamaðurinn á tvær systur, eru farin að hafa áhyggjur af því að það sé farið að slá út í fyrir mömmu gömlu en hún vill alls ekki fara á elliheimili. Þessar áhyggjur eru alls ekki ósanngjarnar þar sem alls kyns stórhættuleg óhöpp hafa komið upp. 

Ég hef ákveðið að líta á myndina sem mikið sjálfsævisögulega frekar heldur en lítið og geri því ráð fyrir því að þetta viðfangsefni hafi verið erfitt fyrir Friðrik. Bæði er hann að gera upp erfiðan tíma í sínu lífi og einnig að fást við þennan ógnvekjandi sjúkdóm alzheimer. Mér fannst þess vegna skrítið að handritið skyldi ekki vera betur uppbyggt. Fókusinn fór af þjáða listamanninum sem er að reyna að komast af á listinni einni saman og svo allt í einu algjörlega yfir á móður hans og líf hennar með alzheimer. Mér fannst maður einhvern veginn skilinn eftir í lausu lofti með átök listamannsins. Það var eins og það hefði gleymst að klára hans sögu eða nokkrar senur óvart klipptar út. Hringurinn lokaðist aldrei. Þetta byggi ég sérstaklega á því að sífellt var verið að hamra á því að þessi óvinsæla mynd hlyti að fara að fá einhver verðlaun og þannig en svo kom aldrei í ljós að hún fékk tilnefningu til Óskarsverðlaunanna! 
En líka vegna þess að það voru augljóslega vandamál í hjónabandi hans og konunnar hans sem var ekkert tekið á. 
Hins vegar fannst mér góð nálgun hans á alzheimernum. Þessi sjúkdómur er svo hræðilegur, ég þekki það örlítið af eigin raun, og það er erfitt að missa manneskju svona frá sér andlega þó svo að hún sé algjörlega til staðar líkamlega. Persónan er farin. Atriðið þar sem Hilmir heimsækir móður sína og spyr hana hvar hún sé eiginlega fannst mér átakanlegt og fallegt. Eins var atriðið þar sem barnakórinn heimsækir elliheimilið og gamalmennin syngja sum með alveg einstakt og kallaði fram tilfinningar hjá áhorfandanum. Það var líka gaman að sjá notkunina á klippum úr myndinni 79 á stöðinni þó svo að mér finnist alltaf hálfhallærislegt þegar "draugar" fade-a inn og út. 
Það sem mér fannst óþægilegast við myndina var samt án vafa að hún var einhvern veginn tímalaus en samt alls ekki! Þar sem þetta er byggt á hans ævi og Börn náttúrunnar var mynd sem var til í alvörunni staðsetti ég hana ósjálfrátt strax þarna einhver staðar á árunum '90-'91. Svo var klippt og þá kom í ljós glænýtt hús (sem ég veit af tilviljun að var byggt ca. 2008). Seinna er talað um íslenska erfðagreiningu og vitnað til upphafs hrunsins og þar með er tíminn alveg kominn í rugl! Þegar að Gunnar sækir Kristbjörgu svo þegar hún ætlar að planta blómi hjá minnisvarða hans sést greinilega ártalið 2010 í framrúðu bílsins. Það var svo augljóst að það var eins og þessu merki hafi verið plantað þarna til þess að taka af allan vafa en það hafði ekki tilætluð áhrif! Það er ekkert mál að gera tímalausa mynd. Oftast tekur áhorfandinn ekkert eftir því en það var alls ekki skýrt í Mömmu Gógó hvenær í ósköpunum hún gerðist og það var óþolandi. Að mínu mati hefði verið langskemmtilegast að taka út allt kreppurugl, þennan 2010 miða og láta hana bara gerast fyrir 20 árum þegar Börn náttúrunnar kom út og allt þetta gerðist hjá leikstjóra. 

Hilmir Snær fannst mér góður í aðalhlutverkinu og Kristbjörg Keld skilaði sínu líka vel. Leikurinn fannst mér frekar stirður framan af en batnaði eftir því sem á leið myndina. Systurnar fannst mér alveg glataðar! Sem kom mér á óvart þar sem að ég hef bara séð gott frá þessum leikkonum. Ég kenni aðallega handritinu um allar misfellur í leiknum. 

Þegar allt kemur til alls er þetta skemmtileg og heillandi saga sem var bara engan veginn komið nægilega vel til skila. Það hefði mátt eyða mikið meiri tíma í að fínpússa handritið og söguna.