Þegar ég fór loks á Bjarnfreðarson þá hafði ég heyrt svo margt um hana að það var ekki annað hægt en að vera með ákveðnar væntingar. Ég er enginn sérstakur aðdáandi vaktanna og var því voru þær reyndar ekkert gríðarlega miklar.
Ég ætla ekki að eyða tíma mínum eða lesenda í að útlista söguþráð myndarinnar þar sem ég geri ráð fyrir því að flestir hafi séð myndina eða viti allavega út á hvað hún gengur.
Fyrir það fyrsta fannst mér myndin strax byrja vel, flott atriðið í byrjun og hvernig titill myndarinnar kom fram.
Smáatriði en eitthvað sem ég tók eftir! Í öðru lagi er hún vel leikin. Tríóið; Jón, Jörundur og Pétur, er náttúrulega orðið svo sjóað í karakterunum sínum og það hefur augljóslega svo mikil karaktersköpun átt sér stað að samskiptin milli þeirra flæða einstaklega vel. Manni verður alveg illt í enninu við að horfa á grettur Jóns Gnarrs. En það sem mér fannst skemmtilegast hugsa ég við myndina var þessi viðhorfsbreyting sem áhorfandinn fær á Georgi. Ég sá alla Dagvaktina og nokkra þætti úr bæði Nætur-og Fangavaktinni og var sjálf farin að fyrirlíta Georg og hata.
Hann virti engin landamæri og kom illa fram við Ólaf og Daníel, sem liggja reyndar vel við höggi sakir aumingjaskapar og heimsku. Ég veit að ég er að tala um tilgang myndarinnar, þ.e. viðhorfsbreytingin til Georgs, en því finnst mér ennþá heldur að ég verði að minnast á það því að mínu mati heppnaðist það vel.
Allar tökur sem áttu að gerast í fortíðinni fannst mér virka vel en þannig fer oft í taugarnar á mér. Þær hindruðu alls ekki flæði myndarinnar eins og oft er með svona innskot heldur urðu ómissandi þáttur. Ágústa Eva var fín í hlutverki Bjarnfreðar, þær Margrét Helga eru með skemmtilega líkan munnsvip sem fékk oft að sjást og gerði það að verkum að ég trúði því að Ágústa væri virkilega ung Margrét. Litlu Georgarnir voru sympatískir. Vá hvað yngsti var mikið krútt!
Pétur Jóhann er að mínu mati (og pottþétt margra, margra annarra) langfyndnasti karakterinn. Hann er comic-relief í þessari hádramatísku sögu. Hnakkabrandararnir virkuðu vel og rosalega gaman að sjá Ólaf Ragnar loksins, LOKSINS, finna sig einhvers staðar!
Jörundur leikur svo ótrúlega leiðinlegan og dull (kannski ekki rétta orðið.. pirrandi) karakter en hann gerir það ágætlega. Honum virtist eiga að vera mjög létt í enda myndarinnar sem var gott.
Klippingin fannst mér vera æðisleg! Það var oft sem ég tók sérstaklega eftir góðri tímasetningu en núna í augnablikinu man ég ekki eftir einstaka atriði. Ég held að þetta hafi sérstaklega verið á eftir/undan fortíðarinnskotunum. Það er eitt þar sem Georg er í strætó og hittir Óla minnir mig. Klippingin fékk mig oft til þess að finna virkilega að þetta var eitthvað sem var að gerast inní höfðinu á Georgi. Það finnst mér oft vanta þegar minningar eru notaðar í bíómyndum. Því þessar minningar eru jú oftast bara til inní höfðunum á okkur! En fyrir utan viðhorfsbreytinguna (óþjált orð!) hugsa ég að klippingin hafi verið uppáhaldið mitt. Myndatakan kemur líklega inní það líka en hún var fín líka. Hún var einhvern veginn mjög mjúk, myndavélin var oft látin renna inn í tökuna.. æi veit ekki alveg hvernig skal orða þetta betur! Vona að það skiljist.
Það sem er svo gott við Bjarnfreðarson er að hún endar vel. Eins og Ragnar Bragason sagði þá vildi hann láta myndina enda vel og sérstaklega þá út af því að vaktirnar enduðu allar svo illa. Ég er ánægð með þetta viðhorf hjá honum!
Jæja, komið að lokaorðum hjá mér. Bjarnfreðarson er vel gerð og uppbyggð mynd. Leikurinn er góður og sagan virkar. En líklegast verð ég að vera í mótsögn við sjálfa mig eftir að hafa skrifað þessa umsögn og segja að kannski mögulega fór ég á hana með of miklar væntingar, svona í undirmeðvitundinni. Ég varð ekki eins hrærð og margir hafa verið og mér fannst það frekar leiðinlegt! Ég er þess vegna smá á la-la skoðuninni með þessa mynd. Ekkert að henni í rauninni en hún náði ekki alveg til mín eins og ég hafði búist við. Ég verð samt að segja að ég er hrifin af því hvað Ragnar er að gera og hlakka til að sjá meira af hans verkum á komandi árum!