Tuesday, January 26, 2010

Bjarnfreðarson




Þegar ég fór loks á Bjarnfreðarson þá hafði ég heyrt svo margt um hana að það var ekki annað hægt en að vera með ákveðnar væntingar. Ég er enginn sérstakur aðdáandi vaktanna og var því voru þær reyndar ekkert gríðarlega miklar. 

Ég ætla ekki að eyða tíma mínum eða lesenda í að útlista söguþráð myndarinnar þar sem ég geri ráð fyrir því að flestir hafi séð myndina eða viti allavega út á hvað hún gengur. 

Fyrir það fyrsta fannst mér myndin strax byrja vel, flott atriðið í byrjun og hvernig titill myndarinnar kom fram. 
Smáatriði en eitthvað sem ég tók eftir! Í öðru lagi er hún vel leikin. Tríóið; Jón, Jörundur og Pétur, er náttúrulega orðið svo sjóað í karakterunum sínum og það hefur augljóslega svo mikil karaktersköpun átt sér stað að samskiptin milli þeirra flæða einstaklega vel. Manni verður alveg illt í enninu við að horfa á grettur Jóns Gnarrs. En það sem mér fannst skemmtilegast hugsa ég við myndina var þessi viðhorfsbreyting sem áhorfandinn fær á Georgi. Ég sá alla Dagvaktina og nokkra þætti úr bæði Nætur-og Fangavaktinni og var sjálf farin að fyrirlíta Georg og hata. 
Hann virti engin landamæri og kom illa fram við Ólaf og Daníel, sem liggja reyndar vel við höggi sakir aumingjaskapar og heimsku. Ég veit að ég er að tala um tilgang myndarinnar, þ.e. viðhorfsbreytingin til Georgs, en því finnst mér ennþá heldur að ég verði að minnast á það því að mínu mati heppnaðist það vel. 
Allar tökur sem áttu að gerast í fortíðinni fannst mér virka vel en þannig fer oft í taugarnar á mér. Þær hindruðu alls ekki flæði myndarinnar eins og oft er með svona innskot heldur urðu ómissandi þáttur. Ágústa Eva var fín í hlutverki Bjarnfreðar, þær Margrét Helga eru með skemmtilega líkan munnsvip sem fékk oft að sjást og gerði það að verkum að ég trúði því að Ágústa væri virkilega ung Margrét. Litlu Georgarnir voru sympatískir. Vá hvað yngsti var mikið krútt! 
Pétur Jóhann er að mínu mati (og pottþétt margra, margra annarra) langfyndnasti karakterinn. Hann er comic-relief í þessari hádramatísku sögu. Hnakkabrandararnir virkuðu vel og rosalega gaman að sjá Ólaf Ragnar loksins, LOKSINS, finna sig einhvers staðar! 
Jörundur leikur svo ótrúlega leiðinlegan og dull (kannski ekki rétta orðið.. pirrandi) karakter en hann gerir það ágætlega. Honum virtist eiga að vera mjög létt í enda myndarinnar sem var gott. 

Klippingin fannst mér vera æðisleg! Það var oft sem ég tók sérstaklega eftir góðri tímasetningu en núna í augnablikinu man ég ekki eftir einstaka atriði. Ég held að þetta hafi sérstaklega verið á eftir/undan fortíðarinnskotunum. Það er eitt þar sem Georg er í strætó og hittir Óla minnir mig. Klippingin fékk mig oft til þess að finna virkilega að þetta var eitthvað sem var að gerast inní höfðinu á Georgi. Það finnst mér oft vanta þegar minningar eru notaðar í bíómyndum. Því þessar minningar eru jú oftast bara til inní höfðunum á okkur!  En fyrir utan viðhorfsbreytinguna (óþjált orð!) hugsa ég að klippingin hafi verið uppáhaldið mitt. Myndatakan kemur líklega inní það líka en hún var fín líka. Hún var einhvern veginn mjög mjúk, myndavélin var oft látin renna inn í tökuna.. æi veit ekki alveg hvernig skal orða þetta betur! Vona að það skiljist.
Það sem er svo gott við Bjarnfreðarson er að hún endar vel. Eins og Ragnar Bragason sagði þá vildi hann láta myndina enda vel og sérstaklega þá út af því að vaktirnar enduðu allar svo illa. Ég er ánægð með þetta viðhorf hjá honum! 

Jæja, komið að lokaorðum hjá mér. Bjarnfreðarson er vel gerð og uppbyggð mynd. Leikurinn er góður og sagan virkar. En líklegast verð ég að vera í mótsögn við sjálfa mig eftir að hafa skrifað þessa umsögn og segja að kannski mögulega fór ég á hana með of miklar væntingar, svona í undirmeðvitundinni. Ég varð ekki eins hrærð og margir hafa verið og mér fannst það frekar leiðinlegt! Ég er þess vegna smá á la-la skoðuninni með þessa mynd. Ekkert að henni í rauninni en hún náði ekki alveg til mín eins og ég hafði búist við. Ég verð samt að segja að ég er hrifin af því hvað Ragnar er að gera og hlakka til að sjá meira af hans verkum á komandi árum!

Sunday, January 24, 2010

Sherlock Holmes

Í gærkvöldi ákvað ég að rífa mig upp úr veikindakvöldi og kíkja í Kringlubíó. Ég fór með miklar væntingar á þessa stórmynd leikstjórans Guy Ritchie! 

Sherlock Holmes og trausti félagi hans John Watson ná loksins Lord Blackwood sem er galdramaður og koma honum í snöruna. Málin flækjast hins vegar allverulega þegar hann virðist hafa gengið út úr gröf sinni lifandi! Þeir reyna að finna Blackwood en vita ekki alveg við hvaða öfl þeir eru að stríða. Sagan flækist enn frekar með yfirvofandi trúlofun Watsons og tilkomu Irene Adler, sem er eina konan sem Sherlock hefur elskað - eða elskar. 

Augljóslega afskaplega mikið lagt í þessa mynd. Leikmyndin var virkilega flott en það fór smá í taugarnar á mér hvað ég gat ekki hrist þá tilfinningu af mér hvað það hefur sjúklega miklum pening verið eytt í þetta! En það er bara ég. Það tókst að mynda annan heim í myndinni, mér fannst ekki eins og þetta ætti bara að gerast fyrir löngu síðan heldur einhvern veginn líka annars staðar. Líklega vegna þess að þetta er gert eftir frægum sögum Conans Doyle. Já það tókst að skapa þennan heim sem Doyle skapaði í bókum sínum! Sem er vel af sér vikið. Það sama má segja um búninga. Vel heppnaðir en dollaraseðlarnir alveg drupu af sérhverri tölu. 

Myndatakan var uppáhaldið mitt! Fullt af sérstökum og úthugsuðum skotum. Mér fannst ótrúlega flott atriðið þegar húsið springur! (Þeir sem hafa séð myndina vita um hvað ég er að tala.) Ooo svo mörg flott skot. Til dæmis þegar Lord Blackwood talar við Sherlock í fangelsinu og er að segja honum að hugsa um þetta í víðara samhengi. Nálægðin við karakterana varð mjög mikil þar sem krafðist þess að maður fylgdist grannt með! Það voru líka nokkur atriði þar sem maður fær aðeins að gægjast inn í huga Sherlocks og sér hvað hann ætlar að gera næst og hvernig hann útskýrir af hverju hann gerði þetta en ekki hitt, þetta var notað í bardagasenum hans, sem mér fannst virkilega kúl og voru í uppáhaldi hjá mér. Jæja thumbs up fyrir skemmtilega og stundum óhefðbundna og óvænta myndatöku! 

Robert Downey Jr hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég sá Kiss kiss bang bang árið 2005 en af einhverjum ástæðum fannst mér sú mynd algjörlega frábær! (Sá hana svo nokkrum árum síðar og var ekki alveg jafn uppnumin en Robert er engu að síður snillingur.) Nú er hann aðalmaðurinn í myndum eins og Iron Man og Tropic Thunder. Gott hjá honum. Hann skilaði sínu alveg flekklaust sem Sherlock. Hann varð svo yfirgengilega svalur karakter í höndum Roberts, og auðvitað handritshöfundana. En samt sá maður viðkæmnina sem leyndist í honum. Jude Law var fínn líka sem Watson. Soldið aumingjalegur sem hentar karakternum vel. Rachel McAdams er náttúrulega gullfalleg og líka í uppáhaldi hjá mér! Þetta eru augljóslega fyrirtaksleikarar sem skiluðu sínu. Mark Strong fannst mér líka mjög góður í hlutverki Blackwoods. Hann hafði einhvern veginn alveg rétta útlitið og var gerður soldið vampírulegur sem passaði vel. Hann virtist mjög jarðbundinn og fastur fyrir sem mér fannst algjörlega gera karakterinn að þessum kalda, valdagráðuga manni sem hann er. Ég var ánægð með að muna ekki eftir honum úr neinni annarri mynd. Skemmtilegur leikari þarna á ferð grunar mig. 
Kannski ekki margt fleira sem ég hef að segja um Sherlock Holmes. Ég fór á myndina með miklar væntingar og hún stóðst alveg undir þeim. Hún var fyndin og hélt manni allan tímann. Söguþráðurinn var skýr í gegnum alla myndina og ég hafði bara virkilega gaman af þessari mynd. Mæli algjörlega með henni sem 2 klukkustunda afþreyingu! 

Eitt sem fór í taugarnar á mér svona að lokum. Hvernig hún endaði svo augljóslega þannig að það væri hægt að gera aðra mynd! Það var algjörlega ónauðsynlegt. Kommon, það veit hver maður að ef hún gengur vel verður gerð Sherlock Holmes the sequel eins og er Hollywood vaninn. Það var engin ástæða til þess að troða því uppá mann þegar myndin var í raun búin. 


Thursday, January 21, 2010

Le petit Nicolas


Í vikunni varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá Le petit Nicolas á frönsku kvikmyndahátíðinni. 

Myndin, sem er öll á frönsku, gerist á 6. áratugnum og fjallar um Nicolas. Nicolas er í drengjaskóla þar sem hann á mikið af vinum og er með góðan kennara. Strákarnir í bekknum eru óþægir en samt aldrei hrekkjóttir. 
Nicolas á góða foreldra. Pabbi hans vinnur á skrifstofu en segist hafa getað orðið hjólreiðakappi eða annað enn áhugaverðara ef hann hefði ekki gifst mömmu Nicolasar. Nicolas elskar mömmu sína mikið. Hún vinnur heima við, eldar og sér um heimilið og er Nicolasi góð. Þegar Joachim, einn af félögum Nicolasar, kemur seint í skólann einn daginn með þær fregnir að hann hafi eignast lítinn bróður fara ýmsar hugmyndir að brjótast um i kollinum á Nicolasi. Joachim ber neflilega litla bróður sínum ekki fallega söguna og segir hann aðeins vera til vandræða. Nicolas misskilur ýmislegt varðandi hegðun foreldra sinna, trúir því að mamman sé ólétt og að nú ætli þau að losa sig við hann. Hann leitar ýmissa leiða til þess að koma í veg fyrir þetta með hjálp félaga sinna, Alceste, Clotaire og fleiri.

Jæja, hvar skal byrja? Öll umgjörð um myndina var framúrskarandi. Þessi 1950 andi náði algjörlega fram. Leikmyndin var semsagt flott. Heimili foreldrana þetta týpíska 1950 heimili, skólinn mjög ólíkur okkar nú á dögum þar sem fingramálverk krakkanna prýða veggi og einnig utandyra. Maður fékk tilfinningu fyrir að Nicolas byggi í fremur litlum (ekkert miðað við Ísland auðvitað) bæ þar sem strákarnir gátu leikið sér úti án þess að foreldrar þeirra hefðu áhyggjur. Búningarnir voru líka einstaklega skemmtilegir. Allir strákarnir alltaf vel til hafðir í stuttbuxum og fínum jökkum með litlu skólatöskurnar sínar í hendinni. Alveg yndislegt! 
Myndatakan var fremur standard. Eitt mjög skemmtilegt skot þar sem foreldrar Nicolasar eru að fara með hann í skógarferð en hann heldur að þau ætli að losa sig við hann þar. Þá situr hann í aftursætinu á bílnum og myndavélin súmmar inn á hann meðan bíllinn er á ferð og það verður mjög skýrt hversu hræddur hann er! En mjög fín þrátt fyrir einfaldleika. 
Tónlistin! Skemmtileg! Gaf manni algjörlega tilfinninguna fyrir því að maður væri að horfa á mynd um unga stráka, sakleysi þeirra og uppátæki. Mjög krúttleg og passaði fullkomlega inn í!

En þar sem Le petit Nicolas er byggð á frægum sögum sem hafa notið mikillar hylli víðs vegar um heiminn kemur kannski ekki á óvart að það skemmtilegasta við myndina voru karakterarnir. Allir litlu strákarnir með sín séreinkenni. Alceste, besti vinur Nicolasar sem borðar endalaust, dekurstrákurinn Geoffrey sem fær allt sem hann vill út af því að pabbi hans er svo ríkur, Eudes þessi sterki, Agnan sem var kennarasleikjan og Clotaire, sem var minn uppáhalds! Clotaire er neðstur í bekknum. Hann er svona goofy-looking, mjór, hár og með stór augu. Hann getur aldrei svarað spurningu réttri og er alltaf að lenda í skammarkróknum af því að hann er svo sveimhugi og fylgist ekki með. Hann var algjört krútt! Mamman og pabbinn voru skemmtileg en frekar týpísk samt. Mamman átti reyndar frábæra senu þegar yfirmaður mannsins hennar og konan hans koma í mat. VÁ! Rosalega fyndið. 
Persónusköpunin og karakterarnir væru samt algjörlega til einskis ef að leikurinn er slæmur. En það var nú ekki vandamálið. Allir litlu strákarnir stóðu sig frábærlega og skiluðu sínu með glæsibrag. Það er enginn einn sem mér finnst ég knúin til þess að minnast á. Þeir voru allir með sinn karakter á hreinu og urðu alveg sín persóna. Snilld. Foreldrarnir léku sinn part líka vel og kennarinn. Allt til fyrirmyndar. En eins og ég segi, enginn sem stóð uppúr. 
Sagan sjálf er mjög skemmtileg. Hún er einföld og stundum fyrirsjáanleg en það virkar í þessum einfaldleika sem myndin leggur upp með. Sem gæti stafað af því að þetta er barnamynd :) Nei, fjölskyldumynd! Það er afskaplega mikið af steríótýpum, þá ber helst að nefna pabbann og mömmuna sem er þreytt á að vera "bara" húsmóðir og vill meiri þekkingu og bílpróf. En það fór engan veginn í taugarnar á mér. Þetta var sæt saga. Það besta við myndina var samt hiklaust hversu fyndin hún var! Það er svo gaman þegar myndir verða bara áreynslulaust fyndnar. Ég algjörlega þoli ekki augnablikin í bíó þegar ég veit að ég á að vera að hlæja og hálfur salurinn hlær kannski en bara það að ég EIGI að vera að hlæja höndla ég ekki! Þessi mynd var algjörlega laus við alla þannig tilgerð. Hún var bara fyndin og það náði ekkert lengra. 

Mæli með Le petit Nicolas. Veit reyndar ekki hvort að það sé enn verið að sýna hana á franskri kvikmyndahátíð en hún er allavega frábær og virkilega góð feel-good mynd! Og hún er á frönsku! Sem ég skildi meira af heldur en í síðustu mynd :) (sérstaklega þegar ungu strákarnir töluðu) 

Takk fyrir lesturinn!