Wednesday, April 14, 2010

Að temja drekann sinn

Ég skellti mér í bíó með mömmu og litlu systur minni á laugardaginn og hvaða mynd varð fyrir valinu önnur en gæðamyndin Að temja drekann sinn eða How to train your dragon í 3D. 

Ég hafði nú engar sérstakar væntingar til þessarar myndar en það þurfti svosem ekki mikið til þess að skemmta mér á þessu laugardagshádegi.

Myndin  fjallar um Hiksta (já ég sá hana á íslensku) sem að býr í litlu þorpi þar sem aðalplágan eru, ekki mýs eða engisprettur, heldur DREKAR! Hiksti er ólíkur öðrum íbúum þorpsins þar sem það eru stórir og sterkir víkingar en Hiksti er lítill og á erfitt með að kljást við stóra og hræðilega dreka. Pabbi Hiksta er aðalvíkingurinn í þorpinu, sá stærsti og sterkasti og drepur dreka eins og að borða ís. Því er það erfitt fyrir Hiksta að viðurkenna það fyrir pabba sínum að hann vilji ekki drepa dreka. 
Mér finnst mjög jákvæð þróunin sem hefur verið í gangi í teiknimyndaheiminum. Þá á ég við þá þróun að bæði börn og fullorðnir geti haft gaman af teiknimyndunum. Og Að temja drekann sinn gerir það svo sannarlega! Hún hefur mjög skemmtilegan söguþráð sem að er spennandi þrátt fyrir að maður gjörþekki teiknimyndasöguþráðsformúluna. Söguefnið er það spennandi og óvenjulegt að maður er of mikið að fylgjast með til þess að hugsa: Ohhh hvernig ætla þau að enda þetta öðruvísi en nákvæmlega svona. Sem er mjöööög jákvætt! Sagan var því vel heppnuð og handritið gott. Það var mikið af skemmtilegum karakterum sem eru frumlegir og skemmtilegir, eða kannski ekki frumlegir. En allavega mjög skemmtilegir! 

Myndin er fyndin. Uppfull af litlum fyndnum bröndurum sem ekkert allir taka eftir (þeir höfðuðu mest til mín) svo líka brandarar sem allur salurinn gat hlegið saman að! Hún var líka vel talsett á íslensku en það segi ég ekki oft. Ég pældi í raun og veru sjaldan í því að ég væri á mynd sem væri talsett. Auðvitað komu augnablik þar sem varirnar sögðu augljóslega ensk orð sem eru mér velkunn en það kom ekki að sök.

Ég veit að ég ætti auðvitað aðallega að vera að tjá mig um grafíkina í þessu bloggi. Vandamálið er bara að ég er afskaplega fáfróð um þannig! Þetta var frekar svona teiknimyndalegt. Það var ekkert verið að reyna að gera þetta eitthvað meira raunverulegt heldur en þetta var. 3-D-ið var held ég bara vel heppnað. Tók í rauninni ekkert sérstaklega vel eftir því.

Ég veit ekki alveg af hverju ég er svona svakalega jákvæð í garð þessarar myndar! Þetta var bara virkilega góður dagur sem endaði á klippingu á heimildarmyndinni okkar um Herranótt sem fer nú loksins að detta í hús eftir mikið basl og vesen. Þetta var ekkert grín! Tókum að okkur viðamikið verkefni og þurftum að klippa sjúklega mikið af efni niður í tæpan hálftíma. En þetta hófst að lokum.

Jæja, mæli með Að temja drekann sinn! 

Takk fyrir veturinn.

1 comment:

  1. "Ég veit að ég ætti auðvitað aðallega að vera að tjá mig um grafíkina í þessu bloggi."

    Ég veit ekki af hverju það ætti að vera. Bíómyndir, og þar með taldar þrívíddar-teiknimyndir, eru annað og meira en bara grafíkin eða sjónarspilið (og ef þær eru það ekki eru þær sjaldnast góðar). Ég held það segi margt gott um myndina að þú hafir lifað þig of mikið inn í söguna til þess að pæla í grafíkinni. Þannig ættu allar myndir að vera. Síðan getur maður velt tæknilegu hliðinni fyrir sér þegar maður horfir á þær í annað sinn.

    5 stig.

    ReplyDelete