Wednesday, April 14, 2010

Að temja drekann sinn

Ég skellti mér í bíó með mömmu og litlu systur minni á laugardaginn og hvaða mynd varð fyrir valinu önnur en gæðamyndin Að temja drekann sinn eða How to train your dragon í 3D. 

Ég hafði nú engar sérstakar væntingar til þessarar myndar en það þurfti svosem ekki mikið til þess að skemmta mér á þessu laugardagshádegi.

Myndin  fjallar um Hiksta (já ég sá hana á íslensku) sem að býr í litlu þorpi þar sem aðalplágan eru, ekki mýs eða engisprettur, heldur DREKAR! Hiksti er ólíkur öðrum íbúum þorpsins þar sem það eru stórir og sterkir víkingar en Hiksti er lítill og á erfitt með að kljást við stóra og hræðilega dreka. Pabbi Hiksta er aðalvíkingurinn í þorpinu, sá stærsti og sterkasti og drepur dreka eins og að borða ís. Því er það erfitt fyrir Hiksta að viðurkenna það fyrir pabba sínum að hann vilji ekki drepa dreka. 
Mér finnst mjög jákvæð þróunin sem hefur verið í gangi í teiknimyndaheiminum. Þá á ég við þá þróun að bæði börn og fullorðnir geti haft gaman af teiknimyndunum. Og Að temja drekann sinn gerir það svo sannarlega! Hún hefur mjög skemmtilegan söguþráð sem að er spennandi þrátt fyrir að maður gjörþekki teiknimyndasöguþráðsformúluna. Söguefnið er það spennandi og óvenjulegt að maður er of mikið að fylgjast með til þess að hugsa: Ohhh hvernig ætla þau að enda þetta öðruvísi en nákvæmlega svona. Sem er mjöööög jákvætt! Sagan var því vel heppnuð og handritið gott. Það var mikið af skemmtilegum karakterum sem eru frumlegir og skemmtilegir, eða kannski ekki frumlegir. En allavega mjög skemmtilegir! 

Myndin er fyndin. Uppfull af litlum fyndnum bröndurum sem ekkert allir taka eftir (þeir höfðuðu mest til mín) svo líka brandarar sem allur salurinn gat hlegið saman að! Hún var líka vel talsett á íslensku en það segi ég ekki oft. Ég pældi í raun og veru sjaldan í því að ég væri á mynd sem væri talsett. Auðvitað komu augnablik þar sem varirnar sögðu augljóslega ensk orð sem eru mér velkunn en það kom ekki að sök.

Ég veit að ég ætti auðvitað aðallega að vera að tjá mig um grafíkina í þessu bloggi. Vandamálið er bara að ég er afskaplega fáfróð um þannig! Þetta var frekar svona teiknimyndalegt. Það var ekkert verið að reyna að gera þetta eitthvað meira raunverulegt heldur en þetta var. 3-D-ið var held ég bara vel heppnað. Tók í rauninni ekkert sérstaklega vel eftir því.

Ég veit ekki alveg af hverju ég er svona svakalega jákvæð í garð þessarar myndar! Þetta var bara virkilega góður dagur sem endaði á klippingu á heimildarmyndinni okkar um Herranótt sem fer nú loksins að detta í hús eftir mikið basl og vesen. Þetta var ekkert grín! Tókum að okkur viðamikið verkefni og þurftum að klippa sjúklega mikið af efni niður í tæpan hálftíma. En þetta hófst að lokum.

Jæja, mæli með Að temja drekann sinn! 

Takk fyrir veturinn.

Monday, April 5, 2010

Harðort gagnrýnispöntunarblogg

Djók.. (titillinn sko.) 

Ég var á heildina litið frekar ánægð með þetta fag í ár. Ég hef mikinn áhuga á kvikmyndagerð og finnst gaman að pæla í kvikmyndum. Aðal væntingarnar sem ég hafði voru aðallega að opna augu mín fyrir kvikmyndum sem ég hefði kannski ekki endilega horft á, "læra" að gagnrýna kvikmyndir meira og einfaldlega að pæla meira í þeim á fagmannlegri nótum! Mér finnst því markmiði alveg hafa verið náð. Reyndar hentuðu bíómyndatímarnir mér hræðilega illa í ár vegna þess að ég mætti í skólann klukkan 8.50 og var í skólanum alveg til 14.10, fór þá í leikfimi og mætti algjörlega uppgefin í tímana (fékk ekkert hádegishlé þar sem sá tími fór í spænsku). Þetta er í raun ekki gagnrýni á fagið heldur skólastofunina en þetta var afleitt; lélegt skipulag og kom niður á bíómyndatímunum þar sem mér fannst erfitt að njóta myndanna vegna þreytu. Margar myndanna sem við horfðum á voru algjörar must-see (t.d. Some like it hot, Chinatown, Casablanca) og aðrar sjúklega skrítnar (t.d. Man bites dog!! og Paprika). Ég hef í rauninni ekkert út á kvikmyndaval að setja þó svo að sumar myndanna hafi ekki fallið í kramið hjá mér. 

Mér fannst í rauninni skemmtilegast þegar Riff hátíðin var. Þá blómstraði bloggsíðan mín þar sem maður sá svo margar og áhugaverðar myndir. Ég hef líka tekið eftir því að stundum þegar ég byrja að blogga hef ég voða lítið pælt í myndinni (stundum hef ég pælt mjög mikið í henni.. mjög mismunandi auðvitað) en svo get ég skrifað helling! Það kom mér skemmtilega á óvart að sjá hversu mikil áhrif mynd hafði í raun og veru á mig án þess að ég hafði áttað mig á því. Því finnst mér þessi blogg mjög sniðug. Ég hef reyndar ekkert lesið blogg annarra. Líklega vegna þess að mér hefur kannski fundist þetta vera meira prívat heldur en það ætti að vera og vegna þess að mér finnst óþægilegt að skrifa blogg vitandi það að mögulega lesi margir það! 
Vá ég hef í rauninni aldrei pælt í því að einhver annar lesi þetta. Óþægilegt! En það er sniðugt að gefa stig fyrir komment eða kannski ekki beint stig heldur meira svona kannski plús ef það vantar stig uppá mánuðinn því að það er vissulega gaman að fá feedback á það sem maður er að skrifa. Og alltaf gaman að ræða kvikmyndir við aðra.

Það er einmitt annað sem mér fannst skemmtilegt. Leikstjóratímarnir! Það er ótrúlega gaman
 að sjá mynd og pæla í henni og heyra svo manneskjuna sem hugsaði þetta og bjó til segja frá sínum pælingum. Mér finnst leikstjóratímarnir virkilega skemmtilegir og gaman að heyra reynslusögur. Ég tel að í rauninni hafi ég lært mest af þeim. (kannski eru meira að segja einhverjir sem hafa áhuga á að fara meira út í kvikmyndagerð og gott að fá góð ráð!). Það gæti meira að segja verið gaman að horfa á eldri íslenskar myndir, ekkert endilega nýjar, ef að leikstjórarnir væru til í að koma. Það er líka mun ódýrara. Það er eitt sem mig langaði til að minnast á og ég hef mikið verið spurð út í af nemendum utan fagsins. Er enginn möguleiki á að fá afslætti á þessar sýningar? Þetta er svo dýrt og maður er skyldaður til þess að sjá fjöldann allan af myndum. Ég veit að það væri líklega ekkert mál að fá að horfa á eitthvað annað ef maður á ekki pening en það er bara ekki eins gaman!
 Íslenskukennararnir hafa verið duglegir (Kristín Jóns) við að fá afslætti á leiksýningar og ég sé ekki að það ætti að vera erfiðara í bíómyndatilfellum. Væri allavega sniðugt og þá myndu kannski fleiri mæta á hópsýningarnar sjálfar (ef það hefur verið vandamál í ár).

Mér fannst mjög gaman að gera maraþonmyndina. Það var líka einfalt einmitt vegna þess að þetta var maraþon-mynd og maður þurfti aldrei að eyða meira en einum degi í hana. Það finnst mér vel heppnað og skemmtilegt. Sniðugt að hafa þetta svona snemma árs. Það er hins vegar of mikið að taka upp tvær myndir eftir áramót. Það er allt brjálað í þessum mánuðum! Ég veit ekki hvort að það væri hægt að hafa heimildamyndirnar fyrir áramót. Kannski byrja að taka þær þá upp, klippingar í desember og janúar og sýndar svo í lok jan. (ég sá núna að þú varst með þetta sem spurningu og ég tel að hiklaust ættirðu að vera strangur á að skiladagur heimildamynda sé fyrir jól eða í síðasta lagi um miðjan jan og lokaverkefni fyrir páska ef þú vilt endilega hafa bæði.) Ég er allavega sjálf að lenda í því núna að hópurinn minn virðist ekki geta komið sér saman um tímasetningu til þess að taka upp lokaverkefnið vegna þess að það er einfaldlega alltof mikið að gera. Það væri líka kannski sniðugt að sleppa blogginu fyrir þann mánuð sem maður á að skila mynd í eða eitthvað. Bara einhvern veginn þannig að það haldist jafnvægi. Þetta fag tekur upp alveg rosalega mikinn tíma og eiginlega aðeins of mikinn að mínu mati. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta eru 6 einingar og mér fyndist þetta mjög skiljanlegt ef þetta væri sí-mat. En svo er líka vorpróf! (sem verður víst að vera skv.rektor, er það ekki?) 

Mér finnst allt í góðu að gera kröfu um 2 fyrirlestra. Ég lærði helling á því að gera þá og þó svo að það hafi tekið tíma var mun auðveldara að skipuleggja það heldur en gerð stuttmyndar. 

Ég var almennt ánægð eins og ég hef áður sagt. Það sem ég hef verið að pirra mig á er bara þetta að gera bæði heimildamynd og lokaverkefni á þessum mánuðum þar sem að ég hef varla getað hreyft mig fyrir stúdentsprófakvíða og undirbúningi. Hugsa líka að það hafi verið mistök að gera heimildamynd um Herranótt þar sem að það er bara einfaldlega of seint á árinu og of nálægt lokaverkefnisskilum. Þetta fag hefur verið mikil vinna en það er allt viðráðanlegt fyrir utan alla þessa kvikmyndaGERÐ! Mér fyndist samt allt í lagi að hafa maraþonmynd, stuttmynd/heimildamynd og svo eitthvað annað lítið eins og þú varst að tala um - auglýsingu eða einhvers konar örmynd. (að gera tónlistarmyndband er sjúklega mikil vinna! þekki það af eigin reynslu)

Ég hugsa að þú þurfir ekkert að vera harðari á græjuskilum. Það er alltaf gott þegar þú minnir á þetta og lætur vita hvar dótið er statt en við erum nú tvítug flest eða að verða svo að það ætti að vera hægt að halda utan um þetta sjálfur. Þú mættir samt brýna fyrir fólki að passa vel upp á dótið og hafa jafnvel lista í töskunni um það sem á að vera þar. Mig grunar að það gæti vantað eitthvað þar í! Sem að er glatað. 

En jæja ég segi þetta gott! Takk fyrir veturinn :) Mér hefur fundist gott skipulag á þessu hjá þér og flestallt mjög áhugavert! (Ég mun nú henda inn 1-2 bloggum til þess að fá fullt fyrir aprílmánuð - er ég ekki annars með 10 í blogginu í flestum mánuðum?) 

p.s. hvenær koma einkunnirnar fyrir fyrirlestrana inn?

Kveðja 
Nanna Elísa